10.01.1945
Efri deild: 98. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (3102)

214. mál, útsvör

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Ég hef í sjálfu sér ekki mikið um þetta frv. að segja að svo stöddu, allra sízt áður en hv. þm. Barð., sem borið hefur fram allmargar brtt., hefur tekið til máls. Ég mun út af fyrir sig ekki ræða hans brtt. á þessu stigi málsins. Annars hefur mér skilizt, að það sé í raun og veru óaðgengilegt að fallast á nokkra þeirra, nema brtt. við 3. lið b., að orðin „og styrktarfjár“ í 1. mgr. b-liðar falli niður. Mér finnst það sanngjörn till., og ég fyrir mitt leyti mæli með henni. Till. allar eru misjafnar í eðli sínu, en fara allar meira og minna í þá átt að gera þau fyrirmæli, sem hér voru sett, þýðingarlítil. Og sérstaklega, ef megintill. hv. þm. Barð. verður samþ., þá er tilgangi þessarar lagasetningar alveg eytt. Varðandi eitt atriði þessara till. hans, vil ég þó drepa á það, að ég hef borið fram brtt. við 29. gr., a-lið: Upphaf orðist svo: „Kaupgreiðendur ábyrgjast eftir kröfu sveitarstjórnar, að útsvarsgjaldendur“ o.s.frv. Það er hægt að fallast á eitt meginatriði brtt. hv. þm. Barð. a.m.k. varðandi þann lið, og skilst mér, að það ætti að geta orðið til samkomulags. Það er sanngjarnt, að ef kaupgreiðendur eiga að ábyrgjast útsvar, þá séu bornar fram kröfur um það, eins og um getur í þessari brtt. minni.

Ég mæli með því, að frv. verði samþ. með þessari brtt., sem ég gerði, og þessum brtt: hv. þm. Barð., sem ég gat sérstaklega um.