09.03.1944
Neðri deild: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

27. mál, skipun læknishéraða

Einar Olgeirsson:

Það virðast allir, sem talað hafa hér, vera sammála um, að þau héruð, sem hér um ræðir, hafi rétt til að hafa sinn lækni. Ég geri ekki mikið úr þeim mótbárum, að ekki sé hægt að fá lækna og ekki sé til neins að gefa fólki í dreifbýlinu löglegan rétt, af því að ekki sé hægt að fullnægja honum. Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að nóg sé af læknum á Íslandi. En menn segja, að ekki sé hægt að fá þá út í afskekktu héruðin. Menn viðurkenna rétt fólksins til þess að fá að njóta læknisþjónustu og að landið hafi nægilega lækna til þess, að ekki þurfi að vera læknislaust í dreifbýlinu. Hvað vantar þá? Kerfið, sem fyrir er, „fúngerar“ ekki. Læknaskipunin og heilbrigðiseftirlitið er ófært. Með því fyrirkomulagi, sem á því er, er ekki hægt að fullnægja sjálfsögðum kröfum fólksins. Þetta hefur komið fram hér á Alþ. áður. Ég held, að ég hafi talað einu sinni í hvert skipti, þegar þetta mál hefur verið til umr. hér fyrr á þingi, og kom ég þá með þetta atriði. Ég held, að það hafi fengið undirtektir ýmissa manna hér og líka ríkisstj. En það var látið við það sitja langalengi hér í þinginu að láta frv. um þetta efni fara á milli d. og velta vöngum út af því, hvort aðstoðarlæknar skyldu vera skyldaðir til að vera í þessum héruðum, sem vantaði lækna, með 300–400 kr. grunnlaunum á mánuði. Þá var látið sitja við það að fást við þetta smáatriði þessa stórmáls. En sjálft kerfið í heild var ekki tekið til meðferðar.

Það er ófært ástand í þjóðfélaginu, að haft sé nokkurs konar braskskipulag á því, hvort menn eigi að fá bót á sjúkdómum sínum eða ekki. Menn eiga að hafa aðgang að því að vitja læknis, sem hið opinbera sér þeim fyrir og kostar. Öll heilbrigðismál okkar þurfa að komast í það horf, en þessi braskstefna þarf að hverfa, — að því verður að stefna. Og í þessa átt þarf endurskoðun á heilbrigðislöggjöfinni að stefna. Það þýðir ekkert að færast undan þessu ár eftir ár. Fyrr eða síðar verða menn að horfast í augu við þetta. Það er óviðurkvæmilegt og til skammar, að það skuli geta komið fyrir, að sjúkdómar manna séu gerðir að féþúfu, og meðan slíkt skipulag er, þá er eðlilegt, að meira en helmingur lækna landsins sæki hingað til Reykjavíkur, þar sem þó er ekki nema einn þriðji hluti af landsfólkinu. Það er kerfið sjálft, sem verður að breyta.

Það er verið að segja, að ekki sé hægt að fá héraðslækna. Ég held, að þeir fái 4–5 þús. kr. í laun, og það er lægra en Dagsbrúnarverkamenn hafa hér í Reykjavík. Og svo afsaka menn sig með því, að ekki sé hægt að fá lækna í héruðin. En mönnum dettur ekki í hug að breyta kjörum læknanna. Hvaða tillit er hægt að taka til slíkra röksemda? Nei, heilbrigðisyfirvöldin eiga að hafa frumkvæðið að því, að þessu sé kippt í lag, og landlæknir hefði átt að hafa haft frumkvæði að því fyrir löngu. — En fyrst svo hefur ekki verið, þá er það Alþ. að hafa forgöngu um að breyta þessu. Og það frv., sem hér liggur fyrir, gengur of skammt í þessu. Það er sjálfsagt að taka heilbrigðismálakerfið í landinu svipuðum tökum og skólamálakerfið hefur verið tekið. En ég álít, að það, sem þetta frv. nær, stefni það í rétta átt, að tryggja mönnum, sem þess þurfa, lagalegan rétt til þess að hafa lækna hjá sér. Hins vegar, þó það sé samþ., þarf eins eftir sem áður að reka á eftir heilbrigðisyfirvöldunum að taka allt heilbrigðismálakerfið til rækilegrar endurskoðunar. Og ég álit rétt, að Alþ. reki í þessu efni á eftir heilbrigðiseftirlitinu.

Af því, sem ég hef sagt, vil ég greiða atkv. með því að samþ. þetta frv., eins og það kom frá Ed. Og þó að ég álíti brtt. við frv. út af fyrir sig réttmætar, mun ég greiða atkv. á móti þeim til þess að stuðla- að því, að frv. þurfi ekki að hrekjast meira á milli deilda, en mundi fyrir mitt leyti vera fús til að samþ. efni brtt. í haust. Og ég vildi síðan, að róttækar aðgerðir verði gerðar til þess, ekki aðeins að breyta læknaskipuninni í landinu, heldur einnig allri heilbrigðismála- og læknaskipun í landinu í heild.