14.12.1944
Efri deild: 88. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (2996)

194. mál, eyðing á rottum

Frsm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Það er ekki þörf á að hafa langa framsögu fyrir því máli, sem hér liggur fyrir. Allshn. hefur athugað þetta frv. og hefur fallizt á, að rottuplágan sé orðin það alvarlegs eðlis, að ástæða sé til þess að gera nokkrar ráðstafanir til þess að útrýma henni.

Eins og kunnugt er, hefur þessi rottufaraldur töluvert aukizt við dvöl setuliðsins hér á landi, og sérstaklega hafa rottur útbreiðzt miklu víðar en áður var vegna þess, að þær hafa safnazt að þeim herbúðum, sem setuliðið hefur reist víða úti um sveitir landsins.

Bæjarfélögin eða kaupstaðirnir hafa yfirleitt áður gert ráðstafanir, hver á sínum stað, til að reyna að eyða rottum hjá sér, en það, sem torveldar þetta einna mest, er, að til þess að árangur verði af eyðingu á rottum á einum stað, verður samtímis að fara fram eyðing á rottum á nærliggjandi stöðum. Sveitarfélögin munu ekki hafa sinnt þessu fram að þessum tíma, sennilega vegna þess, að rottugangur er þar minni, en eins og nú standa sakir er nauðsynlegt, ef árangur á að nást af tilraunum þessum, að eyðingarstarfsemin sé framkvæmd samtímis á sem flestum stöðum, eða a.m.k. þeim stöðum, sem liggja svo nálægt hver öðrum, að líklegt sé, að rotturnar hlaupi á milli.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir, að þessi eyðing fari fram einu sinni á ári og samtímis á öllum stöðum, þar sem rottu verður vart.

Það varð hins vegar að samkomulagi að fella úr frv. ákvæði um, að þessi eyðingarstarfsemi skyldi einnig ná til músa. Eins og hv. þm. er kunnugt, var frv. miðað við eyðingu þessara dýrategunda beggja. En n. leit svo á, að hvort tveggja væri, að minna tjón væri af músagangi að öllum jafnaði, þótt að vísu hafi komið fyrir, þegar sérstaklega hart hefur verið í ári, að mýs hafi flykkzt heim að bæjum og valdið nokkru tjóni, en það eru frekar undantekningartilfelli, og svo eru kannske tiltölulega önnur ráð notuð við að eyða músum heldur en sú aðferð, sem sérstaklega er gert ráð fyrir í þessu frv. gegn rottum. N. gerir því nokkrar breyt. við frv., sem miða eingöngu að því að fella niður ákvæði um eyðingu músa.

Brtt. eru hér á þskj. 659 og að vísu við nokkuð margar gr. frv., en efnislega er breyt. þó aðeins þessi eina, að það nái ekki til eyðingar músa. Að öðru leyti liggur þetta frv. þannig fyrir, að þetta eyðingarstarf á rottum sé falið bæjarstjórnum og sveitarstjórnum, og kostnaðinum er skipt á milli bæjar- og sveitarfélaga og ríkisins, þannig að bæjar- og sveitarfélögin á viðkomandi stöðum, sem eyðingin fer fram, greiði kostnaðinn að frá hlutum, en ríkið að 1/3 hluta. Ég geri ráð fyrir, að það megi teljast sanngjarnt, þegar svo víðtækar ráðstafanir eru gerðar til þess að eyða þessari plágu, að ríkið taki nokkurn þátt í þeim kostnaði, eins og hér er gert ráð fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frv. Allshn. leggur til og hefur verið sammála um, að frv. verði samþ. með þessari einu breyt., að það nái ekki til eyðingar músa. Einn nm., hv. 1. þm. Eyf., var að vísu ekki viðstaddur afgreiðslu frv., vegna veikinda, en ég geri ráð fyrir, að hann hefði ekki gert ágreining, a.m.k. ekki um þessa breyt., sem n. leggur til að verði.