25.01.1945
Neðri deild: 112. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1264 í B-deild Alþingistíðinda. (3114)

214. mál, útsvör

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir þetta með fyrirvara, því að mér þótti n. ekki ganga nógu langt. Hv. frsm. n. hefur nú gert grein fyrir brtt., og hef ég þar litlu við að bæta, en þó láðist honum að geta um brtt. á þskj. 931, frá allshn. Og þakka ég hv. frsm. fyrir undirtektir hans við till. mínar.

Um 1. brtt. mína, sem er lítil efnisbreyting, er það að segja, að ég vil, að viðkomandi bæjar- eða sveitarstjórn sé heimilt að skylda kaupgreiðendur til að greiða þennan hluta útsvars fastra starfsmanna sína með 6 jöfnum greiðslum, þannig að gjalddagar verði einnig 2. janúar og 1. febr. næsta ár eftir gjaldárið.

Reynslan hefur sýnt það hér í Reykjavík, að nauðsynlegt er, að útsvörin séu tekin í nógu mörgum skömmtum, svo að ekki safnist fyrir háar upphæðir. Árið 1940 lögðum við til, að gjalddagar yrðu 10, en þá voru þeir ákveðnir 7. En nú er það orðin regla að hafa þá 10, og ég hygg, að þessi regla ætti að verða víðteknari en hún er. Reynslan sýnir, að þessi regla er nauðsynleg, og með því móti koma greiðslurnar örar inn í bæjarsjóðinn.

Um 2. brtt. mína, sem sumir hv. þm. telja varhugaverða, er það, að segja, að þegar það var ákveðið, að atvinnurekendur voru skyldugir til að halda eftir af kaupi verkamanna sinna, þá var sleginn sá varnagli, að eigi mætti ganga of hart fram í kröfum um greiðslur útsvara.

Og segir svo í l. frá 1940, b-lið 1. gr., með leyfi hæstv. forseta: „Ekki má krefjast útsvarshluta af manni, ef kaup hans fullnægir ekki brýnustu lífsþörfum hans, að dómi framfærslunefndar“, — og enn fremur: „Ekki er skylt að halda eftir útsvarshluta af minni útborgunarupphæð en 40 kr., enda líði þá minnst vika á milli útborgana.“

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það. að mörg atvik geta orðið til að gera útsvarsgreiðsluna erfiða. Menn hafa jafnvel verið krafðir veikir, og er slíkt ef til vill af vangá, en slík dæmi voru til, og þótti því rétt að hafa þennan varnagla.

Ég held ekki vernd yfir óreiðumönnum, heldur hinum, sem erfitt eiga. Margar ástæður geta valdið því, að útsvör hafi fallið í vangreiðslu, og hef ég nú fallizt á að halda megi eftir 1/3 af því kaupi, sem til útborgunar á að koma hverju sinni, hjá útsvarsgjaldanda, sem á fyrir heimili að sjá, en ella 1/3, og vildi ég ekki spenna bogann hærra. Ég hygg nú, að ég hafi lýst því, hvað fyrir mér vakir með brtt. á þskj. 933, því að 3. brtt. talar fyrir sér sjálf, og þurfa þessi lög að liggja á borði hvers atvinnurekanda. N. hefur orðið sammála um brtt. á þskj. 931, varðandi þá menn, sem vinna hjá einum og öðrum. Og var engin regla fyrir því, hve miklu mátti halda eftir af kaupi þeirra, en með þessari brtt. er það ákveðin upphæð, 10 af 100, en þó ekki af lægri kaupupphæð en 100 kr. Hefur þessi aðferð reynzt vel og gefizt vel að ná þessum hluta útsvara hjá daglaunamönnum. Ég þarf svo ekki að gera frekari grein fyrir þessu, en ég þykist geta úr hópi talað.