23.01.1945
Efri deild: 109. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (3227)

219. mál, dósentsembætti í guðfræðideild

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson):

Hv. 9. landsk. hélt hér ræðu um þetta mál og hefur með öðrum manni flutt brtt. við frv., og vil ég taka þær lítillega til athugunar.

Hann hélt því fram, þessi hv. þm., að það væri í raun og veru ekki hægt að sjá, að fyrir lægi vilji Háskólans um að fá þennan mann sem starfsmann, en þá niðurstöðu gat hann ekki fengið nema með því að lesa aðeins part af þskj., þar sem hinn parturinn er algerlega á móti röksemdum hans. Málið liggur sem sagt þannig fyrir, að fyrst og fremst hefur guðfræðideildin fyrir nokkrum árum mælt með því að fá þennan mann fyrir starfsmann og aftur í haust mælt með því, að þangað vildi hún fá hann, og prófnefndin, sem athugaði málið, komst að sömu niðurstöðu. Svo að segja öll prestastétt landsins, með biskupinn í broddi fylkingar, sendir Alþ. áskorun um að stofna hreint og beint embætti fyrir þennan mann við Háskólann. Nú vil ég beina þeim orðum til hæstv. kirkjumálaráðh., sem er mjög þaulkunnugur stéttarfélögum og hefur mjög þeirra málefni með höndum, en eftir því, sem flokkur sá, sem hann er í, og bræðraflokkur hans, Alþfl., hafa beitt sér hér á Alþ., hefur það verið nokkurs konar hæstaréttardómur fyrir þessa menn, að stéttarfélög ættu að ráða. Það eru mjög mörg atriði komin inn í okkar löggjöf, sem byggjast á þessu. Nú hafa aldrei við neina embættaveitingu komið fram sterkari meðmæli stéttarfélags en frá prestum og biskupi landsins, og þó að þessi hv. ráðh. hafi ekki hitt neinn mann, sem álítur, að það sé til uppbyggingar þjóðkirkjunni að fá þetta embætti stofnað, þá hef ég talað um þetta við nokkra presta og biskup landsins, og þeim er það sérstakt áhugamál til að styrkja guðfræðideildina og þjóðkirkjuna. Það hefur aðeins hitzt svo illa á, að hæstv. ráðh. hefur einmitt ekki hitt þá menn, sem hafa á þessu áhuga, en hann hefur þó fyrir sér þau skjöl, sem þar að lúta. Ég hygg, að hæstv. ráðh. og hv. 9. landsk. geti verið ánægðir með, að þeir aðilar, sem telja verður, að bezt vit hafi í þessu máli, prestar, biskup og guðfræðingar í Háskólanum, eru allir sammála um að biðja um þessa aðgerð af hálfu Alþ. Hitt er líka rétt hjá hv. 9. landsk., að háskólaráð, sem kemur frá öllum d., hefur lýst því yfir, að það hafi ekki sérstaklega beðið um þetta, en er hins vegar hlynnt því, að orðið sé við óskum guðfræðid. Það er ein deild, guðfræðideild, sem hefur mikinn áhuga fyrir þessu, og svo að segja allir hennar menn úti um allt land, en hinar deildirnar hafa ekki fundið neina knýjandi nauðsyn, sem eðlilegt er, málið kemur þeim ekki á sama hátt við, þeir taka þó fram, að þeim þyki betra, að þetta sé gert, þótt þeir beiti sér ekki fyrir því. Þess vegna er það, að hæstv. ráðh. ætti ekki að vera eins óánægður með. það, þótt þetta mál nái fram að ganga óbreytt, sem ég vona að verði, þegar hann lítur á það, að eini stéttarfélagsskapurinn, sem mark er á takandi í þessu máli, hefur látið sinn dóm ganga málinu í vil. Þá hafa sumir talað um það, að óviðkunnanlegt væri að mæla með einstökum manni í þessu frv. Hv. 6. þm. Reykv. hefur fært fyrir því nokkur rök, að það hafi eiginlega verið siður, þótt nöfn hafi ekki verið nefnd. Hefur Alþ. einmitt í vetur búið til embætti, og er grunur minn sá, án þess að ég sé að bregða hæstv. kennslumálaráðh. um lítilmennsku, að hann sé annaðhvort búinn eða muni innan skamms undirskrifa veitingu nokkurra embætta við Háskólann, algerlega ákveðin af d. sjálfum. Ég geri ekki ráð fyrir, að hann ætli að gera nokkra uppreisn. Mér er ekki kunnugt um annað en bæði nýju embættin við norrænudeildina og öll við verkfræðideildina séu ákveðin upp á nöfn af aðstandendum þeirra og þingmenn viti um þessi nöfn.

Ef farið er aftur í tímann, er hægt að finna dæmi þessa við Háskólann, en annað þeirra var um embætti handa Bjarna frá Vogi, en hitt um Alexander Jóhannesson. Þetta er því engin nýjung að efni til. En hið nýjasta dæmi um þetta er embætti það, er búið var til handa Birni Guðfinnssyni. Hæstv. ráðh. sagði, að það væri óþægilegt að nefna nöfn í þessu sambandi, það væri að ganga á rétt þess ráðh., sem hefði með þetta að gera. Það er nú að vísu rétt, að ráðh. hafi veitingarvaldið. En nú um hríð hefur fengizt dýrkeypt reynsla um þetta í veitingum gagnvart Birni Magnússyni, og þess vegna er engin furða, þótt guðfræðideild Háskólans og menn kirkjunnar vilji ekkert eiga undir þessu. Alþ. getur því veitt þetta embætti til þess að losa báða aðila við óþægindi af þessu.