23.01.1945
Efri deild: 109. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1296 í B-deild Alþingistíðinda. (3235)

219. mál, dósentsembætti í guðfræðideild

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Hæstv. kennslumálaráðh. vildi halda því fram, að fjölgun kennara við Háskólann hefði verið vel undirbúin, og mótmælti því, sem ég sagði, að umleitanir hefðu komið frá Háskólanum sjálfum. Vil ég því lesa upp eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimspekideild Háskóla Íslands leyfir sér hér með að beina þeim tilmælum til háttvirtrar menntamálanefndar að hlutast til um, að lektorsembætti dr. Björns Guðfinnssonar, sem hann var settur í af kennslumálaráðherra frá 1. ágúst 1941 með þeim launakjörum, sem dósentar við háskólann njóta, verði gert að dósentsembætti með lögum.“

Það hefur komið glögglega fram, að verið var að stofna embætti fyrir ákveðna menn, og hefur ekki verið farið neitt dult með það, hverjir eigi að hljóta hin nýju embætti við norrænudeildina.

Hv. þm. Dal. virtist ekki vita glögg skil á þessu og færði því til sönnunar, að hann hefði ekki talað við nema annan manninn, og má yfirleitt um ummæli þessa hv. þm. segja, að sá, sem afsakar sjálfan sig, ásakar sig.

Það væri ekki nema eðlilegt, þótt aðrar deildir Háskólans stækkuðu í samræmi við norrænudeildina, ef Alþ. liti svo á, að ríkissjóður gæti staðið undir þeim kostnaði, sem af því leiðir.

Það var auðheyrt á ræðu hæstv. menntmrh., að hann metur guðfræðideildina lítils, en norrænu

deildina mikils, og vill ekki unna henni stækkunar. Hann hefur trú á öðrum fræðum en kennd eru í guðfræðideild, og hefur það komið fram í ræðu hans. En á það ber að líta, að guðfræðideildin er sú deild, sem Háskólinn var upphaflega byggður í kringum, og er yfirleitt svo í vestlægum löndum. Og þó að ég komi ekki fram sem forsvarsmaður þessarar deildar Háskólans sérstaklega, lít ég svo á, að við eigum tvímælalaust að halda hana svipað og aðrar deildir.

Ég lít aftur á móti svo á, að við getum ekki staðið undir eins örri útþenslu Háskólans og stofnað var til hér á dögunum. Þeir, sem það gerðu, töldu okkur færa um að taka afleiðingum þess. Þeir menn voru ekki eins þröngsýnir og ég er.

En ég vil láta eitt yfir alla ganga. (Menntmrh.: Hv. þm. vill kannske láta stofna prófessorsembætti í að lesa í lófa?) Ef hæstv. ráðh. flytur frv. um að stofna prófessorsembætti í að lesa í lófa, skal ég ekki segja nema ég taki það til velviljaðrar athugunar, þegar þar að kemur.

Þá taldi hv. ráðh. ekki rétt að binda frv. við ákveðið nafn. Ég var fyrst hikandi við að gera það, en við nánari athugun sannfærðist ég um, að rétt væri að fara þá leið. Ég sannfærðist um það við ræðu hv. ráðh., er hann lýsti yfir því, að hann mundi veita sr. Birni Magnússyni embættið og engum öðrum. Ég hefði annars verið hikandi að grípa fram fyrir hendur hv. ráðh., en eftir yfirlýsingu hans þykir mér vel að geta átt þátt í að veita sjálfur embættið og veita sr. Birni Magnússyni þannig uppbót fyrir það ranglæti, sem hann hefur orðið fyrir. Ég játa, að það er varhugaverð braut, sem hér er farið inn á. En bæði er það, að í þessu tilfelli er ekki tekið fram fyrir hendur ráðh., og. eins og hv. l..þm. Reykv. benti á, hins vegar hefur sr. Björn Magnússon orðið fyrir ranglæti hvað eftir annað, og það er hlutverk Alþingis að leiðrétta það ranglæti, sem það hefur gert sig sekt um. Það er ranglæti fyrri og verri ríkisstj., sem með þessu frv. er verið að leiðrétta, og finnst mér ráðh. ætti sízt að fyrtast, þótt þessi háttur sé hafður á. Mér kom það mjög undarlega fyrir, hve hv. þm. Dal. mælti ákveðið á móti þessu frv., og held ég, að andstaða hans stafi af misskilningi hans. Hann er, eins og öllum er kunnugt, allra manna mestur bókasafnari og á mikið safn guðsorðabóka, en þær eru margar gamlar og úr sér gengnar. Með því að gerast stuðningsmaður þessa frv. og vinna þannig að því, að guðfræðideildin fái aukna starfskrafta, gæti hann vænzt þess að geta aukið safn sitt með nýjum guðsorðabókum enn meira en hann hefur getað fram að þessu.