09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

27. mál, skipun læknishéraða

Páll Hermannsson:

Eiginlega hefur hv. þm. Barð. tekið af mér ómakið, því að ég hafði brtt. nákvæmlega sama efnis á prjónunum og þá, sem hann lagði fram. Það er víst rétt athugað hjá honum, að sú ákvörðun að láta Loðmundarfjörð fylgja Borgarfjarðarhreppi, hefur verið tekin án þess að hugsa málið ofan í kjölinn. En þetta hefur verið gert til þess að láta hreppana vera fleiri en einn í læknishéraðinu og íbúa héraðsins fleiri en þessa 44 íbúa Loðmundarfjarðar. Það breytir engu, í hvaða læknishéraði Loðmundarfjörður er. Loðmfirðingar munu, hvort sem er, sækja lækni til Seyðisfjarðar, hvað sem stendur á pappírnum. Það er mun erfiðara fyrir þá að sækja til Borgarfjarðar. Í góðu veðri er farið á sjó, og er tiltölulega skammt til Seyðisfjarðar. En ef farið er landleiðina, þá er í báðum tilfellum yfir fjöll að fara, en leiðin til Borgarfjarðar erfiðari.

Ég hafði veitt því athygli, að það var varhugavert að gera ráð fyrir að svona lítil sveit ætti að sækja til læknis í annað en sitt hérað. Það gæti hugsazt, að læknir á Seyðisfirði hefði ekki eins vakandi auga á skyldu sinni við þá, eftir að þeir hefðu verið fluttir eða látnir tilheyra öðru læknishéraði. Ég vildi því, að hv. d. vildi fallast á, að heppilegra væri að láta Loðmundarfjörð tilheyra Seyðisfjarðarhéraði hér eftir sem hingað til.

Hv. þm. Barð. hefur lagt fram brtt., sem er efnislega eins og sú, sem ég hafði hugsað mér, að öðru leyti en því, að mín till. er í 2 liðum, þar sem í fyrra liðnum er ákveðið, að Loðmundarfjarðarhreppur skuli ekki teljast til Bakkagerðishéraðs, en í hinum síðari, að hann falli undir Seyðisfjarðarhérað.

Þá leyfi ég mér að leggja till. skriflega fram fyrir hæstv. forseta, ef hann, vildi nota úr henni það, sem hann kynni að telja, að þyrfti.