11.09.1944
Neðri deild: 47. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í C-deild Alþingistíðinda. (2960)

89. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar o.fl.

Jakob Möller:

Hæstv. fjmrh. sagði í frumræðu sinni, að er núv. ríkisstj. tók við völdum, hefði hún talið það vera sitt höfuðhlutverk að reyna að vinna bug á dýrtíðinni í landinu, og hefði hún síðan ekkert látið ógert, sem í hennar valdi stóð, til þess að ná því takmarki. Hann sagði einnig, að tekizt hefði þessi tvö ár að halda dýrtíðinni svo í skefjum, að hún mætti nú heita óbreytt frá því, sem hún var, þegar stjórnarskiptin urðu, en nú væri fram undan veruleg aukning dýrtíðarinnar sakir verðhækkunar á landbúnaðarafurðum, og mundi vísitala þessa mánaðar hækka um 5 stig af þeim sökum og fyrirsjáanleg væri 12 stiga hækkun í næsta mánuði, ef ekkert yrði gert til þess að koma í veg fyrir hana; en auk þessarar fyrirsjáanlegu hækkunar sé yfirvofandi 14 stiga hækkun á vísitölunni, sem haldið hefur verið niðri með greiðslum úr ríkissjóði, en fram hlyti að koma, ef þær greiðslur væru felldar niður. Þannig má því í rauninni telja, að dýrtíðin sé nú orðin sem svarar 297 vísitölustigum, og hefur hún því hækkað síðan í des. 1942 sem svarar 25 vísitölustigum, en að sjálfsögðu á svo dýrtíðin eftir að vaxa enn um nokkur stig vegna afleiðinga þeirrar hækkunar, sem þegar er komin fram, og á eftir að komast nokkuð yfir 300 stig, ef ekkert verður að gert.

Ég get fullkomlega fallizt á það með hæstv. ráðh., að óvænlega horfi um afkomu atvinnuveganna og allt fjármálalíf þjóðarinnar, ef slíku á fram að fara. Og því er nú verr, að líkur eru ekki miklar til þess, að dýrtíðarflóðið láti sjálfkrafa staðar numið við þetta.

Það er því að vonum, að ríkisstj., sem hefur sett sér það markmið að vinna bug á dýrtíðinni, þykist ekki geta setið aðgerðalaus, þegar allt sígur svo mjög á ógæfuhlið, en telja sér skylt að reyna af fremsta megni að koma því til leiðar, að ráðstafanir verði gerðar til að forða þjóðinni úr þeim voða, sem yfir henni vofir. Og í því skyni hefur hæstv. ríkisstj. borið fram það frv., sem hér liggur fyrir.

Það verður nú hins vegar ekki sagt, að hæstv. ríkisstj. sé með þessu frv. að kanna ókunna stigu eða vísa á nýjar leiðir út úr þeim ógöngum, sem við erum komnir í sökum þeirrar geigvænlegu verðbólgu eða dýrtíðar, sem skapazt hefur í landinu á undanförnum stríðsárum. Ekki aðeins hefur hæstv. núv. ríkisstj, sjálf borið fram till. á Alþ. áður, sem mjög hafa farið í sömu átt og þetta frv., heldur hefur stj. og þ. fyrir tíð núv. stj. reynt þá leið, er vísað er á í frv., þ. e. lögbindingu kaupgjalds og verðlags. En ég held, að sú tilraun hafi leitt í ljós alveg ótvírætt, að sú leið sé lítt fær nema með samkomulagi við þá aðila, sem þeirri löggjöf eiga að hlíta.

Það hefur að sjálfsögðu alltaf verið til meiri hluti í þinginu, sem hefur viljað stemma stigu við vexti dýrtíðarinnar og verið reiðubúinn til þess að fylgja fram hverjum þeim ráðstöfunum, sem ætla mætti, að því orkuðu. Til þess þurfti verðlagsvísitalan ekki að komast upp í kringum 270 stig, eins og hún var skráð í des. 1942, áður en farið var að borga með henni úr ríkissjóði, og eins og hún hefur verið skráð síðustu mánuðina með milljónameðgjöf, hvað þá upp í 300 stig eða þar yfir, eins og hún fyrirsjáanlega hlýtur að fara á næstunni, ef meðgjöfin verður felld niður og þegar verðhækkun sú á innlendu afurðunum, sem ráðgerð er, kemur til framkvæmda. Og ef það þyrfti ekki annað en einhvern lagastaf um bann gegn hækkun kaupgjalds og verðlags til þess að ráða niðurlögum dýrtíðarinnar, þá væri hér ekkert vandamál við að fást, af því að þá hefði dýrtíðin verið stöðvuð fyrir löngu. En það þarf meira til þess en lagastafinn einan, það þarf skilning almennings á því, að stefnt sé út á ófæru með því að gefa dýrtíðinni lausan tauminn, og umfram allt þarf fórnfúsan vilja til þess að hlíta þeim ráðstöfunum, sem gerðar kynnu að verða til þess að hafa hemil á dýrtíðinni og stöðva kapphlaupið milli kaupgjalds og verðlags. En sjást þess þá nokkur merki, að slíkur skilningur eða slíkur vilji sé fyrir hendi nú? — Ég held, hvað sem nú skilningnum líður, að fórnfýsin sé mest fyrir annarra hönd.

Það vantar að vísu ekki, að háværar raddir heyrist um það, að dýrtíðina verði að stöðva, hvað sem það kosti. En margir eiga þó einkum við það, sem það mundi kosta aðra en þá sjálfa. Enn síður vantar þó hitt, að Alþ. sé úthúðað fyrir aðgerðaleysi í þessu efni og fyrir það, að það geti ekki komið sér saman um neitt. Og fannst mér hæstv. ráðh. að óþörfu og órökstutt taka undir þann són. Sannleikurinn er hins vegar sá, að Alþ. hefur gert allt, sem í þess valdi hefur staðið, til þess að halda dýrtíðinni í skefjum án þess að bera fyrir borð hag einnar stéttar frekar en annarrar. Og m. a. hefur, eins og ég drap á, verið reynd sú leið, sem hæstv. stj. vill nú láta leggja út á á ný, þ. e. lögbinding kaupgjalds og verðlags, og skal ég nú rifja upp sögu þeirrar tilraunar, því að það er nauðsynlegt til þess að geta gert sér grein fyrir því, hvers árangurs mundi að vænta af nýrri tilraun í þá átt, auk þess sem hv. þm. S.-M. sagði þá sögu ekki alls kostar rétta áðan.

Það var, eins og kunnugt er, einkum Framsfl., sem beitti sér fyrir því, að l. yrðu sett um bann við hækkun kaupgjalds og verðlags, og á haustþinginu 1941 var af hans hálfu borið fram lagafrv. þess efnis. Þegar í stað var hafinn ákafur andróður gegn þeirri lagasetningu, bæði utan þings og innan. Var það Alþfl., sem forystuna hafði um þann andróður. Sjálfstfl. tók þá þann kostinn að reyna að koma á sáttum og vildi a. m. k. láta reyna samkomulagsleiðina, áður en í odda yrði látið skerast. Tekizt hafði, áður en til þingsins kasta kom, að koma í veg fyrir uppsögn kaupsamninga af hálfu verkamannafélagsins Dagsbrúnar, og yfirleitt var því líklega tekið af andstæðingum lögbindingarinnar, að með frjálsum samtökum mundi geta tekizt að koma í veg fyrir verulegar kauphækkanir.

En það fór á allt annan veg. Samkomulagsleiðin fór alveg út um þúfur. Hvert félagið á fætur öðru sagði upp kjarasamningum, og krafizt var verulegra kauphækkana, og engar miðlunartilraunir báru árangur. Og sannleikurinn er sá, að í rauninni má segja, að þar hafi ekki aðeins verið um að kenna andstöðu verkamanna eða verkalýðssamtakanna. Það var þá lítill eða enginn áhugi á því meðal atvinnurekendanna, að kaupgjaldinu væri haldið niðri. Það var því auðsætt, að stórfelld kauphækkun og þar af leiðandi stórfelld hækkun verðlagsins í landinu var yfirvofandi, ef ekkert yrði að gert.

Þegar samkomulagsleiðin var þannig úr sögunni, áttu ríkisstj. og Alþ. ekki nema um tvennt að velja, annaðhvort að leggja árar í bát og láta skeika að sköpuðu um vöxt dýrtíðarinnar eða þá að reyna að lögbinda kaupgjald og verðlag. Og þá varð það að ráði að grípa til þess úrræðis, sem hæstv. ríkisstj. er nú að benda þinginu á, að lögbinda kaupgjald og verðlag. — Meiri hl. þáv. ríkisstj., með Framsfl. og yfirgnæfandi meiri hl. Sjálfstfl. á Alþ. á bak við sig, taldi það með öllu óverjandi að láta nokkurs ófreistað til þess að hamla á móti dýrtíðarflóðinu. Og þess vegna voru sett brbl. um gerðardóm í kaupgjalds- og verðlagsmálum og þau síðan staðfest af Alþ. með yfirgnæfandi meiri hl. atkvæða. Og síðan tók gerðardómurinn til starfa. Fyrsta kaupgjaldsmálið, sem kom til hans kasta að fjalla um, mun hafa verið kaupgjald járnsmiða. Og um það fjallaði hann raunar miklu fremur sem sáttanefnd í vinnudeilum en sem gerðardómur. Ég ætla, að segja megi, að járnsmiðirnir hafi fengið kröfum sínum fullnægt svona nokkurn veginn, eins og engin gerðardómsl. hefðu verið til. Hins vegar er það rétt, að prentarar fengu sínum kröfum ekki fullnægt og tóku aftur upp vinnu við svo búið. En það var ekki einvörðungu gerðardómsl. að þakka eða kenna. Kaupgjald almennra verkamanna kom ekkert til kasta gerðardómsins að sinni. Hins vegar var það opinbert leyndarmál, að kaupgjald í verkamannavinnu hækkaði óðum bak við tjöldin þrátt fyrir gildandi kjarasamninga og gerðardómsl., með þeim hætti, að atvinnurekendur og verkamenn komu sér saman um hærra kaupgjald en greiða bar samkv. kjarasamningum Dagsbrúnar og án þess að bera það undir gerðardóminn. En væru einhverjir atvinnurekendur, sem ekki vildu sæta því, þá var bara gengið þegjandi úr vinnu hjá þeim, eins og að lokum varð úr í hafnarvinnunni, þegar hún stöðvaðist algerlega og við borð lá, að siglingar stöðvuðust af þeim sökum, af því að verkamenn voru ófáanlegir til að vinna að skipaafgreiðslu fyrir það kaup, sem heimilt var að borga. Þá varð ekki hjá því komizt að úrskurða hafnarverkamönnunum opinberlega kauphækkun til samræmis við tekjur annarra verkamanna, sem fengu ólöglega greitt hærra kaup en samningar ákváðu og samþykki gerðardómsins var áskilið til, að mætti hækka.

Og nú rek ég ekki þessa sögu lengra, þó að fleiri dæmi og jafnvel átakanlegri mætti telja fram um það, í hvert ófremdarhorf í þessum málum var komið, þegar gerðardómsl. að lokum voru afnumin. En það er með öllu tilhæfulaust, sem hv. þm. S-M. hélt fram í ræðu sinni, að gerðardómsl. hefðu verið numin úr gildi og allar dýrtíðarráðstafanir felldar niður eftir kröfu kommúnista og í sambandi við stjórnarmyndun sjálfstæðismanna vorið 1942.

Að sjálfsögðu má nú varpa því fram, að saga gerðardómsl. hefði getað orðið á allt annan veg, ef betur hefði verið á haldið og l. verið framfylgt með óbifanlegri festu. Og það skal þá líka fúsiega játað, að sú saga hefði getað orðið nokkuð á annan veg. Það hefði verið hægt að stöðva vinnuna í smiðjunum um ófyrirsjáanlegan tíma og um leið fiskveiðar og siglingar á skipunum, er viðgerðar þurftu með. Og svo mátti náttúrlega láta alla hafnarvinnu liggja niðri og stöðva þannig einnig siglingar á þeim skipum, sem vinnustöðvunin í smiðjunum náði ekki til. En er það ekki einmitt þetta, stöðvun atvinnurekstrarins í landinu, sem við viljum koma í veg fyrir? Erum við ekki einmitt að reyna að finna einhver ráð til þess að vinna bug á dýrtíðinni, af því að við þykjumst sjá það fyrir, að þegar verðlag lækki í viðskiptalöndum okkar, þá muni atvinnurekstur okkar ekki geta risið undir tilkostnaðinum með óbreyttu eða hækkandi kaupgjaldi og verðlagi innanlands og hann hljóti þá af þeim sökum að stöðvast? Það er sú stöðvun, sem við óttumst, og það er hrunið, sem af slíkri stöðvun mundi leiða, sem við viljum afstýra.

Það hefði náttúrlega ekkert vit verið í því að framkalla stöðvun atvinnurekstrarins í landinu á árinu 1942 með einstrengingslegri framkvæmd gerðardómsl. Gerðardómsl. höfðu þann tilgang að reyna að stöðva dýrtíðina, en ekki atvinnureksturinn. En til þess að sú tilraun gæti tekizt, þurfti þess með, að þeir, sem l. áttu að hlíta, létu sér skiljast það, að þeim væri það sjálfum fyrir beztu, að hemill yrði hafður á dýrtíðinni. Og við, sem að setningu þeirra l. stóðum í ríkisstj. og á Alþ., höfðum trú á því, að takast mætti að koma mönnum í skilning um það, að þeir væru litlu betur á vegi staddir, þó að þeir tvöfölduðu kaup sitt, ef af því leiddi, að nauðsynjar þeirra tvöfölduðust í verði. En sú trú okkar hefur látið sér til skammar verða. Við biðum ósigur og tókum afleiðingunum af því. En af því leiðir líka óhjákvæmilega, að við erum ragir við að endurtaka tilraunina.

Ég skal þó taka það fram, að ég er jafnsannfærður um það nú og ég var, þegar gerðardómsl. voru sett, að ríkisstj. og Alþ. hafi borið skylda til þess að gera þá tilraun, eins og þá stóð á. Og ef það er trú núv. hæstv. ríkisstj., að skilningur manna á nauðsyn og réttmæti slíkra ráðstafana hafi aukizt að verulegum mun síðan, þá get ég líka látið mér skiljast það, að hún hafi ekki þótzt geta komizt hjá því að feta nú í fótspor okkar, sem að gerðardómsl. stóðum, og að endurtaka tilraunina og ganga þó feti lengra með því að beita sér fyrir verulegri lækkun kaupgjalds og verðlags, sem vissulega má gera ráð fyrir, að þörf verði á, áður en lýkur.

En ég spurði um það áðan, hvort menn þættust sjá þess nokkur merki, að sá skilningur á nauðsyn slíkra ráðstafana, er var ekki fyrir hendi, þegar gerðardómsl. voru sett, mundi vera fyrir hendi nú, — eða sá fórnfúsi vilji, sem vissulega er ekki síður þörf á nú, ef til beinnar lækkunar á að koma á kaupgjaldi og verðlagi. Náttúrlega benda verkföllin, sem þegar hefur verið stofnað til og fram undan virðast vera, í allt aðra átt. En ef svo er, að skilningurinn og fórnarviljinn hafi vaxið til muna frá því, sem áður var, er þá ekki enn álitamál, hvort ekki væri eins mikils eða meiri árangurs að vænta af samkomulagsumleitunum eins og af lagaboðum?

Það hefur verið talið, að til þess að koma í veg fyrir algert öngþveiti í kaupgjalds- og verðlagsmálum gæti verið um tvær leiðir að velja: samkomulagsleiðina og löggjafarleiðina. En ég hygg, þegar betur er að gáð, að leiðin sé aðeins ein: samkomulagsleiðin og engin önnur. Mér virðist, að reynsla sé fengin fyrir því, að löggjafarleiðin hljóti að mistakast og leiða einmitt til þess öngþveitis, sem henni er ætlað að bægja frá, nema hún byggist á samkomulagi, og virðist þá alveg einsætt að reyna a. m. k. samkomulagsleiðina til þrautar, áður en gripið er til hinnar. En ef samkomulag næst ekki, þá er það af því, að almenningur í landinu hefur ekki enn öðlazt réttan skilning á því, hvernig hag hans verði bezt borgið. En slíkan skilning, held ég ekki, að menn geti öðlazt með neinum atbeina löggjafarinnar. Menn öðlast hann aðeins með því að horfast í augu við veruleikann.