22.01.1945
Efri deild: 108. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (3151)

225. mál, prófessorsembætti dr. Sigurðar Nordals

Frsm. (Kristinn Andrésson):

Herra forseti. — Ég skal taka undir það með hv. 6. þm. Reykv., að ef þetta ætti að verða nokkuð alinennt fordæmi, gæti það verið varhugavert. En flm. þessa frv. eru þeirrar skoðunar, að hér standi svo sérstaklega á, að þetta ætti ekki að þurfa að skapa fordæmi. Viðvíkjandi þeirri fyrirspurn, sem hv. þm. bað mig að svara, skal ég viðurkenna, að ég hef ekki fylgzt svo vel með gangi málsins í Nd., að ég viti, hvort þetta er eftir formlegri ósk háskólaráðs. Er það vafalaust eftir ósk Nordals sjálfs, og ég held, að það sé einnig eftir óskum prófessora háskólaráðs, sem hafa talað við þm. Nd.

Að því er snertir fyrirspurnir hv. þm. Barð., vil ég aðeins segja, að sjálfsagt er ekki ætlazt til annars en Nordal fái laun fyrir verk sín eins og aðrir prófessorar, þó að hann láti af embætti.

Að því er snertir aldurstakmarkið, þá stendur hér í 18. gr. frv., að hann skuli fá undanþágu frá kennslustörfum og ákv. um aldurstakmark opinberra starfsmanna.

Sá skilningur, sem kom í ljós í sambandi við þriðju fyrirspurnina, að Sigurður Nordal hefði hærri laun en aðrir prófessorar, er byggður á mesta misskilningi, því að hann hefur sömu laun og aðrir prófessorar við Háskólann. Á 18. gr. fjárl. hefur hann raunar nokkurn styrk, sem e.t.v. hefur átt að skoða sem uppbót á laun hans og mun vera þannig til kominn, eins og hv. þm. vita, að erlendur háskóli sótti mjög eftir að fá hann til kennslustarfa og bauð honum miklu hærri laun. En til þess að missa hann ekki frá Háskólanum hér, hefur hann fengið þessar 2000 kr. sem eins konar uppbót á launin, og get ég ekki séð, að það séu stórir fjármunir, þar sem hann hefur ekki að öðru leyti fengið neinn opinberan styrk fyrir störf sín.

Tel ég, að hæstv. Alþ. gerði mjög rétt með því að verða við þessari beiðni, jafnvel þótt hún væri aðeins komin frá honum sjálfum.