26.01.1945
Efri deild: 111. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (3243)

219. mál, dósentsembætti í guðfræðideild

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. — Það er ef til vill rétt, úr því að ég hef slæðzt á mælendaskrá, að nota sér það, þótt ekki sé mikil ástæða til þess, þar sem ég hafði ekki framsögu um þetta mál, og er gott, að svo var. Það eru hins vegar svo margar skoðanir uppi um þetta mál, að mér finnst nauðsynlegt að segja til litar, — af veikum mætti —, hvers vegna ég hef haft þessa afstöðu til málsins, ekki sízt þar sem ég átti sæti í menntmn., sem fjallaði með þetta mál.

Mér finnst nú meðferðin á þessu andlega máli þannig, að þetta er orðinn eins konar trúðleikur eða vikivakadans, og það, sem mér finnst svo miklu máli skipta og öllum er vitanlegt, er, að undirrót málsins er ekki að öllu leyti andlegs efnis. Málið er svo margþætt, að ekki er gerlegt að rekja það allt hér, og mun ég því aðeins drepa á aðalatriðin.

Það, sem kemur þar til greina og er þess vert að hafa orð á, er fyrst og fremst ágreiningurinn um þessa embættisveitingu. Talið er, að hann eigi sér svo víðtækar rætur, að erfitt er að vera með eða móti eftir almennum skoðunum þm. Það hefur verið sagt, að þetta andlega mál sé borið fram af hálfu einhverra flokka, — sé flokksmál, og skal ég ekkert segja um það, en ef svo væri, þá er þetta sízt af öllu andlegt málefni.

Svo sér maður, þegar þetta frv. er fram borið, að borið saman við önnur háskólafrv. er þetta mál að nokkru leyti keimlíkt þeim. Það kemur fram samúð eða andúð í garð þessara frv., forustan af hálfu Háskólans er dálítið reikul og þingfl. að sama skapi, þar sem þar á hver sitt dálæti. Þarf ekki að minna á annað en þegar rætt var um dósentsembættin í norrænu deildinni og prófessorsembættin í verkfræðideildinni. Þar var aðdáandi norrænna fræða eins og hv. þm. Dal., og er það honum sagt til lofs, hann vill norrænufræðingana, það er hans grein, en vill ekkert með verkfræðingana. Munu brtt. hafa fallið í samræmi við þetta. Hv. þm. Barð., sem er veraldarinnar framkvæmdamaður, — hann gildir einu um prófessorsembættin í verkfræðideild, en vill ekkert með dósentsembættin í norrænudeildinni.

Svo er maður kominn að veitingu dósentsembættis við guðfræðideild Háskólans, og þar virðist gæta nokkurs hins sama; skoðanir hv. þm. eru sitt á hvað og eftir líkum mælikvarða og ég gat um. Er þess vegna erfitt fyrir þá þm., sem eru engir sérfræðingar í neinum af þessum greinum, að komast að ákveðinni niðurstöðu. En nú var ég neyddur til þess að gera það, þegar þar að kom, og er ég ekkert feiminn við að játa það skoðunarleysi mitt, að ég var lengi á báðum áttum, hvort ég ætti að vera með eða móti því, að þetta embætti væri stofnað. Ég var þeirrar skoðunar og er, að það sé engin nauðsyn fyrir Háskólann að stofna til þessa dósentsembættis, og frá því sjónarmiði ætti ég að vera á móti þessu frv. En hér eru fleiri sjónarmið, sem koma til greina, og þau riðu baggamuninn fyrir mér. Ég er einn af þeim mönnum, sem halda því fram, að sr. Björn Magnússon hafi orðið fyrir skakkafalli af hálfu opinbers valds og það oftar en einu sinni. Ég hef þá grundvallarskoðun, eins og líklega margir fleiri, að þegar einstaklingur hefur orðið fyrir barðinu á opinberu valdi, og því fremur, ef slíkt kemur oftar en einu sinni fyrir, þá sé það í raun og veru skylda manns að hlífa heldur en höggva. Þetta þykja ef til vill ekki góðar og gildar málsástæður, en ég sé ekki, að þessi maður eigi sér á annan hátt uppreisnar von, þannig að þessi ástæða reið baggamuninn fyrir mér, svo að ég er fylgjandi frv.

Nú hafa komið fram brtt. við frv., sem ef til vill eru á einhverjum rökum reistar og réttlátar að ýmsu leyti, t.d. sú, að nafn sr. Björns verði numið burt úr frv., og eru þau rök færð fram, að það sé móðgun við ráðh. að taka við slíku plaggi frá Alþ., sem sé stílað á nafn ákveðins manns. Ráðh. hefur haft orð á því, að það sé óviðeigandi, en sagði jafnframt, að ef til embættisveitingar kæmi, mundi hann ekki veita embættið öðrum en sr. Birni. Ég er þess fullviss og segi það af reynslu af þessum hæstv. ráðh., að úr því að hann hefur þetta mælt, mun hann standa við orð sín. Ég álít það hégóma einn, hvort þetta nafn stendur í frv. eða ekki, því að það er öllum lýðum ljóst, að það er sr. Björn Magnússon, sem málið snýst um. Úr því að yfirlýsing hæstv. ráðh. lá fyrir og þar sem ég trúi, að hann standi við orð sín, hefði ég getað fallizt á, að þessi brtt. yrði samþ., en ef hún verður samþ. hér í hv. d. og málið endursent hv. Nd., gæti svo farið, að málið félli með því. En annaðhvort er að vera með þessu frv., eða móti því, og vildi ég því óska, að það kæmi hér líka fram, að annaðhvort séu hv. þm. með þessu frv. eða ekki.

Þegar málið var sent frá 1. umr. til 2. umr., var ég ekki viðstaddur vegna forfalla, svo að það hvorki stóð né féll með mínu atkv., en hv. þm. Dal. hjálpaði til með sínu atkv. að koma því til 2. umr., þar eð það munaði aðeins einu atkv. Hann segist nú munu spyrna við fótum, og er ég því að hugsa um að hafa vaktaskipti við hann.