25.09.1944
Neðri deild: 55. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í C-deild Alþingistíðinda. (3070)

135. mál, loftferðir

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. — Ég var nú satt að segja varla farinn að sjá þetta frv., þegar það var rætt á síðasta fundi í þessari d., og hafði á aðra lund ekki vitað af, að það væri neitt í uppsiglingu, en frv. er hins vegar allróttækt, og fannst mér þess vegna, að rétt væri að fara um það nokkrum orðum nú þegar við þessa 1. umr.

Það er nú líklegt og gefur auga leið, að flugsamgöngur verða mikilvægur þáttur í okkar samgöngumálum, eins og segir í grg. þessa frv. Það er líka sýnilegt, að áhugi meðal almennings fyrir flugi er mikill, eins og fyrir öllum samgöngubótum, og tiltölulega margir ungir menn, sem hyggja gott til að geta gert flugmálin að starfi sínu. Nú er það að vísu svo, að hingað til hefur ríkisvaldið ekki látið sig þessi mál að verulegu leyti skipta að öðru leyti en því, að skipaður hefur verið flugmálaráðunautur og svo veittur nokkur styrkur til Flugfélags Íslands í fjárl. Án skilyrðis hefur það verið hingað til, sem flugfélagið hefur fengið þennan styrk, og hefur það sennilega þurft hans að ég hygg, því að allur byrjunarrekstur, sérstaklega á þessu sviði, hlýtur að verða fjárfrekur og erfiður. Það má segja, að það er vel farið, að sú reynsla er til, sem náðst hefur fyrir atbeina Flugfélags Íslands og líka fyrir atbeina þeirra félaga eða þess félags, sem gerði tilraun til að koma hér á flugsamgöngum, þegar Lufthansavélarnar voru fengnar hingað til lands. Allt þetta er mjög þýðingarmikið til þess að undirbúa frekara framtíðarstarf.

Eftir l. gr. þessa frv. er ríkisstj. heimilt að leggja fram fé úr ríkissjóði til aukningar á hlutafé Flugfélags Íslands, þannig að ríkissjóður eigi helming af öllu hlutafénu. Þar með er stefnt að því, að ríkið sjálft gerist beinn aðili nú þegar á þessu stigi málsins að flugferðum í sambandi við þetta sérstaka flugfélag. Í 2. gr. frv. er svo að því vikið, að ríkisvaldið hafi fullkominn atkvæðisrétt að því er snertir það hlutafé, sem frá ríkissjóði er fram lagt. Þá kemur 3. gr. um einkarétt handa Flugfélagi Íslands, þegar svo langt er komið, að ríkissjóður er orðinn eigandi að helmingi félagsins, og á sá einkaréttur að ná til flugferða ekki einu sinni innanlands heldur einnig til útlanda bæði með póst og farþega. Hér er þá beint að því stefnt að búa til nú þegar félag, sem hefur einkarétt á flugferðum innanlands og til annarra landa.

Ég gat þess áðan, að það væri gleðilegt og gott, að framtakssamir menn hefðu hafizt handa um stofnun flugfélaga hér á landi. En mér þykir fyrir því að verða þess var, að í þessu frv. virðist hæstv. stj. ekki gera ráð fyrir nema einum af þessum aðilum eða réttara sagt öðrum þeim aðila, sem nú er fyrir hendi, því að í viðbót við Flugfélag Íslands og aðrar fyrri tilraunir, sem gerðar hafa verið í þessu skyni, hefur verið komið hér upp nú fyrir tiltölulega skömmum tíma nýju félagi, sem heitir h/f Loftleiðir. Þetta félag hefur líka byrjað flugferðir hér á landi. Að vísu hefur það ekki eins langan starfstíma á bak við sig og Flugfélag Íslands, en þar er svo að segja bitamunur, en ekki byrðar, því að tíminn er svo stuttur hvort heldur er, en bæði er það, að að því standa menn, sem hafa fengið góða kennslu og mikla þjálfun, og í öðru lagi hefur þetta félag lagt út í stóran kostnað til þess að afla sér flugvéla. Mér þykir furðulegt, — og mætti kveða sterkara að orði, — að hæstv. ríkisstj. virðist með þessu frv. horfa alveg yfir, að hér sé annað félag til en Flugfélag Íslands, með allri virðingu fyrir því góða félagi, því að hvergi er gert ráð fyrir því í þessu frv. að taka minnsta tillit til þess, að borgarar í þessu þjóðfélagi hafa lagt út í stór fjárframlög til að afla flugvéla og hafa þegar hafið flugferðir og meira að segja annazt að öllu leyti síldarflugið í sumar. Til þessa virðist ekkert tillit tekið, og ef frv. hæstv. stj. verður samþ. óbreytt, virðist ekki annað liggja fyrir hjá þeim mönnum, sem hafa stofnað þetta flugfélag, en að gera upp sínar sakir og selja sínar vélar og þá ekki öðrum en Flugfélagi Íslands, sem þeir með miklum kostnaði og fyrirhöfn hafa eignazt eða eru sumpart á leiðinni. Þessi harðýðgislega aðferð hæstv. stj. er með þeim firrum, að menn hljóta að mótmæla gersamlega svona málsmeðferð. Það hefur verið venjulegt hvarvetna og líka hér í íslenzkri löggjöf, þegar ríkisvaldið hefur seilzt inn á svið athafnalífsins, þar sem hagsmunir einstaklinga og félaga hafa verið fyrir, en ríkið hefur séð þjóðarnauðsyn til að gera þar nokkurt strandhögg, að þá væri fyrir því séð, að þeir borgarar þjóðfélagsins, sem yrðu fyrir árekstri eða réttindamissi fyrir aðgerðir ríkisins, ættu skaðabætur eftir mati og yfirleitt að fyrir þeirra hlut yrði séð á sómasamlegan hátt. Þetta hafa verið, að ég held, taldir góðir mannasiðir á hinu háa Alþ. fram að þessu. En í þessu frv. bregður nú svo undarlega við, að það virðist vera óhjákvæmilegt, þó að ég vilji ekki segja, að það hafi verið tilgangurinn, ef frv. verður gert að l., eins og ríkisstj. leggur það fram, að með því sé hið nýja félag, h/f Loftleiðir, í hel slegið á einn eða annan hátt. Þetta er kannske ekki tilgangurinn, en afleiðing samþ. frv. mundi vera þetta, og væri það mjög ómaklegt.

Ég skal ekki á þessu stigi málsins — og ekki án þess gefið verði sérstakt tilefni, en ef það verður gefið, þá kann það viðhorf að breytast — fara út í einstök atriði, sem snerta afskipti ríkisvaldsins af hinu nýja flugfélagi, heldur halda mér við það, sem er frv. ríkisstj. um þetta mál. En vera má, að það, sem ég nefndi, kæmi til athugunar. Það er ekki nauðsynlegt, því að frv. hæstv. ríkisstj. er nægilegt tilefni þeirrar gagnrýni, sem ég vil fyrst og fremst hafa hér í frammi.

Nú er það svo, að því er ég hef fregnað, að enn einn aðili í þessu landi hefur áhuga á, að meiri flugferðir geti komizt á, sem ekki hefur eignazt flugvélar að því er vitað er, eins og h/f Flugfélag Íslands og h/f Loftleiðir, og er það Eimskipafélag Íslands. Mér er tjáð, að hjá Eimskipafélagi Íslands séu allmikil heilabrot um þetta mál og jafnvel standi til að boða til sérstaks hluthafafundar innan langs tíma til þess að ræða þessi mál. Ætla ég að þetta muni vera rétt.

Að þessu öllu athuguðu virðist mér, að það sé nauðsynlegt að beina því til þeirrar hv. n., sem á að fjalla um þetta mál, sem eftir till. hæstv. ráðh. er hv. samgmn., að hún vildi athuga fleiri hliðar á þessu máli heldur en fram koma hér í þessu frv., t. d. að hún athugi það, að það er ekki vel frambærilegt, eins og ástæður liggja til, að samþ. það, að h/f Flugfélag Íslands fái einkarétt á flugvélum án þess að taka hið allra minnsta tillit til þess, að nýtt flugfélag hefur verið stofnað, sem þegar er tekið til starfa og á hér bæði vélar og áhöld. Þá væri æskilegt, að hv. n. heyrði einnig álit Eimskipafélags Íslands um þessi mál.

Með þessu, sem ég nú segi, er ég á engan hátt að mæla á móti því prinsipi, sem kann að liggja fyrir að því er snertir það, að hér sé eitt öflugt flugfélag starfandi. Ég segi ekkert um það á þessu stigi málsins. Það hefur sína kosti, og það hefur líka, a. m. k. í byrjun, nokkra ágalla. Mér virðist, að það sé hægt að koma auga á það, að áhugi fyrir bættum farkostum hafi aukizt mikið síðan h/f Loftleiðir tók til starfa hér. Bendir það nokkuð í þá átt, að á sviði þessara mála, eins og á mörgum öðrum sviðum, sé hollt, að einhver samkeppni — hófleg þó — sé fyrir hendi. Hins vegar skal ég játa það, að margt getur mælt með því, að aðilinn, sem slíka starfsemi hefur á hendi, sé sá sterkari, jafnvel þótt það sé ekki nema einn aðili. En þetta þarf hvort tveggja að meta, og verður Alþ. að gera það, er það fær málið til framhaldsmeðferðar.

Skal ég svo ekki fjölyrða um þetta mál að sinni. En ég hef bent hér á þessi atriði og ætla, að þau út af fyrir sig séu talsvert íhugunarefni fyrir hv. samgmn., en hins vegar alls ekki loku fyrir það skotið, að mér hafi láðst að geta um aðrar hliðar þessa máls, sem líka þurfa athugunar við. Kemur það þá að sjálfsögðu fram við meðferð málsins á þinginu.