23.01.1945
Efri deild: 109. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (3228)

219. mál, dósentsembætti í guðfræðideild

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. — Ég ætla ekki að taka þátt í orðabardaga þeim, sem á sér stað hér, en það var einungis út af ummælum hv. 6. þm. Reykv. Hann hélt því fram, að embætti þau, sem stofnuð voru við norrænudeild Háskólans, hefðu verið gerð handa einstökum mönnum. En um mitt atkv. í þessu máli kom ekkert persónulegt til greina, því að annan þennan mann hef ég aldrei talað við. Hins vegar er það ætíð hvatning, ef góðir menn eiga í hlut. Aftur á móti er veitingarvaldið hjá ráðh., en ég var með þessu í því trausti, að góðir menn skipuðu þessar stöður. Við höfum ekki tækifæri til þess að láta ljós okkar skína út yfir landssteinana á annan hátt fremur en með norrænudeildinni, nema að það fari nú að birta yfir guðfræðideildinni. Ég hef ávallt haldið, að fjölga ætti kennurum við Háskólann í áföngum. En nú mun vera búið að lögfesta á þessu Alþ. á annan tug starfsmanna við Háskólann, og þykir mér það nokkuð mikið. Nú skilst mér, ef kennsla verður aukin við guðfræðideildina, að þá verði námstíminn lengri, en það atriði mun fremur fæla menn frá deildinni.

Hv. 6. þm. Reykv. gat þess, að athuga þyrfti í heild kennaraliðið við Háskólann. Hann sagði viðvíkjandi fjölguninni við norrænudeildina, að við hefðum flumbrað þessu af án athugunar. Það má vera, að það hefði mátt athuga þetta betur, en hafi það verið flaustursverk, sem ég þó játa alls ekki, þá væri nú full ástæða til þess að stinga við fótum.