27.11.1944
Efri deild: 77. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í C-deild Alþingistíðinda. (3168)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Út af þeim ummælum, sem hér hafa fallið, vil ég upplýsa, að fjhn. hefur einnig tekið það til nokkurrar athugunar, hvort ætti að breyta þessum lögum í þá átt, að þetta yrði til frambúðar, eða hvort það ætti aðeins að gilda fyrir yfirstandandi ár. Það var ég sjálfur, sem hreyfði því í fjhn., að það mundi þörf fyrir að hafa frestina lengri eftirleiðis en hingað til og hvort ekki mundi rétt að breyta frv. í þá átt, að þetta gilti framvegis. En hv. meðnm. mínir töldu réttast að samþykkja frv. óbreytt, og mér fannst þetta ekki svo mikilvægt atriði, að ég gæti farið að hafa neina sérstöðu í n. út af því. Ég skal ekki segja um það, hvort aðstaða n. kynni að breytast við nýja athugun, en þetta er einfalt mál og væri auðvitað mjög hægt fyrir hæstv. fjmrh. ellegar hv. 6. þm. Reykv., sem virtist hafa sömu skoðun á málinu, að bera fram brtt. við 3. umr. um þetta atriði.

Ég skal enn fremur taka fram, út af þeim orðum, sem fallið hafa, að í fyrstu, þegar ég las þessa grg. brbl., þá þótti mér hún dálítið einkennileg, og ég skildi hana eiginlega á þann hátt, sem hv. 6. þm. Reykv. gerði, en ég býst við, að skýringar hæstv. ráðh. á þessu séu réttar, að hér sé ekki um neinn árekstur milli ráðh. og fyrrv. ríkisstjóra að ræða, heldur sé það þannig, að þó að ráðherra áliti að bezt væri, að þessi breyt. yrði til frambúðar, þá hafi hann ekki séð ástæðu til að setja það í brbl., þar sem þ. átti eftir að koma saman á árinu og hafa í sinni hendi að breyta því, ef því sýndist. Mér finnst miklu líklegra, að það sé þannig, en auðvitað veit ég ekkert um það.

Ég skal sem sagt flytja þessi tilmæli til fjhn., en ef hún gerir engar breyt. út af því, þá er ósköp einfalt atriði, að brtt. komi fram frá öðrum. Ég vil skjóta því til hæstv. fjmrh., að ég álít yfirleitt fyrir mitt leyti, og hreyfði þessari sömu aths. í fjhn., að l., sem sett eru til eins árs í senn, en reynist seinna, að eru alltaf framlengd, ætti að gera að ákveðnum l., sem gilda áframhaldandi. Það er ekki eingöngu svo um þetta, heldur um viðauka og annað slíkt, sem alltaf er samþykkt á hverju einasta ári.