02.03.1945
Efri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í C-deild Alþingistíðinda. (3198)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Magnús Jónsson:

Herra forseti. — Ef á að fara að vísa þessari brtt. til n. til athugunar, þá er ég ákaflega hræddur um, að ekki vinnist tími til að veita henni a. m. k. þá athugun, sem mundi skera neitt verulega úr. Ég er ekki viss, um, að t. d. skattstjórinn væri svo alveg tilbúinn að gefa sína umsögn í skyndi, að til þessarar athugunar ynnist tími. Og ég sé í raun og veru ekki, að skattyfirvöldin út af fyrir sig þurfi að hafa neitt við það að athuga, þó að þessi brtt. væri samþ. Þau fylgja þeim l. og reglum, sem um er að ræða, treysta á fremsta hlunn um að leggja skatta á, og dómstólarnir skera svo úr. Mér sýnist, að ef þetta ákvæði hefði verið í skattal. frá upphafi, sem í brtt. hv. þm. Seyðf. er, mundi mönnum finnast þetta sjálfsagður hlutur. Og menn hafa lifað eftir því ákvæði, þangað til menn reka sig á, að þetta getur orðið framkvæmt samkv. l. öðruvísi en eftir anda þessarar brtt. Og þegar menn svo reka sig þannig á, verður þeim ljóst, að eitt hið hvimleiðasta fyrirbrigði er réttaröryggisleysi, sem getur og hefur komið fram í því, að maður, sem búinn er að sjá, að eitthvað er framkvæmt hvað eftir annað eftir l. á vissan veg, og það er óátalið og virðist vera rétt, verður hins svo var einn góðan veðurdag, að það traust hans bregzt, að sú sama framkvæmd verði höfð áfram á l., en fær í staðinn að kenna á nýrri framkvæmd á l. — Þess vegna virðist mér, að svona ákvæði, sem í brtt. felst, að skattanefndir eigi að fylgja sömu reglum frá ári til árs í framkvæmd skattal., hefði átt að vera í lögunum.

Út af því, sem hv. þm. Barð. ræddi um orðin „að óbreyttum lögum“, sem eru í brtt., er það að segja, að það verður náttúrlega allt annað mál úr því, sem í brtt. er, ef þessum orðum er sleppt. Það væri þá ekki annað en að banna skattlagningu eftir á. Og það væri þýðingarlaust að ætla að banna slíkt með l., því að ef ný l. væru sett um þennan skatt, þá ganga þau fyrir. Ef slíkt ákvæði ætti að koma að haldi til þess að banna að leggja á skatta eftir á, yrði það að vera stjórnarskrárákvæði. Og ef samþ. slíks ákvæðis í l. jafngilti stjórnarskrárákvæði um það, þá hygg ég, að margir hv. þm. hikuðu við að setja slíkt ákvæði í lögin.

En þegar með framkvæmd skattal. hefur skapazt föst venja, sem allir hafa gengið út frá, að mætti treysta, að ekki yrði út af breytt, en hins vegar hefur sýnt sig, að er ekkert réttaröryggi í eftir l., þá skilst mér, að ekki geti í raun og veru verið neinn verulegur ágreiningur um það, að efni þessarar brtt. beri að samþykkja.