02.03.1945
Neðri deild: 142. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í C-deild Alþingistíðinda. (3226)

140. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jakob Möller:

Herra forseti. — Mér þykir menn heldur vígreifir, þegar menn hafa ákveðið að fara ekki í ófrið. Ég álít, að fyrsta gr. sé meinlaus og hafi góðan tilgang, og miðar hún að því að auka öryggi skattþegnanna. Legg ég því til, að hún verði samþykkt. — Hins vegar er ég í meiri vafa um breyt. á sjálfri frvgr. Eins og hv. 8. þm. Reykv. gat um, var þetta frv. komið fram til að staðfesta brbl. um fresti við álagning skatta. Þessu hefur verið breytt þannig í Ed, að það er komið í það horf, að heimilt er að breyta þessu hvenær sem er.

Ég tel, að þetta gæti orðið til þess, að skattanefndir gætu freistazt til að draga úr hófi fram störf sín, þegar þær vita, að unnt er að fá frest. Ég er því ekki hrifinn af þessu ákvæði, en legg til, að frv. verði samþykkt.