09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

27. mál, skipun læknishéraða

Gísli Jónsson:

Ég skal ekki vera margorður. Mér kom það einkennilega fyrir, þegar hæstv. forsrh. fór að mótmæla því, sem ég hafði sagt hér um landlækni, og fann það út úr ummælum mínum, að ég áliti, að landlæknir hefði slæmt innræti. (Forsrh: Það var út af orðinu „þvingun“, sem hv. þm. notaði.) Þetta voru ekki mín ummæli. Hins vegar er ég þakklátur hæstv. forsrh. fyrir það, þegar hann einn tók svari fjarverandi embættismanns, sem ráðizt hafði verið á. Ég hef sjálfur orðið fjórum sinnum á þingtímanum að taka svari embættismanna ríkisins, sem ráðizt hefur verið á, þar sem viðkomandi ráðh. hafa ekki gert það. — Þegar ég talaði um þvingun, átti ég við, að Alþingi þvingaði menn til að hafa læknissetur annars staðar en þeir óskuðu, og kom það ekkert við innræti landlæknis. — Af grg. landlæknis er sjáanlegt, að það hefur vakað fyrir honum að reyna að taka þetta litla hérað og flytja það til. En hann sér, hvað það er óeðlilegt, og þess vegna vill hann bæta úr því með því að láta það njóta réttar til þess að sækja lækni til Seyðisfjarðar.

Hitt þótti mér enn einkennilegra, þegar hæstv. forsrh. lýsti yfir, að hann tæki þessi rök fyrst gild, þegar þau kæmu frá hv. 1. þm. N.-M. Ég hélt, að það væri hægt að taka rök gild, hvaðan sem þau kæmu, og það alveg eins, þótt þau væru borin fram af þm. Barð. (Forsrh.: Hv. 1. þm. N.M. hefur staðarþekkingu.)

Út af ræðu hv. 5. þm. Reykv. vil ég benda á, að vitanlega er afstaða hans til þessa máls byggð á hreinum misskilningi. Það er alveg rétt, sem landlæknir heldur fram, að ástandið í þessum málum er ekki því að kenna, að illa sé gert við læknana úti á landi. Það er því að kenna, að þeir hafa ekki það verksvið, sem þeir þurfa að hafa. Þeir vilja ekki binda sig úti á landi til þess að glata allri þekkingu sinni, sem þeir hafa verið í 10–15 ár að afla sér. Það er rangt hjá hv. 5. þm. Reykv., að kjör læknanna séu slæm, þau eru mjög sæmileg og miklu betri en hjá öðrum embættismönnum, t.d. sýslumönnum. Og ástæðan fyrir því, að ekki fást læknar í þessi héruð, er sú, að þeir hafa ekki nægilegt verksvið.

Það er ekki heldur rétt, að landlæknir hafi ekki bent á úrræði í þessum málum. Hann hefur bent á þá leið, sem ég tel rétta, að skipta ekki héruðunum í sundur, heldur að láta aðstoðarlækna þangað, sem þess er þörf, til þess að alltaf sé til læknir á staðnum og sumpart til þess, að hægt sé að gera meiri og betri aðgerðir, þegar læknarnir eru tveir heldur en einn. Ég er undrandi yfir því, að hv. 5. þm. Reykv. skuli halda því fram, að landlæknir sé hér ekki að koma með úrbætur, því að það er auðvitað alveg röng skoðun á málinu.

Ég skal svo að síðustu taka það fram, að með því að till. hv. 1. þm. N.-M. fer í sömu átt og mín till., þó að mín gangi heldur lengra, þá skal ég draga hana til baka, því að með till. hv. 1. þm. N.-M. fæst sú úrbót á frv. fyrir þá, sem búa í Loðmundarfirði.