09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

27. mál, skipun læknishéraða

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Út af till. hv. þm. Barð. um Loðmundarfjörð og undirtektum hv. 1. þm. N.-M. vil ég leyfa mér að álíta, að tekin sé rétt stefna, ekki sízt af því, að hv. 1. þm. N.-M. er fylgjandi henni, en hann hlýtur að vera allra manna kunnugastur afstöðu þar allri.

Mér skildist á ræðu hv. 5. þm. Reykv., að landlæknir hefði ekki nógu gott innræti. Um það hygg ég, að vandi sé að deila, og mun ég ekki fara út í það, en eigi veit ég, hvað getur bent til þess, að hv. þm. hafi á réttu að standa.

Út af orðum hv. þm. S.-Þ. vil ég taka fram, að ég álít ekki rétt, að landlækni sé gefið að sök, hve illa gengur að fá lækna út á land. Ég held, að það sé forstaða háskólans, sem fyrst og fremst verður að taka í taumana. Hv. þm. taldi landlækni eiga sök á því, að svo margir kandídatar eru erlendis. Hann ásakar landlækni um svefn í starfinu. Slíkt er ekki réttmæt ásökun. Það er stríðsfyrirbæri, að læknar hafa ekki fengizt í nokkur héruð úti á landi, auk þess sem þeir hafa ekki viljað yfirgefa þann glaða eld, sem Reykjavík og nágrenni hefur að bjóða. Ef það er sök landlæknis, að læknishéruðin eru óskipuð, ætti það t.d. að vera sök biskups, að svo mörg brauð eru laus sem raun ber vitni, og Búnaðarfélags Íslands, hversu margir bændur kjósa annað fremur en sitja jarðirnar úti um sveitir landsins. — Þetta er stríðsfyrirbæri, eins og ég tók fram áður, og þegar heilbrigðari tímar koma, veit ég, að þetta jafnast að nokkru leyti. Ég vona, að Alþ. beri gæfu til að bæta úr þessu vandræðaástandi á hagfelldan og farsælan hátt.