25.01.1945
Neðri deild: 112. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (3116)

214. mál, útsvör

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. — Það skal ekki verða langt mál. Hæstv. dóms- og félagsmrh. hefur andmælt brtt. mínum í ræðu sinni. Um athugasemd hans við fyrri brtt. vil ég segja það, að ég hygg, að hann hafi ekki lesið nógu ýtarlega, hvað í frv. felst, þar sem hann vill meina, að ég sé að draga úr fjölgun greiðsludaga. Það eru tvenns konar ákvæði í frv. eins og það er, hvernig eigi að innheimta þann hluta útsvarsins, sem lagður er á eftir áætlun, miðað við fyrra útsvarið, og það eru 4 greiðsludagar á þeim hluta útsvarsins, þ.e. 1. marz, 1. apríl, 1. maí og 1. júní. Þessum greiðsludögum er alls ekki haggað. Svo þegar kemur að innheimtu þess útsvars, sem ekki hefur verið greitt á þessum fjórum greiðsludögum, þá er spurningin, hvað greiðsludagarnir eiga að vera margir; þá vil ég ekki falla frá því, að þeir eigi að vera 6, en þó ekki fleiri en 10 greiðsludagar á útsvarið. En ég hygg, að hæstv. ráðh. hafi misskilið, hvað í þessu frv. felst, ef hann heldur, að brtt. mínar dragi úr greiðsludagafjöldanum.

Um hina brtt. vildi ég segja það, að það er algerlega ástæðulaus ótti hjá hæstv. ráðh., að sveitar- og bæjarfélög komist í gjaldþrot, þótt till., eins og hún er, yrði samþ. Hún er aðeins varnagli fyrir of mikilli harðýðgi, sem hægt er að beita, og ég leyfi mér að segja, að beitt hefur verið við innheimtu útsvara, sem ég ekki tel upp hér fyrir hæstv. ráðh., en hins vegar veit um, þar sem hefur verið farið ósæmilega harkalega að við innheimtu útsvara gagnvart einstaklingum. Þessi varnagli vil ég komist inn í lögin.

Ég skal gjarnan verða við ósk hans að taka þessa brtt. aftur til 3. umr. og umorða hana, þó aðeins á þann veg, að það, sem ég ætlast til með henni, náist, með öðru orðalagi. En það væri einfaldari lækning til þess að fullnægja ósk hæstv. ráðh. að bæta við till.: að dómi framfærslunefndar, — þ.e.a.s. um þarfir einstaklingsins. En til þess að lengja ekki umr., skal ég taka brtt. aftur til 3. umr.