09.03.1944
Neðri deild: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

27. mál, skipun læknishéraða

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Ég ætla mér ekki að blanda mér mikið í kappræður um þetta mál. En mér þykir skörin vera farin að færast upp í bekkinn, þegar þm. Snæf. ræðst gegn þm. Rang. og bregður honum um lítil afköst í þessu máli, þar sem það er vitað, að þm. Rang. hefur nú um fjöldamörg ár gegnt læknisstörfum með ágætum í einu hinna erfiðustu héraða. Það er út í bláinn, er hann talar um, að hv. 1. þm. Rang. ætti að standa í karpi hér á Alþ. og beita sér fyrir, að læknishéruðum verði fjölgað í Rangárvallasýslu. Hv. þm. Snæf. veit lítið um, hvað hann hefur gert innan samtakanna, en við, sem til þekkjum, vitum, að hann hefur einmitt unnið í þá átt. — Annars var það ekki meining mín að blanda mér í málið á þennan hátt, gat þó ekki stillt mig um það, því að mér fannst endirinn á ræðu hv. þm. Snæf. gefa tilefni til þess.

Nú vil ég biðja hv. þm., áður en gengið verður til atkv., að rifja upp fyrir sér, hvers vegna þetta frv. er komið fram og hvers vegna það er tekið þannig fyrir á Alþ., að því skuli verða lokið, áður en Alþ. verður frestað. Það er af einni ástæðu. Þannig er ástatt austur á Fljótsdalshéraði, að læknisbústaðurinn á Brekku í Fljótsdal brann í haust, og allir vita, að ekkert vit er í að byggja hann aftur upp á sama stað eða viðhalda læknaskipuninni óbreyttri. Og það þolir enga bið, að aftur verði reistur læknisbústaður, þar sem læknirinn er heimilislaus og hlýtur því að leita burt, ef ekki verður reistur læknisbústaður í sumar. Þetta er ástæðan. Engum okkar hefði dottið í hug, að Alþ., sem aðeins var ætlað að leysa stjórnarskipunari. landsins, færi að fást við breyt. á l. um skipun læknishéraða. Þetta er eina ástæðan til þess, að málinu var hreyft. Nú skeður það, að ekki er hægt að ná samkomulagi um bráðabirgðalausn eða þá bráðabirgðabreyt., sem telja verður eðlilegt að gera á læknal. Hér er nú það fram að færa, að það orkar tvímælis, hvaða breyt. skuli gera, þegar taka á læknaskipunina í heild til endurskoðunar. Nú er komin fram till. í frv. formi um stofnun þriggja nýrra læknishéraða, og vil ég ekki leggja neinn dóm á það, hvort það er eðlilegt eða ekki út af fyrir sig að stofna þessi læknishéruð, en vil benda á, að ágreiningur er um það á Alþ., hvort stofna skuli héruðin eða ekki. Og ég vil sérstaklega benda á annað, sem ætti að vera öllum hv. þm. fullljóst, að viða stendur þannig á, að engu síður er ástæða til að breyta læknisskipun þar en stofna þrjú ný læknishéruð á Snæfellsnesi og Borðeyri. Ef stofna á þessi nýju læknishéruð, þá verður að vera samræmi í hlutunum og breyta víðar og enn víðar en komið hafa fram brtt. um á Alþ. Og ef mönnum þykir of mikið að fullyrða þetta, ættu þeir þó að geta sætzt á, að það sé álitamál. Ég bið menn að hugsa sig um, hvort þeir eru reiðubúnir að fella dóm um þetta nú á þessari kvöldstund, að rétt sé að gera þessa breyt. einmitt á þeim héruðum, sem hér er um að ræða, en ekki öðrum. Það er viðurhlutamikið að kveða upp úr um þetta. Ég vil þó ekki halda því fram, að stofnun þessara læknishéraða komi ekki til mála, en eins og málið er nú til komið, er það aðeins af því, að læknisbústaðurinn á Brekku brann. Annars hefðu allir verið sammála um, að læknamálið biði til haustsins. En það er álitamál, ef Alþ. fer að undirbúa stofnun læknishéraða þar, sem nauðsyn er, hvort þá sé rétt að skilja eftir staði, þar sem engu síður er nauðsyn á breyt. Því vil ég biðja menn að athuga, hvað Alþ. er komið langt frá því, sem upphaflega var til ætlazt, þar sem búið er að setja inn í frv., að l. öðlist ekki gildi fyrr en 1945, en einmitt áríðandi nú, að hægt hefði verið að reisa læknisbústað á Héraði þegar í sumar. Þetta sýnir, áð Alþ. hefur ekki tekizt að afgreiða þetta mál, svo að sómasamlegt sé, eins og nú horfir við. Það er lagt fram frv. og óskað eftir, að því sé hraðað, svo að hægt sé að byggja þennan læknisbústað. Alþ. tekur frv., setur inn í það breyt. nokkuð af handahófi, svo að ekki sé meira sagt, og ákvæði um, að það öðlist ekki gildi fyrr en 1945. (STh: Þetta er misskilningur. Ef hv. þm. athugar frv., sér hann, að gildistakan er óbreytt.) Þá meinar hæstv. ríkisstj. að stofna til byggingar upp á væntanlega gildistöku l. Ég hefði gert ráð fyrir, að l. ættu að öðlast gildi strax, svo að framkvæmdir gætu hafizt í sumar. Hv. þm. ætti að vera ljóst, að frv. er ekki aðkallandi nema af þessari ástæðu, ekki vegna þess, að menn teldu svo ómögulegt að bíða til hausts með stofnun þessara læknishéraða, heldur af því, hvernig ástatt er á Fljótsdalshéraði. Ég held því, að varhugavert sé að gera þessa breyt. á læknaskipuninni nú og rétt að fresta því til haustsins og láta n. athuga málið í samráði við heilbrigðisstj. Þess vegna tel ég eðlilegt að taka út úr frv. allt annað en það, sem fjallar um Fljótsdalshérað og komið er fram sökum þessa neyðarástands þar. En nú er vonlaust, að samkomulag fáist um þetta, og mun ég því greiða atkv. með hinni rökst. dagskrá.

Hæstv. forsrh. lýsti yfir því, að hafizt mundi verða handa um að koma byggingunni í framkvæmd á næsta sumri. Vil ég þakka hæstv. forsrh., sem hefur málið með höndum, hvernig hann hefur tekið undir þetta læknamál, sem við þm. S.-M. höfum sérstakan áhuga á, og að hann hefur lagt sig fram um að koma málinu þannig í höfn, að komið gæti að fullu gagni.

Hv. þm. Snæf. benti á, að ef til vill bæri að skoða dagskrána þannig, að verið væri að skora á forsrh. að gefa út brbl. Ég veit ekki, hvort líta ber þannig á hana. En ég vil segja vegna ástandsins, sem ríkir þar eystra, að ég hef orðið var við, að hv. þm. eru einhuga um, að hefja verði þessar framkvæmdir á næsta sumri, þannig að ég hygg, að hæstv. ríkisstj. sé óhætt að hafa frjálsar hendur um að leysa þessi vandræði, hvort sem henni þykir hlýða að gera um það brbl. eða hefjast handa, án þess að lagaheimild liggi fyrir, því að einhvern tíma hefur verið gengið lengra en þó að leyst væri úr þeirri neyð, sem þarna er fyrir hendi. Ég vildi benda mönnum á þetta án þess að taka þátt í þeim deilum, sem hér hafa átt sér stað, og mun því greiða atkv. með þeim forsendum, sem ég hef rakið.