31.01.1945
Efri deild: 115. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (3166)

225. mál, prófessorsembætti dr. Sigurðar Nordals

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég á á þskj. 966 brtt., sem fer inn á það, að á eftir 1. gr. komi ný gr., sem verði 2. gr. og hljóðar svo: „Þegar dr. Sigurður Nordal hefur látið af kennslu við heimspekideild Háskólans samkv. 1. gr., skal leggja niður dósentsembættið, sem stofnað var við deildina með lögum nr. 66 14. des. 1944.“

Þegar rætt var um dósentsembættið, sem stofnað var með þessum l., voru meginrökin fyrir því, að þetta mál næði fram að ganga, að Háskólinn þyrfti að tryggja sér þann mann, sem embættið var stofnað fyrir, og viðurkennt af þeim mönnum, sem mest börðust fyrir málinu hér, að ekki sé þörf á þessum kennslukröftum til handa Háskólanum, heldur sé þörf á að tryggja skólanum þennan sérstaka mann. Það er þegar komið á daginn, að þetta hefur verið megintilgangurinn, því að það er ekki einu sinni búið að samþ. frv. að fullu, þegar borið er fram frv., sem liggur fyrir á þskj. 671, um að dr. Sigurður Nordal skyldi vera leystur frá störfum við Háskólann. Það er undirstrikun á því, að Háskólinn hafi ekki þörf fyrir kennslukrafta sem dr. Sigurðar Nordals, því að annars væri frv. ekki borið fram. Það er því ekki nema eðlileg afleiðing af því, sem hér hefur komið fyrir í þessu máli, að þegar dr. Sigurður Nordal lætur af kennslustörfum við Háskólann, þá sé hitt embættið lagt niður, því að þá er gert hvort tveggja í senn, að tryggja háskólanum þá starfskrafta, sem honum voru tryggðir með þessum l., sem voru samþ. rétt fyrir áramótin.

Ég vænti þess, að þessi brtt. verði samþ.; hún er ekki nema bein afleiðing af þeim rökum, sem menn hafa fært fram fyrir þessu máli, og því er eðlilegt, að þannig sé með málið farið, og þegar embætti dr. Sigurðar Nordals losnar, verði sá maður, sem ætlazt er til, að taki við því, sá maður, sem settur var dósent með l. 1944, færður upp um embætti, annaðhvort í það embætti, sem dr. Sigurður Nordal lét af, eða að annar dósent fari í það.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta nánar.