14.11.1944
Neðri deild: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

183. mál, nýbyggingarráð

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum, gerði forsætisráðherra grein fyrir stefnuskrá stjórnarinnar. Þá var ekki ástæða né tækifæri til að ræða þessa stefnuskrá. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er áframhald þessarar yfirlýsingar, og mun ég nú ræða þetta nokkuð og áhrif þess á atvinnumál landsmanna.

Hæstv. forsrh. gat þess, að tvö meginverkefni þessarar stjórnar væru: Í fyrsta lagi að tryggja sjálfstæði -landsins út á við og í öðru lagi nýsköpun atvinnuveganna. Fyrra atriðið ræði ég ekki að sinni, en vil taka hið síðara til athugunar.

Flestir munu nú óska þess, að fjármagn það, er safnazt hefur hin síðustu ár, mætti verða til þess að koma atvinnumálum þjóðarinnar í æskilegt horf, en til þessa þarf annað og meira en frómar óskir.

Það hefur valdið mönnum mjög áhyggju, hversu nú horfir í atvinnu- og fjármálum þjóðarinnar, og þess er full þörf, að menn geri sér ljóst, hvert stefnir og hver skilyrði eru fyrir því, að nýsköpun atvinnulífs í landinu verði hafin.

Höfuðskilyrði þess, að slík nýsköpun sem hér um ræðir geti átt sér stað, er það, að útlit sé fyrir, að rekstrarhagnaður þeirra atvinnutækja, er kaupa skal, verði það mikill, að hann skapi eigendum sínum svipaða afkomu og lífsþægindi og öðrum landsmönnum. Eins og nú er, þá er fiskurinn seldur við geypiverði, en þó er ástandið þannig, að a.m.k. smáútvegurinn ber sig ekki nema mokafli sé. Ef afli bregzt, eins og vitanlega getur komið fyrir, þá mundi þessi atvinnuvegur dragast saman til óbætanlegs tjóns fyrir alla landsmenn. Með þessu er þó ekki nema hálfsögð sagan, því að eins og kunnugt er, hefur verðlagi innanlands verið haldið niðri með milljónagreiðslum úr ríkissjóði, og ef bændur hefðu ekki nú í haust slakað til frá sínum rétti, hefði öllu verið stefnt í fullkomið öngþveiti. Þetta ásamt fleiru orsakar, að menn eru nú ragari að ráðast í framkvæmdir eða kaup á atvinnutækjum. Um 300 umsóknir höfðu borizt um þá 45 mótorbáta, er útvega átti frá Svíþjóð, en síðar, þegar til kom, gáfu sig ekki fram nema 40 menn, sem vildu kaupa þessa báta. Stafar þetta sennilega nokkuð af því, hve bátarnir eru dýrir, en nokkru mun ráða, hversu nú horfir óglæsilega um þennan atvinnurekstur. Varla skrúfar maður svo frá útvarpinu, að maður heyri þar ekki auglýst atvinnutæki til sölu, og stafar þetta einnig af hinu sama, og ekki eru líkur til, að úr því rætist, meðan dýrtíðin er hin sama.

Í iðnaðinum er það svo, að varla er framleidd hér nokkur vara, sem er samkeppnisfær við erlenda framleiðslu. Að vísu er þetta e.t.v. ekki án undantekninga.

Um landbúnaðinn er það að segja, að sá hluti framleiðslunnar, sem seldur er á innlendum markaði, þarf ekki stuðning, — það er mjólkurframleiðslan, — og nú hafa bændur gefið eftir uppbætur, sem þeir áttu kröfu til. Um útflutninginn er það að segja, að greiða þarf verulegar uppbætur til að halda fólki við þessa framleiðslugrein. Þetta stafar af hinum óskaplega framleiðslukostnaði á þessum vörum.

Það hefði verið eðlilegt, að Alþingi hefði byrjað á því að gera raunhæfar ráðstafanir til að stöðva dýrtíðina, ekki með niðurborgunum, heldur með lækkun allra þeirra liða, sem áhrif hafa á verðlagið, svo sem verzlunarálagningu og kaupgjaldi. Ef þessi leið hefði verið farin, hefði nú ekki þurft að hækka launagreiðslur úr ríkissjóði, sem eru honum í rauninni algerlega ofviða. Í öðru lagi hefðu menn fundið, að hér var um að ræða raunhæfar ráðstafanir. Bjartsýnin hefði aukizt og trúin á áhrif slíkra aðgerða.

Þessi leið var hin eina, sem var fær og sæmileg fyrir Alþingi og ríkisstjórn. Þá hefði verið skapaður grundvöllur fyrir nýskipun atvinnuveganna, og landsfólkið hefði fengið trú á þeim framkvæmdum, sem hefja átti.

En í stað þess að fara þessa leið, sneru menn sér að bændum einhliða til að fá þá til að gefa eftir það, sem þeim bar, enda þótt mönnum hlyti að vera ljóst, að slíkt var neyðarúrræði.

En ástæðan til þess, að lengra varð ekki gengið, var alger mótstaða þeirra, sem telja sig fulltrúa launa- og kaupgjaldsstéttanna. Að myndun þessarar stjórnar standa sem kunnugt er 3 flokkar, og minnist ég ekki, að slíkur pilsaþytur hafi átt sér stað við myndun nokkurrar stjórnar. Þegar hún kom til valda, lýsir hún yfir, að nýsköpun atvinnuveganna væri annað höfuðmarkmið sitt.

Ég hef nú bent á, hvað var eðlilegt og samboðið þingi og stjórn, en hér var farið öfugt að, algerlega gagnstæð stefna var valin.

Hið fyrsta, sem ríkisstjórnin gerir, er að ganga á milli atvinnurekenda. og fá þá til að hækka laun launahæstu iðnstéttanna, sem hafa miklu hærri laun og betri kjör heldur en þeir, er vinna að framleiðslunni. Hún hefur lofað nýjum launalögum og dýrum alþýðutryggingum, sem eru út af fyrir sig góðar, en hafa í för með sér mikil útgjöld fyrir ríkissjóð.

Allt, sem ríkisstjórnin hefur látið uppi um fyrirætlanir sínar, miðar að því, að framleiðslukostnaðurinn hækkar, en lækkar ekki. M.ö.o., allt það, sem hæstv. ríkisstjórn hefur látið uppi um fyrirætlanir sínar og ákveðið er, gengur í þá átt að hækka framleiðslukostnað í landinu, ofan á það ástand, sem fyrir var, og að hækka útgjöldin, enda þótt það lægi fyrir, þegar stjórnin tók við völdum, að tugmilljóna króna halli væri á fjárl. ríkisins. Það er talið, að það þurfi að bæta á fjárl. a.m.k. 40 millj. kr. útgjöldum til þess að þar komi allt með, sem hæstv. ríkisstjórn hefur fyrirhugað. Og sumir af talsmönnum núverandi stjórnarflokka slógu föstu við 1. umr. fjárl., að það vantaði 50–60 millj. kr. útgjöld á fjárl., og var þá ekki talið sumt, sem síðar kom á daginn, að stjórnin hefur í hyggju. — Það er þess vegna að mínum dómi fullkomlega furðulegt, hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur farið af stað að þessu leyti. Og mér virðist ekki hægt að sjá enn sem komið er nokkuð um það, að hæstv. ríkisstjórn hafi yfirleitt nokkra stefnu í atvinnumálum þjóðarinnar, nema ef mætti segja, að þessi kaupgjaldsmál mörkuðu hennar stefnu, sem ég hef talið, en öll ganga í þá átt, að erfiðleikarnir verða meiri en þeir voru fyrir, og voru þeir áreiðanlega fullnógir áður. — Nú er vitanlega ekki nema gott um það að segja yfirleitt að bæta lífskjör manna, auka tryggingar og annað þess háttar. Og því færi betur, að grundvöllur atvinnulífsins hefði gefið raunverulega möguleika til allra þeirra hækkana, sem hafa farið fram á undanförnum árum. En það er ómögulegt að komast fram hjá því — hversu vel sem við viljum að þessu leyti —, að þegar svo er ástatt, að laun manna í landinu og tekjur þeirra, sem ekki stunda framleiðslu, eru miklu hærri en þeirra, sem stunda framleiðslustörf, getur það ekki staðizt til lengdar. Ég veit, að á einum myndarlegasta smábátaútgerðarstað á landinu áttu þeir, sem reru á bátunum á síðasta sumri, þess enga von að fá eins miklar tekjur og hinir, sem unnu í landi. Og niðurstaðan var, að eitthvað um 40 útlendir sjómenn voru fengnir á bátana, en Íslendingar unnu í landi, þar sem meira kaup var í boði. En á síðast liðnu hausti fór fram á þessum stað svokölluð samræming á kaupgjaldi, sem gekk í þá átt, að kaupið var enn hækkað, m.ö.o., að hlutur þeirra, sem í landi vinna, var dreginn fram, og þess vegna jókst enn bilið á milli þeirra, sem vinna í landi, og hinna, sem fara út á hafið. Og þetta var samræmingin, sem núverandi stjórnarflokkar áttu fullan hlut að, að gerð var, um það leyti sem stjórnin tók við völdum. — Þetta er lítið dæmi. Og þetta getur ekki staðizt, hversu sem menn vildu óska þess, að það gæti staðizt. Við vitum allir, að verðlag og kaupgjald í landinu er nú þegar orðið hærra en fiskverðið getur þolað. Þessu er svo ofurlítið haldið niðri, það er komið í veg fyrir, að það komi fram í fullum mæli. Menn stinga höfðinu ofan í sandinn með því að borga hluta af þessu úr ríkissjóði, sem brátt getur ekki greitt það. Og samt er framleiðslukostnaðurinn of hár, eins og þetta gífurlega ósamræmi í tekjum manna ber ljósan vott um, í sjóþorpum sérstaklega, og svo í tekjum sveitafólks miðað við það, sem er í kaupstöðunum. Það er ekki hægt að bera á móti þessari staðreynd.

Nú veit ég, að ef flokkarnir, sem standa að ríkisstj., hefðu viljað ráða bót á þessu, hefðu þeir getað það. En ég veit, að í þessum flokkum hefur algerlega skort skilning á því, að þörf væri á að gera þetta. Og þess vegna hefur ekkert verið gert í því. Og það er fullkomlega aðfinnsluvert.

En það, sem þó er aðfinnsluverðara en að láta þessar aðgerðir bíða, þar sem ríkisstjórnin gerir enga tilraun til þess að leysa erfiðleikana að þessu leyti á skynsamlegum og eðlilegum grundvelli fyrir framleiðsluna, — það, sem sérstaklega er ámælisvert hjá hæstv. ríkisstj., er, að hún skuli lýsa yfir, að það sé hennar markmið að vinna að nýsköpun atvinnuveganna, og að hún skuli lýsa yfir, að fara skuli fram gerbylting í þessu efni, þegar jafnframt er deginum ljósara stefnuleysi það, sem hún hefur látið viðgangast í þessu efni. Ég veit, að hæstv. núverandi ríkisstj. hefði getað ráðið verulega bót á ástandinu í þessu efni, ef hún hefði viljað. En hún hefur ekki viljað það. Og það er út af fyrir sig ámælisvert. En hitt er þó miklu ámælisverðara, að láta þetta óbærilega ástand haldast og gefa út um leið, að á þessum grundvelli eigi að fara fram nýsköpun atvinnuveganna.

Ég geri ráð fyrir því, að það sé svo um okkar hæstv. ráðherra og ríkisstj., að þeir vilji gjarnan sjá nýsköpun í okkar atvinnuvegum komast í framkvæmd — eins og aðrir landsmenn vilja og að þeir vilji gera sitt til þess, að slíkt geti átt sér stað. En þeir hafa freistazt til þess að láta sínar fyrirætlanir um þetta í ljós á þann hátt, að það er fullkomlega gefið í skyn, að þeir hafi eygt einhver fullkomin úrræði til þess að koma þessu í framkvæmd. En ég efast um, að þeir hafi eygt þau, og byggi það á því, að þeir hafa alveg látið undir höfuð leggjast að laga grundvöllinn undir þá byggingu, sem þeir ætla að reisa.