14.11.1944
Neðri deild: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

183. mál, nýbyggingarráð

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. — Ríkisstjórnin flytur þetta frv. til að staðfesta eitt af þeim fyrirheitum, sem gefin voru í málefnasamningi þeim, er ríkisstjórnin og stuðningsflokkar hennar gerðu með sér, áður en ríkisstjórnin tók við völdum.

Í raun og veru get ég að mestu látið nægja að vísa til greinargerðar fyrir frv., en ég vil þó gefa lítilsháttar skýringar.

Ríkisstjórnin hefur komið sér saman um, eins og getið er í 2. gr. frv., að nýbyggingarráð sé skipað 4 mönnum. Skal hlutverk þeirra vera að gera heildaráætlun, sem fyrst um sinn sé miðuð við 5 ár, um — nýsköpun íslenzks þjóðarbúskapar. Þá segir í 3. gr. frv., að nýbyggingarráð hafi leyfi til að ráða sérfræðinga og annað starfsfólk í þjónustu sína. Þykir mér líklegt, að enginn hafi við það að athuga, því að eðlilega getur nýbyggingarráð ekki aflað og unnið úr þeim .gögnum, er það þarfnast. Þá er og gert ráð fyrir, að fela megi nýbyggingarráði störf milliþinganefnda, sem nú eru starfandi, ef ríkisstjórnin telur það heppilegt.

Ríkisstjórnin lítur svo á, að keppa beri að því að fækka en ekki fjölga opinberum nefndum, sem mörgum vinnst misjafnlega vel. Ber þó ekki að skilja þetta svo, að þær hafi ekki rækt sín störf, því að margar þeirra hafa afkastað miklu verki. En ríkisstjórnin telur, að betur geti farið á að fela nýbyggingarráði störf þessara nefnda, og vill hafa óbundnar hendur í því efni.

Ég held, að þau rök, sem liggja til flutnings þessa frv., séu svo greinileg, að óþarft sé að ræða það frekar að svo stöddu. Ég vænti þess, að frv. fái skjóta afgreiðslu, og legg til, að því verði síðan vísað til fjhn.