15.09.1944
Efri deild: 43. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í C-deild Alþingistíðinda. (3260)

121. mál, mat á beitu o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég vil við þessa l. umr. lýsa ánægju minni yfir þessu frv. Það er orð í tíma talað, að eitthvað verður að gera til að tryggja þetta nauðsynjamál fyrir landsmenn. En með því að ég veit, að málið verður til umr. í sjútvn., vil ég á þessu stigi málsins aðeins bera fram tvær fyrirspurnir til hæstv. ráðh. Sú fyrri er á þá leið, hvort hæstv. ríkisstj. eða hann sem hæstv. atvmrh. gæti fallizt á, að 2. gr. yrði breytt til nokkuð meira samræmis, þannig að umbjóðendur þeirra, sem helzt nota beituna, ættu þar sæti. Fyndist mér ekki óeðlilegt, að Fisksölusambandið, sem hefur verið umbjóðandi smábátaútvegsins um allt land, komi þar til greina sem aðili, því að þótt starf þess liggi nokkuð niðri nú, sökum þess að lítið hefur verið um saltfisksölu, má gera ráð fyrir, að á því verði breyting áður en langt um líður. Hin fyrirspurnin er í sambandi við það, að fellt hefur verið niður að heimila beitunefnd að reka og reisa sérstök frystihús til frystingar á beitu. Ég er því sammála, að það hefði verið mjög eðlilegt að fella þetta úr frv., en vildi í sambandi við þetta spyrja hæstv. ráðh., hvort honum þætti tiltækilegt, að sett væri inn í þetta frv. eitthvert ákvæði um, að þeim frystihúsum á landinu, sem byggð hafa verið fyrir mjög mikinn styrk úr ríkissjóði, máske 1/3, bæri meiri skylda til að taka að sér beitufrystingu og geymslu en þeim frystihúsum, sem byggð hafa verið án styrks.

Það eru þessi tvö atriði, sem ég vildi leita álits hæstv. ráðh. á, áður en málið verður tekið fyrir hjá nefndinni.