09.01.1945
Efri deild: 96. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (2972)

238. mál, lendingarbætur í Þorkötlustaðahverfi í Grindavík

Flm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. — Ég hef borið hér fram frv. um lendingarbætur í Þorkötlustaðahverfi í Grindavík. Þar í hverfinu hagar svo til, að undanfarin ár hefur verið unnið þar nokkuð að lendingarbótum, og hefur verið byggð þar bryggja og komið fyrir sérstakri vélvindu til þess að setja upp skip í lendingu. Til þessa verks hafa hverfisbúar notið nokkurs styrks úr ríkissjóði, auk þess fjár, sem þeir hafa sjálfir lagt fram. Nú er fyrirhugað að stækka bryggjuna nokkuð, lengja hana og breikka og jafnvel hækka. Samkvæmt áætlun vitamálaskrifstofunnar er talið, að þessar endurbætur og breytingar muni kosta 150 þús. kr. Í fjárl. fyrir 1945 eru veittar úr ríkissjóði 25 þús. kr. sem byggingarframlag til þessa verks. Enda þótt þessi styrkur hafi verið veittur úr ríkissjóði til þessara endurbóta bæði nú á þessu ári og áður, hafa ekki verið til nein hafnarl. fyrir þetta hverfi, og að sjálfsögðu er óviðeigandi að veita fé úr ríkissjóði til slíkra framkvæmda, án þess að til séu um þennan lendingarstað sérstök lög, eins og mun vera yfirleitt þar, sem veitt er fé úr ríkissjóði til lendingarbóta. Ég hef því borið frv. fram til þess að fá bætt úr þessum ágalla, og er það samið eftir fyrirmælum, sem gilt hafa um aðra lendingarstaði í landinu. Frv. er í engu frábrugðið öðrum slíkum l. að öðru leyti en því, þar sem tekin eru upp í það þau nöfn, sem við eiga í sambandi við lendingarstaðinn og fjárhæðina, sem sérstaklega er áætluð í þessu tilfelli. Ég vænti því, að frv. geti fengið fljóta afgr., og leyfi mér að leggja til, að því verði vísað til 2, umr. og sjútvn.