28.09.1944
Neðri deild: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (3074)

135. mál, loftferðir

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. — Þar sem þetta frv. kemur til þeirrar n., sem ég á sæti í, get ég látið nægja fá orð. Aðalatriði frv. eru tvö. Í fyrsta lagi það, að ríkissjóður nái yfirtökum í Flugfélagi Íslands með því að eignast 50% af hlutafé, og í öðru lagi, að fél. er veitt heimild til einkaréttar á flugferðum.

Um fyrra atriðið vil ég segja það, að mín skoðun er sú, að hlutverk ríkissjóðs sé fyrst og fremst að skapa skilyrðin fyrir flugsamgöngum. Það hlýtur ríkissjóður að gera með því að annast byggingar og framkvæmdir á nauðsynlegum mannvirkjum í sambandi við flugsamgöngur. Ég hygg, að ríkissjóður eigi ekki að ljá flugmálunum lið með því að gerast sjálfur rekandi þeirra. Ég hygg, að stuðningi ríkissjóðs, sem er sjálfsagður, megi ekki verja á þá lund, sem ríkisstj. leggur til. Ríkisstj. er á réttri braut með frv., þar sem megináherzlan er lögð á að skapa skilyrði fyrir flugsamgöngum og byggingu nauðsynlegra mannvirkja á kostnað ríkissjóðs. Það er rétt stefna, en mér virðist vera lagt út á hála braut með því að ríkissjóður kosti kapps um að ná meiri hl. í fél., sem hefur starfað nokkuð lengi og vitað er, að er allfjársterkt. Fél. er ekki í neinum nauðum, og því gengur vel að auka hlutafé. Ég hygg einnig, að það sé hæpin ráðstöfun fyrir ríkissjóð, sem á ekki of mikið aflögu, að leggja fram 1½ millj. kr. í hlutafé, sem einstaklingar eru fullfærir um að afla. Þetta er bæði óþarft og óhentugt fyrir ríkissjóð. Ég tel koma til mála, að ríkissjóður legði fram eitthvert aukið hlutafé til þessa fél., án þess að hann næði meiri hl., t. d. allt að 20%.

Þá kem ég að síðara atriðinu, einkaréttinum til handa fél. Í því sambandi vil ég segja, að ég er sammála hæstv. ráðh. um, að flugfél. eigi að vera sem fæst. Ég hygg, að það sé heppilegast fyrir þróun flugmálanna, að það séu sem fæstir aðilar, sem með þessi mál fara. Þá má vænta meira öryggis og samræmdari aðgerða. Það er mikið atriði, að þessar samgöngur séu vel skipulagðar, og það eru meiri líkur til þess, að það fáist tryggt, ef félögin eru fá, helzt eitt. Nú er hins vegar búið að stofna tvö flugfélög, og auk þess hefur Eimskipafélag Íslands ákveðið að hefjast handa, og verð ég þá að segja, að mér finnst sú aðferð, sem lögð er til í frv., allhæpin, og hart fyrir h/f Loftleiðir að sæta slíkum kostum. Það er alveg auðsætt, að ekki er hægt að leggja fél. niður og samþ. þetta frv. eins og það er. T. d. er ekki gert ráð fyrir neinum bótum til þess fél., sem skipað væri að leggja niður starfsemi sína, né heldur Flugfélag Íslands skyldað til að kaupa vélar þess. Allt þetta finnst mér hæpið, einkum eftir að vitað er, að ekki hafa farið fram frekari samningar um að sameina félögin en hefur verið lýst. Það yrðu að fara fram samningaviðræður milli flugfél. og reyna að ná samkomulagi um sameiningu félaganna.

Þessi skoðun mín haggast ekki, þótt ég viti, að Flugfélag Íslands er náttúrlega sá aðili, sem af mörgum ástæðum virðist mega treysta bezt til að hafa forustuna í þessum málum. Það er eldra félag og hefur sérstaklega góðum mönnum á að skipa, og má því segja, að því beri nokkur forusta. En þó að ég viðurkenni þetta, tel ég mjög harkalega að farið með frv. gagnvart félagi, sem hefur farið mjög sómasamlega af stað.