09.03.1944
Neðri deild: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

27. mál, skipun læknishéraða

Pétur Ottesen:

Herra forseti. — Það er ekki farið leynt með það hér í þessum umr., að þær breyt., sem gerðar hafa verið á frv., feli í sér mikla umhyggju fyrir fólkinu í hinum dreifðu byggðum landsins. Og hv. þm. A-Húnv. kvað nokkuð fast að orði um það, að lítil umhyggja fyrir þessu fólki í dreifðu byggðunum kæmi fram hjá þeim þm., sem vildu gera lítið úr ákvæðunum um fjölgun læknishéraða, sem ráð er fyrir gert í frv. því, sem hér liggur fyrir til umr. Og vei má vera, — af því að ég hef ekki fylgzt svo nákvæmlega með umr., — að orð hafi fallið á líka lund hjá fleirum en þessum hv. þm. En annaðhvort er, að þeir menn, sem þannig tala, meina ekki nokkurn skapaðan hlut með því, eða þeir gera sér ekki ljóst ástandið í þessu efni í sveitum landsins. En ég held, að réttara sé að orða það svo, eins og málið horfir nú við, að þeir meini ekkert með þessu tali sínu, því að þeim hlýtur að vera það ljóst, að án annarra og frekari aðgerða felur fjölgun læknishéraða út af fyrir sig ekki í sér neina lausn á þessu.

Eins og sakir standa nú, — og þannig hefur það verið um nokkurt skeið, — hafa nokkur læknishéruð staðið auð, af því að enginn læknir fæst til þess að gegna þar læknisþjónustu. Og fólkið þar er engu betur á vegi statt, þegar slys og heilsubrest ber að garði, þó að þar hafi verið ákveðið á pappírnum að stofna nýtt læknishérað, — því að það er ekki prentsvertan á síðum stjórnartíðindanna, — þó að þar sé ákveðið, að þessi eða hinn staðurinn skuli vera „sérstakt læknishérað“, sem getur bjargað fólkinu í sjúkdómstilfellum, heldur hitt, að læknir sé til staðar til þess að hjálpa fólkinu, þegar veikindi ber að höndum. Nú eru ýmis héruð, sem enginn læknir er í. Og ef nú á að bæta hér við nokkrum læknishéruðum enn, þrem eða fjórum, eins og verið hefur í ráði, — þau voru a.m.k. fjögur í gær, en eitt var fellt niður í hv. Ed., — hvaða gagn er þá að því, ef fólkið er eftir sem áður jafnlæknislaust? Ekki nokkurt. Hér þarf róttækari aðgerða við. Brýn þörf er á að bæta úr þessari vöntun lækna í dreifbýlinu, en það er engin úrbót að stofna ný læknishéruð til þess að láta þau standa auð og tóm. Það, sem hér á og verður að gera samkv. þeirri reynslu, sem fengin er í þessu efni, er að gera þær ráðstafanir, að læknar fáist í þau héruð, sem nú eru óskipuð, og í þau héruð, sem ráð er fyrir gert að bæta við eða stofna. Og það er sýnilegt, að þetta verður ekki gert með öðru móti en því, að ákveðið verði í lögum, að það sé skilyrði fyrir því, að þeir menn, sem nema læknavísindi hér í þessu landi, inni af hendi þjónustu um ákveðinn tíma úti í hinum dreifðu byggðum landsins, í þeim læknishéruðum, sem að öðrum kosti standa auð og menn fast ekki fúslega til að gegna læknisþjónustu í. En til þess þarf, eins og áður er greint, að setja löggjöf, sem að haldi kemur í þessu efni. Hitt er að byrja algerlega á öfugum enda, að fara að fjölga læknishéruðum án slíkra nauðsynlegra ráðstafana, því að þess ber að gæta, að það er ekki af neinum læknaskorti í landinu yfirleitt, að lækna vantar í sum héruð landsins, heldur af því, að læknarnir hrúgast í þéttbýlið — og það svo, að ýmsir telja, að þeir séu að verða þar að hreinustu plágu fyrir það fólk, sem þar býr.

Fyrirkomulagið í heilbrigðismálum okkar er svona rammöfugt og snúið. Fólkið úti á landsbyggðinni verður að deyja drottni sínum, vegna þess að það getur ekki náð til læknis, en læknarnir eru að verða hornótt byrði á fólkinu í þéttbýlinu. Þetta tal um að bæta við nýjum læknishéruðum til þess að tryggja fólkinu lækna er því ekki nema slagorð, ef ekkert er aðhafzt annað og meira. Og það tal verður dæmt og léttvægt fundið af fólkinu úti í dreifbýlinu, sem bíður eftir því að fá til sín lækna. Og að leggja til að stofna ný læknishéruð, án þess að neitt annað sé að gert, er því heldur ekkert annað en skrautfjaðrir, sem menn eru að reyna að setja í hattinn sinn, en minnsti goluþytur feykir burt, svo að þar sér ekki örmul eftir.