02.03.1945
Efri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (3182)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lárus Jóhannesson:

Herra forseti. — Ég á smábrtt. á þskj. 1265. Hún gengur í þá átt að reyna að koma meiri festu en verið hefur um framkvæmd skattalaganna.

Það hefur komið fyrir, að menn hafa gert einhverjar ákveðnar fjármálaráðstafanir, sem hafa verið skynsamlegar miðað við þær lagaskýringar, sem gerðar hafa verið á gildandi skattal., en svo hefur einhverjum góðum manni dottið í hug, að þetta væri ekki rétt lagaskýring og farið með það til dómstólanna, og þá hefur dómurinn fallið gagnstætt hinni fyrri lagaskýringu, svo að þær fjármálaráðstafanir, sem um hefur verið að ræða, hafa reynzt hrein vitleysa. Þetta vil ég koma í veg fyrir með brtt. Ég vil, að þeim skýringum, sem framkvæmdar hafa verið á l., verði haldið áfram, og ef þeim er breytt, verði menn varaðir við, svo að þeir geti reiknað með því, að einhver festa sé í skattal. og að menn þurfi ekki að óttast mismunandi skýringar á gildandi l., sem geti gert fjárhagsráðstafanir, sem voru skynsamlegar þegar þær voru gerðar, að hreinni vitleysu vegna nýrrar lögskýringar. Mér finnst ekki til of mikils mælzt, þótt nýr skilningur, sem lagður kann að verða í einhver ákvæði skattal., verði birtur með fyrirvara, svo að menn geti gert fjárhagsráðstafnir sínar eftir því. Ég vil taka fram, þó að það sé ekki alveg sambærilegt, að þetta er dálítið skylt því, sem t. d. oft er gert í hegningarl., að þau eru ekki látin verka aftur fyrir sig til þyngingar á refsingu, heldur aðeins ef það er manninum til bóta.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um brtt., en leyfi mér að fara fram á, að hún verði samþykkt.