15.09.1944
Efri deild: 43. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (3258)

121. mál, mat á beitu o.fl.

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Herra forseti. — Á s. l. ári var samþ. hér á Alþ. þál., þar sem skorað er á ríkisstjórnina að láta fara fram athugun á og gera tillögur um beitu landsmanna. Þessi þál. var borin fram sökum þess, að mjög hafði á því borið um nokkurra ára skeið, að mikið skorti á, að nægileg beita væri til í landinu, og voru allir, sem til þekktu, sammála um, að einhverra umbóta þyrfti í þessu máli. Ráðuneytið bað mþn. í sjávarútvegsmálum að athuga þetta og gera uppkast að frv. til l. um beitumál. Þetta gerði mþn. og sendi það frv. til atvinnumálarn. fyrir alllöngu. Þetta frv., sem hér er borið fram, er að nokkru leyti byggt á því frv., sem mþn. lét ráðuneytinu í té, en þó hafa verið felld úr því nokkur atriði, sem ég vil skýra nánar.

Lagt er til hér í frv., að skipuð sé 5 manna nefnd eftir, tilnefningu þeirra aðila, sem helzt verður að telja umbjóðendur þeirra, sem beituframleiðslu og beitunotkun hafa með höndum, og er þeim ætlað að fylgjast með því, hvað beituþörf landsmanna sé hæfilega áætluð á hverju ári, og hafa eftirlit með því, að nægilega mikið sé framleitt af frosinni beitu og geymslu fyrir komið á hæfilegan hátt í þeim frystihúsum, sem nú eru til eða verða til í landinu. Það er einnig gert ráð fyrir, að beitan sé metin, og skulu fiskimatsmenn á hverjum frystingarstað annast beitumatið. Þetta ákvæði er vissulega æskilegt og nauðsynlegt, því að mikið hefur vantað á, að þannig hafi verið farið með beituna, bæði á undan og eftir frystingu, að viðunandi geti talizt, og því nauðsynlegt að tryggja góða vöru. Það er líka gert ráð fyrir, að ef ekki er nægilega séð fyrir beituþörf landsmanna, hafi beitunefnd rétt til að grípa inn í á þann hátt að frysta beitu á sinn reikning og hafa til sölu handa landsmönnum.

Þetta er í höfuðatriðum það, sem þetta frv. leggur til. Munurinn á þessu frv. og því, sem mþn. samdi, er fyrst og fremst fólginn í því, að fellt er niður ákvæði, sem var í því frv. um að beitunefnd hefði vald til þess að byggja sérstök frystihús til þess að geyma í frysta beitu. Þetta er fellt niður sökum þess, að ráðuneytið lítur svo á, að nógu vel verði séð fyrir þessu máli með þeim reglum, sem hér eru, og að ekki sé æskilegt að grípa inn í með öðrum lagaboðum. Gæti það orðið til þess, að þeir einstaklingar, sem nú starfa að beitufrystingu, létu það niður falla, og mætti það þá teljast verr farið. — Annað atriði, sem breytt er, er það, að gert var ráð fyrir að skipaðir væru sérstakir beitumatsmenn, er önnuðust matið. En þar sem við nánari athugun kemur í ljós, að fiskimatsmenn eru trúnaðarmenn hins opinbera, má telja víst, að hver og einn þeirra hafi nægilega þekkingu til að framkvæma þetta verk og því gert ráð fyrir, að þeim sé falið það, eins og frv. er lagt fyrir hv. deild. Vil ég álíta þetta frv., ef það yrði gert að lögum, drjúgan áfanga í rétta átt til að tryggja, að góð beita verði til í landinu á næstu árum. Með þessum orðum vil ég leggja frv. fyrir hv. deild og legg til, að málinu verði vísað til hv. sjútvn.