11.09.1944
Neðri deild: 47. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (2959)

89. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar o.fl.

Einar Olgeirsson:

Ég held, að hæstv. fjmrh. hefði verið nær að segja nokkur orð til að verja aðgerðir hæstv. ríkisstj. í sambandi við Eimskipafélagið og heildsalaokrið en vera með þung orð í okkar garð. Hann hefði líka mátt sleppa að hæla vilja sínum til samvinnu við þ. Hann hefði átt af minnast afstöðu sinnar til verkalýðsins, þegar um annað eins smáræði var að ræða og að leyfa verkamönnum að hafa einn mann í verðlagsn., en hann sá um að bola honum burt til þess að geta komið að heildsala í staðinn. — Hæstv. ráðh. talar drjúgt um, að öllum landslýð sé ljóst, hve þ. sé óhæft. Hann ætti að bjóða sjálfan sig fram í Reykjavík og biðja allan fjöldann að kjósa sig og nýja flokkinn, sem hann ætlar að stofna, en enga aðra flokka. Við skyldum sjá, hvernig færi og hve rétt hæstv. ráðh. hefur að mæla. Ég held, að Reykvíkingar mundu líta þannig á, að hann hefði ekkert á þ. að gera, enda hefur hann ekki komizt þangað.

Ræða hv. 2. þm. S-M. var undarleg og sú eina af ræðum þeim, er hér hafa verið fluttar, sem mér fannst furðulegur og ósæmilegur málflutningur, eins og þegar hv. þm. leyfir sér að lýsa yfir því, að samkomulag sex manna n. hafi leitt í ljós, að verð á landbúnaðarafurðum hafi verið of lágt, þar sem vitað er, að kjötverð 1942 var sett svo hátt, að það var 10 millj. kr. hærra en verið hefði, ef ekkert sex manna n. samkomulag hefði verið. Ég er hissa á því, að hv. þm. skuli leyfa sér jafnóheiðarlegan málflutning og þennan.

Hv. 2. þm. S-M. segir, að við sósíalistar viljum ekki taka þátt í umbótastj., en hann hefur verið að hugsa um, að við séum ekki samþykkir því að mynda stj. með Framsfl. til þess að skera niður kaup verkamanna, því að Framsfl. setti það að skilyrði fyrir þátttöku í stj., að byrjað væri á þessu. — Hv. þm. segir, að við viljum keyra allt í sjálfheldu. Ég legg það undir dóm hv. hlustenda, hvort sú yfirlýsing um vilja okkar til að mynda stj., sem ég gaf hér áðan, beri vitni um, að við viljum koma öllu í sjálfheldu. En til er einn flokkur, sem unnið hefur að þessu, sem sé Framsfl.

Hv. þm. talaði um, að nú væri á ferðinni ný kauphækkunaralda, og fór um þetta háðulegum orðum. En hv. þm. ætti sjálfur að tala við kjósendur sína á Austurlandi og spyrja þá, hvort þeim fyndist réttlátt, að Norðfirðingar t. d. hefðu aðeins kr. 1,85 á klukkustund, þegar 2 kr. væru borgaðar á Seyðisfirði. Mundi stafa hætta af því, að Norðfirðingar fengju sama kaup og Seyðfirðingar, eða mundi þjóðin bíða tjón, þó að samræming yrði á kaupi starfsmanna hins opinbera, eins og nú hefur verið farið fram á?

Þá segir hv. þm., að kommúnistar misnoti samtök verkamanna og rói undir um verkföll í því skyni að stöðva framleiðslu þjóðarinnar. Hann talar um ábyrgðarleysi verkamanna í sambandi við olíuverkfallið. En ég get lýst yfir því, að því fer fjarri, að verkamenn sýni hér annað eins ábyrgðarleysi og hv. þm. með tali sínu. Þeir telja sig að vísu hafa fullan rétt til að gera samúðarverkfall, en eru sér þess fyllilega meðvitandi, hvenær rétt sé að beita þeim rétti og hvenær ekki. Trúnaðarmannaráð Dagsbrúnar tilkynnti t. d. í dag, að samúðarverkfallið hjá „Nafta“, sem búið var að samþ., að koma skyldi til framkvæmda 14. þ. m., yrði ekki framkvæmt fyrst um sinn. — Hv. þm. talaði um leið út úr öngþveitinu, sem sé þá, að verkamenn tækju málin í sínar eigin hendur. Hann vísaði til Hafnarfjarðar sem dæmis um þetta öngþveiti og talar um fámenna klíku kommúnista, sem hafi hafnað tilboði atvinnurekenda um sömu kjör þar og í Reykjavík. Það mun vera talið af þessum hv. þm., að við séum ekki sterkir í Hafnarfirði og Sjálfstfl. og Alþfl. séu sterkari þar. Í verkamannafélaginu Hlíf í Hafnarfirði var höfð atkvæðagreiðsla nú fyrir skömmu. Eftir því sem mér er kunnugt, hafa foringjar þessara flokka mælt með því, að verkamenn tækju þeim tilboðum, sem lágu fyrir. En það var fellt með 130:1 atkv. Þegar svo er, verður ekki talað um fámenna klíku. Hér er aðeins um að ræða sjálfsagða sjálfsbjargarviðleitni hvers manns, og það liggur ekki næst okkur þm. að álasa verkamönnum að vilja fá launahækkun, ef þeir halda, að þeir geti fengið hana. Það, sem nú liggur meira á, er að fá allsherjarsamkomulag um ráðstafanir til að tryggja atvinnu manna í framtíðinni. En þannig er ekki talað við verkamenn af hálfu Framsfl., heldur er þeim ögrað með gerðardómi. Á meðan talað er til verkamanna í þeim anda, er ekki von, að vel fari. Ég er yfirleitt alveg hissa á þeirri hræsni, sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. S-M., því að hann veit vel, að við erum reiðubúnir til að taka nú þegar þátt í myndun stj., sem beitti sér fyrir því, að gerðir yrðu heildarsamningar milli atvinnurekenda og verkalýðssamtakanna um kaup og kjör til að tryggja vinnufrið í meginatriðum á grundvelli núverandi kjarasamninga með nauðsynlegum samræmingum og leiðréttingum, sem verkalýðsfélögin eru nú að vinna að, enda verði þær kaupdeilur, sem nú standa yfir, leystar um leið. Gerður verði samningur um afurðaverð landbúnaðar fyrir jafnlangt tímabil á grundvelli sex manna samkomulagsins með nauðsynlegum leiðréttingum, sem báðir aðilar, fulltrúar bænda og neytenda, komi sér saman um. En hver er þá tilgangurinn með þessari ræðu hans? Hann er sá, að koma í veg fyrir stjórnarsamvinnu, því að Framsfl. vill ekki slíka samvinnu. — Hv. þm. stoðar annars ekki að vera að keppa við Jónas, flokksbróður sinn, í kommúnistahatrinu. Hann verður aðeins enn þá leiðinlegri og klaufalegri í áróðri sínum en hinn.

Hv. þm. Hafnf. sagði, að sósíalistar hefðu átt kost á samstarfi um þessi mál síðastliðin tvö ár. Þetta er ekki rétt. Hugmyndin um skipulega hagnýtingu þjóðarauðsins til að nýskapa atvinnulífið hefur fyrst komið fram síðastliðið vor, og nú fyrst er að skapast möguleiki á því að framkvæma hana, svo að um það hefur ekki verið hægt að semja síðastliðin tvö ár. Ef hv. þm. skyldi hins vegar hafa átt við samninga þá milli Framsfl., Alþfl. og Sósfl., þá ætla ég að minna hann á, að við Framsfl. voru samningar því aðeins fáanlegir, að fallizt væri á niðurskurð á kaupgjaldi, sem sé um sams konar höfuðreglu og er nú í frv. hæstv. ríkisstj. og við erum allir á móti. Að slíkri samvinnu vildum við sósíalistar og viljum ekki ganga. Nú er hins vegar um það að ræða að semja um að tryggja þá afkomu, sem nú er, og bæta hana í framtíðinni, leggja öruggan grundvöll að afnámi atvinnuleysis í framtíðinni, en á þess háttar samningum hefur enginn kostur verið fyrr en nú.

Hæstv. fjmrh. minntist á, að verðfallið mundi skella á okkur eftir stríðslok. Ég veit ekki, hvaðan honum kemur sú vissa. Eftir síðasta stríð kom verðfallið ekki fyrr en tveim árum eftir stríðslok. Verðlaginu er haldið niðri nú, til þess að stríðsskuldirnar vaxi ekki fram úr hófi. En enginn er kominn til að segja, að almennt verðfall verði strax eftir stríð, þó að svo geti farið, að það verði. Þær ríkisstj., sem nú hafa hag af að halda kaupgjaldi og verðlagi niðri, geta eftir stríð haft hag af almennri verðhækkun. Það getur því eins farið svo, þegar Evrópa verður opnuð aftur, að verðhækkun verði. Hins vegar er sjálfsagt fyrir okkur að stöðva verðhækkunina nú og sjá, hvað setur.

Hv. þm. A.-Húnv. minntist á 500 milljónirnar, sem ég talaði um, og sagði, að þær væru eign sparifjáreigenda erlendis. Þetta fé er eign íslenzku bankanna, og þeir eru ríkiseign. En út á þessar 500 millj. skulda svo bankarnir þær sparisjóðsinneignir, sem fólkið á hjá þeim. Það þyrftu því að verða samferða tvennar ráðstafanir í hvert sinn, þegar verið væri að framkvæma þær aðgerðir, er ég gat um, annars vegar viðvíkjandi gjaldeyrisinnstæðunum erlendis, hins vegar viðvíkjandi sparifjárinneignunum hér. Segjum t. d., að Íslendingar ætluðu að kaupa vélar og efni til hraðfrystihúsa. eða síldarverksmiðja. Þá þyrftu bankar og gjaldeyrisyfirvöld í fyrsta lagi að veita erlendan gjaldeyri til kaupanna, en í öðru lagi þyrftu svo sparisjóðseigendur að leggja fram íslenzkar krónur til þessara kaupa. Það gætu þeir gert ýmist með beinu framlagi, ef þeir væru að kaupa þetta sjálfir, eða með því að leggja fram hlutafé, ef stofnuð væru hlutafélög til slíks rekstrar, eða með því að veita lánsfé til að kaupa fyrir skuldabréf, ef t. d. bæir eða ríki væru að koma þessum atvinnufyrirtækjum upp og seldu skuldabréf til að fá fé til þess. Til að fá frjáls framlög í þessu skyni þarf því mjög almennan áhuga og mikla samstillingu þjóðarinnar, og slík samstilling er, eins og þjóðfélagi voru er háttað, aðeins hugsanleg, ef öll höfuðöfl þjóðfélagsins leggjast á eitt.

Við skulum hins vegar gera okkur ljóst, hvað yrði, ef innflutningur fjár yrði ótakmarkaður og óskipulagður. Það mundi þýða, að auðugir menn gætu notað fé sitt til dýrindis lúxusbygginga, aðrir gætu eytt óhóflega miklu í alls konar húsgögn og útbúnað á heimilum. Og þó að menn færu að kaupa framleiðslutæki, þá gæti svo farið, að t. d. í Reykjavík risu upp 10 smjörlíkisgerðir, 12 súkkulaðigerðir o. s. frv., þótt þjóðinni nægði að hafa t. d. eina eða tvær af hvoru og þær gætu þá framleitt vörur fyrir helming þess framleiðslukostnaður, sem 10 eða 12 verksmiðjur þyrftu að greiða, ef allar væru hálfvinnandi með dýrum forstjórum, mörgum byggingum og tíföldum stofnkostnaði á við það, sem þyrfti að vera. Með öðrum orðum, það yrði meiri eða minni misnotkun á öllum erlendum innstæðum, ef engin skipulög samtök yrðu með þjóðinni um það, hvernig ætti að nota þær.

Til skipulagðrar og skynsamlegrar hagnýtingar innstæðnanna, t. d. til þeirrar umbreytingar á atvinnulífinu, sem ég lýsti áðan, þarf hins vegar afskipta ríkisins og samstarfs þjóðarinnar, og við vonum, að Alþ. takist nú á næstunni að koma því til leiðar.