12.12.1944
Efri deild: 86. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (3086)

214. mál, útsvör

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Allshn. hefur flutt þetta frv. samkvæmt beiðni hæstv. félmrh., og fylgir því ýtarleg grg., og læt ég því að mestu leyti nægja að vísa til hennar. Frv. er ýtarlega athugað og undirbúið af bæjarstjórn Ísafjarðar og borgarritaranum hér og einnig af hæstv. félmrh. og mér, og er það álit þessara aðila, að það mundi bæta fyrir innheimtu útsvara, ef frv. þetta væri samþ. Þetta frv. er fyrst og fremst um það að færa gjalddaga útsvara fram á árinu, og kannast menn við þetta, því að þetta er í raun og veru staðfesting á tveimur lagafrv., sem Alþ. hefur samþ. undanfarin ár og valdið hafa deilum milli mín og hv. þm. Barð. Reynslan sýnir, að greiðsludögum þarf að fjölga á útsvörum, og er það hentugra fyrir almenning að hafa greiðslurnar fleiri og því ekki eins háar í hvert sinn. Ég legg ekki til, að frv. fari í n., en legg þó eigi á móti því, ef það er ósk deildarmanna. Ég hef þá gert grein fyrir frv. og vona, að það fái fljóta afgreiðslu.