02.03.1945
Neðri deild: 142. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í C-deild Alþingistíðinda. (3225)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Þegar þetta frv. kom hér fyrst, var það aðeins staðfesting á bráðabirgðalögum um fresti við álagning skatta. Nú hefur sá háttur verið upp tekinn í hv. Ed. að bæta við tveimur gr. Fyrri gr. fæ ég ekki skilið, hvorki þýðingu hennar né tilgang, og svo er um fleiri þm., sem ég hef átt tal við um þetta. Mér finnst mjög óviðfelldið að skjóta slíkum lagaákvæðum inn í á síðustu stundum þingsins. Og ef þetta er eitthvað áríðandi, þá mætti það bíða til næsta þings, svo að hægt væri að fá skýringu á því, hvað verið er að fara. — Hin gr. fjallar um hluttöku bæjarsjóðs í kostnaði við störf skattstofunnar í Reykjavík, og gegnir sama máli um hana og fyrri gr., að hún mætti bíða, en ekki að blanda henni saman við óskylt málefni.

Það er því till. mín og hv. þm. V.-Húnv., að báðar þessar gr. verði felldar niður.