02.03.1945
Efri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í C-deild Alþingistíðinda. (3183)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Bjarni Benediktsson:

Að efni til er ekki nema allt gott að segja um þessa brtt. hv. þm. Seyðf., og ég geri ráð fyrir, að ég muni greiða henni atkv. En ég vil taka fram, að þótt ég vilji það, þá er það með þeim skilningi, að ef skattanefndirnar komast að því, að þær hafi framfylgt skattal. skattgreiðendum í óhag eftir ákvæðum l., þá sé þeim að sjálfsögðu heimilt að gera breyt. í þá átt. Sjálfum er mér kunnugt um tilfelli, þar sem skattanefnd hefur byggt gersamlega heimildarlausa úrskurði á því, að þetta hafi verið orðin venja og hún hafi framkvæmt l. í mörg ár með þessum hætti, en það eitt getur ekki verið nóg, ef lagastafur er ekki til. Þess vegna vil ég greiða þessari till. atkv. með skírskotun til þess, sem hv. þm. sagði áðan um verkun refsilaganna, að ef skattan. komast að þeirri niðurstöðu, að þær hafi misskilið l. í óhag skattgreiðendum, þá hafi þær frjálsar hendur til að breyta því og taka upp hagkvæmari skilning til handa skattgreiðendum án nokkurrar heimildar af hendi löggjafans. Með þessum skilningi mun ég greiða till. atkvæði.