11.09.1944
Neðri deild: 47. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (2962)

89. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Hv. þm. Hafnf. beindi því til mín, að það væri alvarlegt, að menn þyrftu að kaupa landbúnaðarafurðir miklu dýrara en hægt er að fá þær erlendis frá. Það var ekkert tilefni fyrir hv. þm. Hafnf. að beina þessu sérstaklega til mín. Ég benti nefnilega á undan honum á það sama, að hvaða vörur sem við tækjum hjá okkur, væri framleiðslukostnaður þeirra miklu hærri en í öðrum löndum. Þetta er það, sem ég hef alltaf bent á. En það er ekki aðeins smjör og kjöt. Ekki tekur betra við, þegar ýmis dæmi eru tekin úr iðnaðinum, svo sem hæstv. fjmrh. gerði áðan, en hv. þm. Hafnf. sneiddi hjá nema þessu eina dæmi, sem var hagstætt fyrir iðnaðinn. Við eigum ekkert að metast um þetta, bara að horfa í þessar staðreyndir eins og þær eru. Þessi metingur, þegar sagt er, að óviðkunnanlegt sé að kaupa smjör og kjöt dýrar en hægt er að fá það í útlöndum, er álíka og ég færi að snúa mér að hv. þm. Hafnf. og segja, að óviðkunnanlegt sé að borga íslenzkum verkamönnum hærra kaup en hægt er að fá þá fyrir frá Færeyjum. Það er bezt að viðurkenna það eins og er, að það er allt í hærra verði hér en í nálægum löndum.

Í tilefni af því, sem ég sagði um það, sem sex manna n. gerði áætlun um og útborgað var til bænda fyrir framleiðslu 1943, þá spurði hv. þm.: Hvar er mismunurinn? Og mér fannst hann hafa talsverða löngun til að koma því inn hjá mönnum, að einhver óviðkomandi hafi hirt mismuninn. Hér er aðallega um kjötið að ræða, og mismunurinn stafar einfaldlega af því, að auratalan áætluð á kg. fyrir flutningskostnaði og dreifingarkostnaði reyndist of lág, aðallega fyrir það, hve allur slíkur kostnaður hækkaði mikið. Ég held hv. þm. Hafnf. viti alveg eins vel og ég, hvað verður af peningum, sem menn taka fyrir flutning á kjöti fram og aftur um landið og til dreifingar í bæjunum. En það er þessi kostnaður, sem hefur hækkað og verður að fást borinn upp, ef bændur eiga að fá það verð, sem þeir eiga rétt til samkv. sex manna nefndarálitinu. Það þarf ekki að blanda hér inn í hálfkveðnum vísum um kaupfélög og kvittanir. Það er öllum landsmönnum vitað, að bændur sjá sjálfir um, að kaupfélög þeirra skili réttu verði fyrir vörurnar, og mun hv. þm. Hafnf. ekki þurfa að hafa neinar áhyggjur af því.

Annars er það eftirtektarvert út af því, sem talað er hér oft og mörgum sinnum um bændur og verkamenn og þar með sænska verkamenn, að við höfum fengið fyrir því áreiðanlegar heimildir í fyrra frá Svíþjóð, að þar hefur verð á landbúnaðarafurðum verið bætt upp með fullu samkv. dýrtíðarvísitölu, en kaupið aðeins með 75%. Og það var vegna þess, að þar var viðurkennt, að framleiðslukostnaður á landbúnaðarafurðum hefði hækkað meira en framleiðslukostnaður í bæjum. Stafar það af því, að kaupgjald í sveitum hefur hækkað meir vegna aukinnar eftirspurnar eftir vinnukrafti. Þess vegna er villandi, þegar talað er um, að hlutfallinu í þessu efni hafi verið raskað að ófyrirsynju í byrjun styrjaldar, þar sem landbúnaðarafurðir voru hækkaðar um nokkur prósent meir en kaupgjald. Það stafaði af sömu ástæðu og í Svíþjóð.

Þá eru örfá orð til hv. 2. þm. Reykv. Hann kallaði það furðulega staðreynd, — og hafði þar reyndar óviðurkvæmileg orð til mín, — að ég héldi fram, að sexmannanefndarálitið sýndi landbúnaðarafurðaverð of lágt, þegar n. sat á rökstólum. Hvernig dettur honum í hug að bera á móti því, þegar það vita allir landsmenn, að landbúnaðarafurðir voru þá hækkaðar í samræmi við kaupgjald? Og fyrir hvað var það gert? Af því að það var talið sanngjarnt. — Hann sagði, að 1942 hefði hækkun ekki átt sér stað um haustið. En hvað sannar þetta annað en það, að frá því um haustið 1942 og þangað til 1943, að sex manna n. tók til starfa, hefur þessu hlutfalli verið raskað fyrir þá kauphækkun, sem varð á því tímabili. Hefði því hv. þm. getað betur varið tíma sínum en með skætingi um þetta.

Um samstarfsvilja hv. 2. þm. Reykv. og Sósfl. verð ég að segja örfá orð. Hann sagði, að þeir hefðu verið að koma sér saman við Framsfl. um árið, en það hefði strandað á því, að Framsfl. var ófáanlegur, nema kaupgjald væri lækkað, og ættu sósíalistar þakkir skildar fyrir að hafa ekki ginið við slíku. En það er bara sá galli, að þetta er algerlega rangt. Framsfl. gerði þetta ekki að skilyrði fyrir þátttöku í stjórnarmyndun, þó að um þetta væri rætt. Hann gerði málefnatilboð, þar sem þessu atriði um kaupgjald og afurðaverð var sleppt. Og því var hafnað af Sósfl. og valin hin hæðilegustu orð. Þar var engin kauplækkun né neitt annað í þá stefnu, og þó var tilboðinu svarað þannig, að ekki væri hægt að stofna til samvinnu nema fallast á það, sem Sósfl. héldi fram, annað þýddi ekki að nefna. Þetta var nú viljinn á þeim tíma. — Enn fremur sagði annar formaður flokksins, að það gengi glæpi næst, ef Sósfl. léði máls á því, eins og á stóð, að ganga í stj. Og svo er hv. 2. þm. Reykv. að fárast um, þegar ég dreg í efa, hversu mikið liggi á bak við yfirlýsingu hans, og segist leggja það undir dóm hlustenda, hvort hljóðið í sér hafi ekki verið þannig, að það væri áreiðanlegt, að Sósfl. vildi endilega koma á friði í landinu. Ég held þessi hv. þm. verði að hafa flesta landsmenn afsakaða. Þeir hafa heyrt hljóðið áður og vita, hvað er á bak við það. En ef nú hv. þm. hefur tekið sinnaskiptum og sé meira að marka hljóðið í honum en áður, þá er það gott, — en er þá aðeins fyrir það, að hann í sambandi við fyrri framkomu sína hefur fengið þá áminningu, sem hefur dugað, og sér sér nú þann kostinn vænstan að beygja sig fyrir almenningsálitinu, sem áreiðanlega vill ekki þau vinnubrögð, sem hann og flokkur hans hafa haft fram að þessu.

Fróðlegt væri út af yfirlýsingu hv. 2. þm. Reykv. um samstarfs- og umbótavilja Sósfl., að hv. þm. og aðrir þm. flokksins gerðu grein fyrir, hverju þeir hafa afrekað á Alþ., síðan þeir komu hingað tíu saman fyrir tveimur árum. Mér er ekki kunnugt, að þeir hafi komið fram nokkru máli, sem nokkuð var varið í fyrir þá, sem þeir höfðu umboð fyrir. Þeir hafa haft annað að starfa, að koma í veg fyrir, að hér gætu myndazt slík samtök. Hafi þeir nú breytt afstöðu sinni, er það gott. Reynslan leiðir nú það í ljós.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að ég ætti að athuga, að kjósendur á Austfjörðum mundu vilja samræmingu á kaupgjaldi. Ég efast ekki um, að verkamenn á Austfjörðum vilji fá eins og þeim er mögulegt. En það eru líka til menn á Austfjörðum, sem stunda sjávarútveg, og ekki síður almennir fiskimenn en útgerðarmenn, sem alls ekki eru hrifnir af þeirri dýrtíð, sem flæðir nú yfir landið, og að fyrir aðfarir hv. 2. þm. Reykv. og fleiri er búið að gera þá að hálfdrættingum á við þá, sem sitja í landi. Hv. þm. og félagar hans, sem kynnu að hafa einhvern áhuga á því, hvað menn vilja á Austurlandi, ættu að hugleiða þetta. Með þessu er ég ekki að hafa neitt af verkamönnum, sem réttlátt er. En ég bendi aðeins á staðreynd. Og það sorglega er, að margir, sem hafa fengið talsverða kauphækkun, eru litlu betur settir en áður, ef þeir eru nokkru betur settir, vegna þess hve dýrtíðin fer hraðvaxandi. Og ef þeir svo ættu eftir að fá atvinnuleysistímabil út á þessa kauphækkun, þá held ég, að ávinningurinn fari að verða lítill.

Hv. 2. þm. Reykv. minntist hér nokkuð á Dagsbrúnardeiluna. Ég gagnrýndi fyrirætlun Dagsbrúnarstj. um samúðarverkfall, sem ná skyldi til verkamanna víðs vegar og stöðva mundi flutninga í landinu. Ég gagnrýndi þetta hógværlega og sanngjarnlega og taldi þessa fyrirætlun runna undan rifjum annarra en verkamanna sjálfra. Ekki hafði hv. 2. þm. Reykv. talað í margar mínútur, þegar hann tekur undir þetta og upplýsir, að þegar verkamenn í trúnaðarmannaráði Dagsbrúnar tóku málið í sínar hendur, þá sáu þeir, að þessi aðferð var óskynsamleg, og breyttu þessari ákvörðun. Þetta veit ég, að allir sæmilegir menn í landinu telja skynsamlega að farið og ekki heppilegt, hvorki fyrir verkamenn né aðra, að halda á þessum málum eins og fyrirhugað var. Það sýnir, að gagnrýni mín var réttmæt og tímabær, því að ekki vissi ég, að þessari ákvörðun hafði verið breytt.

Þá var hv. 2. þm. Reykv. að afsaka sósíalistana, að mér skildist, að það væru ekki þeir einir, sem bæru ábyrgð á vinnudeilunni í Hafnarfirði, og ber það einnig vott um, að hv. þm. er eitthvað farinn að hafa beyg af almenningsálitinu í þessu máli, sem er vel farið. Ég efast ekki um, að þegar verkamenn þar taka þessi mál sjálfir til yfirvegunar, þá muni þeir finna skynsamlega niðurstöðu.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði það firn mikil að heyra, að ég héldi, að hann og aðrir í Sósfl. vildu nú ekki koma á samstarfi, þar sem ég vissi, að þeir vildu stöðva kaupið og byggja á sexmannanefndarálitinu um afurðaverð. Ég verð að segja, að þetta er meira en ég vissi. Og sé það rétt, þá er það í ósamræmi við það, sem nokkur maður vissi áður. En það er gott, ef rétt reynist, en það mun sýna sig á næstunni, hvort afstöðu þeirra er þannig háttað.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) taldi mig hafa hallað réttu máli, þegar ég ræddi sögu verðfestingarmálsins, og talaði um lítilfjörleg afskipti stj. Sjálfstfl. til að viðhalda gerðardómsl. Hann hefði ekki átt að ásaka mig, vegna þess að ég byggði á upplýsingum frá hv. þm. G-K. (ÓTh), fyrrv. forsrh. Sjálfstfl. í þessari stj., þar sem hann, eftir að hann hafði látið af völdum, afsakaði, hversu lítið hægt var að gera í dýrtíðarmálunum, einmitt með því, að hlutleysisflokkar stj. hefðu ekki þolað, að öðruvísi væri haldið á en gert var.

Ég verð að segja, að mér kom heldur á óvart hljóðið í hæstv. fjmrh. Ég verð að líta svo á, að ég fyrir mitt leyti hafi rætt þetta frv. af rökum og án þess að gefa nokkurt tilefni til þeirrar — ég vil segja útrásar, sem hann gerði á Framsfl. ekki síður en aðra flokka. Ég tók fram, að Framsfl. væri reiðubúinn til að semja um leiðir í dýrtíðarmálunum, sem hægt væri að ná sama marki með og vekti fyrir hæstv. ríkisstj. Og hæstv. ráðh. veit, að það eru til fleiri leiðir en hann leggur til í frv. sínu. En í stað þess að taka þessu boði Framsfl. kemur hér fram yfirlýsing um það frá stj., að ef ekki sé búið að ráða málinu til lykta eins og henni þyki rétt eftir fjóra daga, muni hún segja af sér. Ég verð að segja, að ég finn stórkostlega að þessari málsmeðferð hjá hæstv. stj. Ég benti á, að engar umr. fóru fram af hálfu stj. við flokkana, áður en útvarpsumr. hófust. Þær eru haldnar nú, 11. sept. Og eftir 3–4 daga verður að vera búið að ráða málinu til lykta, ef stj. á ekki að fleygja öllu frá sér. Ég álít, að þessi vinnubrögð séu ekki í samræmi við þá ábyrgðartilfinningu, sem vænta má hjá stj., sem hefur tekið sér fyrir hendur að fara með mál þjóðarinnar á þeim að mörgu leyti erfiðu tímum, sem við lifum á. Það er sjálfsagt að eyða næstu dögum til að gera sem ýtarlegastar athuganir á þessum málum og reyna að fá sem öflugust samtök, og skulum við vona, að það takist, enda þótt ég verði að segja, að mér finnst ekki vera þannig haldið á þessum málum, að lausn þeirra sé gerð léttari en efni standa til. Góða nótt.