22.01.1945
Efri deild: 108. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (3017)

262. mál, orlof

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Allshn. hefur flutt þetta frv. að beiðni Alþýðusambands Íslands. Í l. er svo ákveðið, að deilur um orlof og orlofsfé skuli fara fyrir félagsdóm. Þetta hefur orðið til þess, að öllum, sem í einhverjum deilum hafa lent varðandi þetta atriði utan Reykjavíkur, hefur orðið næstum ókleift að koma málum sínum fram. Og jafnvel hér í Reykjavík, þar sem félagsdómur á þó sæti, hefur þetta orðið til þess að kljúfa í sundur málssókn, sem eðlilega hefði átt að vera í einu lagi.

Ég hygg, að málfærslumaður Alþýðusambandsins hafi sannfærzt um, að þetta væri mjög óheppilegt, og Alþýðusambandið komizt á sömu skoðun og því lagt til að breyta þessu á þann hátt, að mál varðandi þetta efni verði meðhöndluð af venjulegum dómstólum og með venjulegum hætti, þó þannig, að málið þarf ekki að liggja fyrir sáttanefnd, heldur héraðsdómara þeim, sem á að leita um sættir.

Ég held, að ekki geti orkað tvímælis, að þetta sé eðlileg málsmeðferð og félagsdómur hafi í rauninni engar sérstakar forsendur til að kveða upp í þessum efnum réttari dóm en hinir venjulegu dómstólar, og sé því á allan hátt eðlilegt að taka upp þá aðferð, sem frv. leggur til.

Má geta þess, að n. hefur ekki athugað málið á fundi. Hins vegar hef ég með öðrum nefndarmanni borið þetta saman við gildandi lög, en í heild höfðum við ekki áður talað neitt um þetta, þó að við höfum borið ráð okkar saman utan fundar. Læt ég mér því í léttu rúmi liggja, hvort þessu verður vísað til nefndar eða menn telja, að þetta muni nægja.