09.03.1944
Neðri deild: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

27. mál, skipun læknishéraða

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Ég þarf örfáu við það að bæta, sem ég sagði hér í fyrri ræðu minni.

Hv. þm. Borgf. fór hér af stað með nokkuð miklum goluþyt til þess að vara menn við því að stofna ný læknishéruð þar, sem fólkið hefur versta aðstöðu til þess að vitja læknis. Hann talaði um „slagorð“ og að menn væru að reyna að setja „fjöður í hattinn sinn“, sem minnsti goluþytur feykti svo burt. — Þetta virðist mér nokkuð undarlegt tal hjá hv. þm., þegar athugað er, að þessi sami hv. þm. greiddi atkv. með Grindavík sem nýju læknishéraði hér í hv. d, fyrir skemmstu. Hann kveður þá þann dóm upp yfir þeirri atkvgr. sinni, að það sé „slagorð“, sem enginn taki mark á.

Ég þarf ekki að fara fleiri orðum um það, sem hann sagði hér. Það kemur nákvæmlega sami skilningur fram hjá honum og hv. 1. þm. Rang., að vegna þess að erfiðleikar hafa verið á að ná í lækna í viss héruð á landinu, þá eigi maður bara að miða við það ástand, þegar um er að ræða að ákveða læknishéruð fyrir framtíðina. En ég viðurkenni ekki réttmæti þessarar bölsýni. Við eigum lækna hér í landinu, sem eru fjórum eða fimm sinnum fleiri en öll læknishéruð landsins. Fjöldi stúdenta stundar hér læknisfræði, og fjöldi íslenzkra stúdenta er við læknisfræðinám í öðrum löndum og koma heim að námi loknu. Þess vegna er það, ef gerðar verða skynsamlegar ráðstafanir, að hægðarleikur er að fá lækna í öll læknishéruðin, sem fyrir eru nú, og alveg eins, þó að þetta frv. verði nú samþ. með þeim brtt., sem fram hafa komið um nauðsynlega skiptingu læknishéraða. — Hér hefur það því komið fram, að blandað er saman gersamlega óskyldum atriðum. Hv. þm. Borgf. og fleiri hafa því gert sig seka um hreina rökvillu í þessu efni, því að ég er sannfærður um, að með skynsamlegum ráðstöfunum má fá lækna í öll þessi héruð. Ef miða ætti löggjöf um fjölgun og skipun læknishéraða við það ástand, sem nú er um það að fá lækna í sum héruð á landinu, en ekkert að gera til þess að bæta úr því, þá hygg ég, að þetta ófremdarástand mundi haldast um aldir og eilífð.

Hv. 1. þm. Rang. hefur misskilið orð mín þannig, að ég væri að ásaka hann um, að hann rækti ekki læknisstörf sín með sóma. En því fer fjarri, að ég hafi ásakað hann um neitt slíkt. Ég lét aðeins svo um mælt, að mér hefði fundizt meiri ástæða fyrir hann að vinna að því í samtökum með eigin starfsbræðrum, að læknar fengjust í héruðin, heldur en vera að rísa hér upp á Alþ. á móti því að stofna læknishéruð þar, sem fólkið á við erfiðleika að búa um að vitja læknis. — Og með þessu ætla ég, að einnig sé svarað hv. 2. þm. S.-M., sem jafnframt reyndi að snúa út úr þessum orðum mínum á sömu lund og hv. 1. þm. Rang. gerði eða misskildi þau.

Hv. 2. þm. N.-M. spurði um það, hvort Miklaholtshreppur ætti að taka þátt í kostnaði við byggingu læknisbústaðar, þó að ákveðið sé í frv., að íbúar þess hrepps skuli eiga jöfnum höndum tilkall til læknisins í Stykkishólmshéraði. Ég hef gert ráð fyrir, að þeir taki þátt í þessum kostnaði ásamt Breiðavíkurhreppi og Staðarsveit.

Hv. 2, þm. N.-M. virðist andvígur þessu frv. eins og það er nú, vegna þess að þar sé búið að hræra eða sjóða saman tvær stefnur, aðra sem honum finnst rétt, að steypa saman læknishéruðum og koma upp góðum sjúkrahúsum, en hins vegar sé búið að blanda í þetta frv. ákvæðum, sem hann telur aðra og verri stefnu, að skipta læknishéruðum, þar sem slæm eru skilyrði um læknissókn. — Ef þessu tvennu hefur verið ruglað saman í meðferð málsins á Alþ., þá var það svo miklu meira gert í stjfrv., eins og það var, þegar það var lagt fyrir þingið, að þar var að vísu gert ráð fyrir að steypa tveimur héruðum saman í eitt, en þó að stofna læknishérað á bak við, sem mundi verða eitthvert fámennasta læknishérað á landinu. Og þessu var þessi hv. þm. samþ. Ég segi þetta ekki af því, að ég sé á móti því að stofna þetta Bakkagerðishérað, heldur til þess eins að sýna fram á rökleysur hv. 2. þm. N.-M. í þessu efni.

Loks vil ég svo segja það, að náttúrlega kennir mjög einkennilegs skilnings, þegar því er haldið fram, að fyrst tekinn sé upp sá háttur að stofna nýtt læknishérað á Snæfellsnesi og á Borðeyri, þá eigi allar sveitir, sem eiga erfiða læknissókn, að fá nýjan lækni. Vitanlega sjá það allir, að í þessu efni verður að miða við fólksfjölda einnig. Það hefur verið talað um, að Öræfingar ættu slíkan rétt. Þar eru nú 200 manns. Og fleiri staðir hafa verið nefndir í þessu sambandi.

Hvað það snertir að setja þetta mál í n. og að okkur, sem berjumst fyrir breyt. á frv., mætti vera það sama, þó að svo yrði gert, þá hef ég svarað því nokkru. En ég vil endurtaka það, að stofnun nýs læknishéraðs á Suður-Snæfellsnesi hefur verið athuguð um langa stund. Um það mál var flutt frv. á hæstv. Alþ. fyrir ári, en því var vísað til heilbrigðisstjórnarinnar og landlæknis. Það mál hefur því verið athugað af landlækni og hann verið andvígur því. Héraðsbúar eru ekki samþykkir landlækni, og meiri hl. Alþ. hefur orðið sammála héraðsbúum. Þessi mþn., sem á að skipa, verður þriggja manna n., og landlæknir mundi sjálfsagt vera í henni. Ég hef enga trú á, að hann skipti um skoðun til batnaðar. Þess vegna sé ég ekki þörf á að fresta þessu máli og setja það í n. Það hefur þegar verið athugað.