23.01.1945
Efri deild: 109. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (3236)

219. mál, dósentsembætti í guðfræðideild

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. — Þetta eru kannske þarflausar umr. um svo lítið mál og þetta er. En samt sem áður finnst mér, að vegur Alþingis yrði allmiklum mun minni, ef frv. þetta yrði samþ., sérstaklega á þeim grundvelli, sem forsendur þess eru byggðar á. Legg ég því mikla áherzlu á, að frv. verði alls ekki samþ. í því formi, sem það nú er. Hv. 1. þm. Reykv. hélt því fram, að þetta mál væri vel undirbúið og komið hefðu umsagnir frá öllum hlutaðeigendum og þeir mæltu allir með því, að þetta embætti yrði stofnað. Ég á bágt með að skilja, hvers vegna þessi þörf hefur allt í einu skapazt, rétt þegar nýbúið er að veita sr. Sigurbirni Einarssyni dósentsembættið í guðfræði. Þetta er svo mikilsvert fyrir prestastétt landsins og fyrir allar kirkjulegar stofnanir landsins, að þær finna allar hvöt hjá sér til að mæla með stofnun þessa embættis. Þrátt fyrir þetta er ég ekki orðinn sannfærður um nauðsyn þess að stofna þetta embætti.

Það hafa komið fram rök, en þau hafa ekki verið mér skiljanleg. Því er ef til vill þannig farið, að ekki sé hægt að koma rökum við mig. Ég hef reynt að kynna mér þetta mikla áhugamál prestastéttarinnar. Ég hef reynt það með því að ræða við ýmsa um málið. Öll svörin hafa verið á einn veg: Sr. Birni Magnússyni hefur verið sýnt svo mikið ranglæti, að nauðsynlegt er að koma honum að Háskólanum. Jafnframt hefur því verið haldið fram, að hann hafi ekki einu sinni ástæður til að hafa börn sín í Reykjavík til að koma þeim í skóla. Mér eru með öllu óskiljanleg þau rök, sem fram hafa verið borin í þessu máli. Ég játa, að mér er óskiljanlegt, hvaða þörf er á því fyrir menntalífið í landinu og heiður íslenzkra vísinda að auka kennslu í guðfræði. (BBen: Skiptir það ekki nokkru máli, að sálna sé gætt?) Jú, en hvers vegna er sr. Björn Magnússon öllum öðrum Íslendingum færari til að gæta sálna? (BBen: Það er það, sem við skiljum ekki.) Ef tveir ágætir menn sækja um eitthvert embætti, en aðeins annar þeirra getur hlotið það, á að stofna nýtt embætti handa þeim, sem útundan verður? Ó, já. Ef fara á eftir þeirri reglu, gætu þau orðið nokkuð mörg embættin, sem stofna þyrfti við Háskólann. Umsækjendur gætu verið nokkuð margir, 2, 3, 4, allt ágætir menn, og svo ætti að stofna embætti handa þeim, sem útundan yrðu við veitingu. Ég held, að það væri gleðiefni. að okkar þjóðfélag væri svo á vegi statt um ágætismenn í hverri grein, að um hvert embætti, sem losnaði, sæktu a.m.k. 2 til 3 menn hæfir í stöðuna. En samkvæmt röksemdafærslu hv. þm. bæri að stofna jafnmörg embætti og hæfir menn eru til í hvert. Ég leit ekki þannig á, þegar ég fylgdi því frv., sem þegar hefur verið samþ. um fjölgun embætta í norrænudeildinni. Ég leit svo á, að hér væri um 2 ágætismenn að ræða,, sem Háskólinn hefði í fyrsta lagi fulla þörf fyrir og hagur væri að festa við Háskólann. Og í öðru lagi leit ég svo á, að íslenzk fræði væru svo þýðingarmikil fræðigrein, einmitt fyrir háskóla okkar, að við yrðum að leggja talsverða áherzlu á það, að við gætum gert hana þannig úr garði, að hún yrði fremst í sinni röð. Ég áleit, að það yrði að vera þjóðarmetnaður okkar Íslendinga. Einmitt þess vegna vil ég mótmæla þeim skoðunum. sem voru uppistaðan í ræðu hv. 6. þm. Reykv., en hún var þessi: Við verðum að sýna réttlæti, sem er í því fólgið, að sama hlutfall sé milli allra deilda Háskólans (BBen: En það verður ekki, þó að þetta verði samþ.), og við eigum að fjölga embættum við Háskólann alveg án tillits til þess, hvar þörfin sé fyrir þá kennslukrafta. Ég lít öðruvísi á, ég lít þannig á, að við eigum að gera okkur grein fyrir, hvaða vísindi við þurfum að efla, og við verðum að haga embættaveitingum okkar og stuðningi við Háskólann eftir því. Það er fáránleg fjarstæða að ætla að haga okkar embættaveitingum þannig við Háskólann, að rétt hlutföll verði á milli deilda. Hér er málið komið inn á næstum fáránlega braut í þessum efnum, enda veit ég, að hv. þm. meinar þetta ekki. Þessi röksemdafærsla hv. þm. er ekki annað en leikur, — það veit ég. Hann hefur af einhverjum ástæðum ákveðið að verða með þessu máli, þótt hann í hjarta sínu sé á móti því, eins og fram hefur komið og hann hefur játað, og þessi röksemdafærsla hans er ekki alvarlega meint, sem betur fer.

Ég skal t.d. játa það, að ég tel meiri nauðsyn á öðrum hlutum en fjölga embættum við guðfræðideildina. Það er vissulega takmarkað fé, sem við getum lagt í Háskólann. Og ef við höfum yfir takmörkuðu fé að ráða, þá verður að gæta þess við hvert skref, að það fé, sem við getum notað til vísindastarfsemi, sé notað á sem heppilegastan hátt og komi okkar þjóð að sem allra mestu gagni. Ég get t.d. ekki fyrir mitt leyti viðurkennt guðfræðina sem vísindagrein, og allra sízt get ég litið svo á, að þessi nýja kennsla, sem þarna á að bæta við í Háskólanum, a.m.k. sumar greinar hennar, séu nokkuð nálægt því að vera vísindi. Hin skoðunin er sú, að maður eigi ekki að greina þar á milli, eins og hv. 6. þm. Reykv. heldur fram, að það eigi ekki að ráða, hvað manni sé vel eða illa við, heldur eigi maður að sýna „réttlæti“, óháð því, hvort maður telur fræðigreinina nokkurs virði eða ekki. Þá gæti maður alveg eins verið fylgjandi því að stofna embætti í pýramídafræði, eins og einhver var að stinga upp á, sumir kalla það ákaflega þýðingarmikil vísindi. Og það væri hlutdrægni, ef maður væri á móti því. (GÍG: Má ekki bæta því aftan við í frv.?) Ég sé ekki mikinn mun á því, hvort það væri pýramídafræði eða sálgæzla.

Það er misskilningur hjá hv. 6. þm. Reykv., að háskólaráð hafi komið með nokkrar till. til Alþ. eða farið fram á nokkra löggjöf síðan l. um breyt. á háskólal. voru samþ., háskólaráð stendur ekki að baki þeim frv., sem síðan hafa komið fram og þegar eru orðin að l. og sumpart er verið að ganga frá, eins og þetta frv. og frv. um Sigurð Nordal. Háskólaráð á þar engan þátt og stendur þar ekki að baki.

Hvað snertir embætti Björns Guðfinnssonar, þá er bréfið, sem hv. 6. þm. Reykv. las upp áðan, ekki frá háskólaráði, heldur heimspekideildinni. (BBen: Já, frá Háskólanum.) Ég sagði háskólaráði, og það var það, sem hv. þm. var að tala um. En hér er aðeins um formsatriði að ræða, vegna þess að Björn Guðfinnsson er starfandi við Háskólann — hefur lektorsembætti með dósentslaunum, svo að hér er ekki um aðra breytingu að ræða en þá, að hann mundi fá nýja nafnbót.

Hv. 6. þm. Reykv. taldi það alveg fjarstæðu að hafa nokkuð á móti því, eins og nú stæði á, þó að stofnun þessa embættis væri bundin við nafn. Hann var að vísu mér sammála um, að yfirleitt væri varhugavert að fara inn á þá braut, en samt sem áður í þessu tilfelli væri hægt að fara inn á þá braut, vegna þess að hér væri þingið að leiðrétta ranglæti á demonstrativan hátt. En svo sagði hv. þm., að hann hefði ógjarnan viljað grípa fram í, ef hann hefði vitað, að sá ráðh., sem ætti að veita embættið, væri andvígur að veita þessum manni embættið, heldur vildi hann veita það öðrum. Þetta stangast nú heldur á hjá hv. þm. Hann vill binda þetta embætti við nafn, enda þótt hann sé á móti því yfirleitt, til þess að leiðrétta ranglæti í embættisveitingu. En svo lýsir hann yfir, að ef ráðh. ætlaði að fremja ranglæti á þessum manni í þriðja sinn, ætlaði hann að veita honum til þess brautargengi, vegna þess að hann vildi ekki grípa fram fyrir hendur ráðh. að því er þetta snertir. Þetta er dæmi um það, hve utangarna eru rök þessa hv. þm., sem er einn af skeleggustu þm. í rökfræði. Þegar hann rökræðir þannig, veit maður, að hann er að leika sér. Ef það væri einhver annar en þessi hv. þm., sem bæri fram svona röksemdir, gæti maður e.t.v. hugsað, að hann meinti það, en það er útilokað, að þessi hv. þm. rökræði svona, ef hann meinti það, sem hann væri að segja.

Hv. 1. þm. Reykv. hélt því fram, að það væri nauðsynlegt, að þessi embættisstofnun samkvæmt frv. yrði bundin við nafn, vegna þess að sá maður, sem hérna hlut að máli, séra Björn Magnússon, gæti ekki verið þekktur fyrir að sækja um embættið. En það yrði hann vitaskuld að gera, ef það er ekki veitt á nafn, — hann yrði að sækja um það, og sú embættaveiting yrði að fara fram samkvæmt reglugerð Háskólans, þannig að á ný yrði skipuð dómnefnd, og hann mundi að sjálfsögðu leggja fram eina af þessum vísindaritgerðum, sem hann hefur á lager og mundi ekki kosta hann mikla fyrirhöfn.

Ég tel nú fulla vissu fyrir því, samkvæmt undangenginni reynslu, að álitsgerð n., sem ráðh. á að hafa til hliðsjónar samkvæmt reglugerð Háskólans, mundi ekki geta verið nema á einn veg. Og þegar ég lýsi því yfir, að ég mundi veita séra Birni Magnússyni embættið, þá geri ég það vegna þess, að ég veit, að dómurinn mundi ekki falla nema á einn veg. (MJ: En ef komin verður verri stj.? GJ: Eða vitrari samkeppnismaður?) Forlögunum fresta má. en fyrir þau ekki komast. Ef það ætti að koma fyrir í þriðja skiptið fyrir þennan mann að fá ekki veitingu fyrir þessu embætti, þótt honum beri eftir öllum venjulegum reglum að fá það og hann dæmdur hæfastur af dómnefnd, — já, þá er ekki langt frá, að það megi kalla það forlög. Ég á nú erfitt með að skilja það, ef þessi maður finnur svo mikla vísindalega köllun hjá sér eins og hans skoðanabræður og kollegar vilja vera láta, að hann mundi ekki láta það á móti sér að sækja um í þriðja sinn. En hitt tel ég meira lítillæti að taka við embætti úr höndum Alþ. eftir þær umr., sem eru búnar að fara fram, og eftir að hægt er að sanna, að meiri hl. Alþ. er andvígur þessu frv. Það er t.d. alveg greinilegt á þeim umr., sem hér hafa farið fram, að hv. 6. þm. Reykv. er andvígur frv. — og ekki siður en ég. Og kannske eru það fleiri, því að það hefur verið hafður í frammi í þessu máli slíkur áróður, að ég man varla annað eins. Svo má frv. ekki fara til Nd., — þá má ekki breyta því vegna þess, hve hættulegt það er, ef það kemst til Nd. aftur. Nú er engin hætta, að ekki sé hægt að afgr. frv. fyrir þinglok, því að svo mörg stórmal eru eftir, svo að á því er ekki nein hætta, að frv. þetta dagi uppi. En hættan við það, að það fari til Nd., er sú, að það mundi falla þar, af því að það slysaðist í gegnum d., af því að þm. voru ekki viðstaddir, sem voru andvígir því. (BBen: Hverjir eru það?) Ég kann ekki við að telja þá upp, en ég get t.d. nefnt Þórodd Guðmundsson, sem ekki var viðstaddur. (BBen: Er það nú víst?) Það væri kannske óhætt að prófa það, það er ekki að vita, hvað skeður frá degi til dags í þessu máli, áróðurinn er svo mikill. En það er kannske vissara að gefa ekki of miklar upplýsingar um hugarfar manna.

Það ber allt að sama brunni, að það er ekki nein sérstök ástæða til þess að binda þetta embætti við sérstakt nafn, enda þótt horfið yrði að því að stofna þetta embætti, — ég get ekki séð annað en það sé alveg óþarft. Það hefur að vísu verið bent á menn í sambandi við löggjöf um stofnun embætta, t.d. eins og við umr. um dósentsembætti við norrænudeildina, og er þar mikill munur á, og slíkt bindur ekki ráðh. á neinn hátt, þó að fram komi raddir Við umr. á Alþ., að veita eigi þessum og þessum manni embættið. Svo að hér er um býsna ósambærilega hluti að ræða. Einmitt hv. 1. þm. Reykv. hefur lagt mikla áherzlu á það, að allar embættaveitingar við Háskólann færu fram samkvæmt reglugerð hans, og hefur talið það miður farið og mjög ranglátt og gengi hneyksli næst. þegar ráðh. hefur ekki tekið til greina álitsgerð dómn., enda þótt ráðh. hefði samkvæmt l. fullan rétt til þess að veita embætti við Háskólann hverjum þeim manni, sem dæmdur er hæfur á annað borð. Mér finnst nú sitja sízt á þeim, sem mest hafa gagnrýnt ráðh., sem hefur veitingarvaldið í sínum höndum, fyrir að hlíta ekki þeim dómi, sem kveðinn hefur verið upp af dómn., að vilja nú algerlega taka af Háskólanum réttinn til þess að hafa áhrif á embættaveitingu og algerlega ganga framhjá reglugerðinni og láta Alþ. eitt hafa veitingarvaldið. Það má að vísu segja, að í þessu tilfelli skipti það ekki svo miklu máli, því að það sé ekki ágreiningur milli Háskólans og Alþ. í þessu máli. En hér er samt sem áður um fordæmi að ræða, sem ég tel í alla staði mjög óheppilegt. Og hvers vegna á að skapa þetta fordæmi? Það er þarflaust. Sami maður mundi fá embættið. hvort sem brtt., sem fram er komin um að fella nafn hans burt, er samþ. eða ekki. Og hvaða nauðsyn er þá að skapa þetta fordæmi? Ég held, að hv. 1. þm. Reykv. og aðrir þeir, sem fyrst og fremst bera hag Háskólans fyrir brjósti, myndu meta rétt Háskólans það mikið, að þeir myndu ekki að þarflausu vilja ganga inn á þá braut, hvað sem líður hinu, að við erum þar um leið að þarflausu að skapa fordæmi um að taka veitingarvaldið úr höndum ráðh.