27.11.1944
Efri deild: 77. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í C-deild Alþingistíðinda. (3170)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Það var aðeins út af því, að hv. frsm. fjhn. sagði, að hann hefði hreyft í n., hvort ekki væri rétt að gera þetta ákvæði 1. gr. að almennu ákvæði, í stað þess að það gilti aðeins árið 1944, og að það hefði ekki fengið undirtektir í n. Ég vildi aðeins upplýsa, að þetta var alls ekki tekið til efnislegrar meðferðar og enginn ágreiningur í sjálfu sér út af því, en bæði mér og kannske fleirum í n. þótti rétt að mæla með frv. eins og það er, því að staðfestingin er hrein og bein formsök, en hitt hins vegar efnisleg breyt. á frv.

Ég er algerlega fús að taka þetta til endurnýjaðrar athugunar í fjárhagsnefnd. Hitt er það, að að óathuguðu máli vildi ég a. m. k. ekki ganga inn á þetta. Frestir eru settir vegna þess, að talin er þörf á að hafa ákveðna fresti og bezt að hafa þau ákvæði svo í l., að ekki þyrfti frá ári til árs að breyta því. Ég vildi því skjóta því til hæstv. ráðh., hvort ekki væri rétt, að þetta frv. væri samþykkt eins og það er, en stjórnin tæki til athugunar, hvort ekki væri rétt að hafa frestina aðra og líklega til þess, að ekki þurfi að hafa undanþágu frá þeim á hverju ári. Það er í raun og veru ekki skynsamleg aðferð.

Ég er ekki á móti, að fjhn. athugi þetta aftur, en ég veit ekki, hvort það er heppileg aðferð að breyta frestunum með þeim forsendum, að alltaf þurfi að gera það. Það er miklu betra að hafa frestina þannig, að líklegt sé, að það geti staðizt.