21.11.1944
Efri deild: 71. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í C-deild Alþingistíðinda. (3271)

121. mál, mat á beitu o.fl.

Frsm. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. — Tilgangurinn með því frv., sem hér liggur fyrir til umr., á að vera tvenns konar. Annars vegar að tryggja það svo sem hægt verður, að ekki komi fyrir, að beituskortur verði í landinu og afli landsmanna verði minni af þeim sökum, hins vegar, að þá beitu, sem á boðstólum verður, sé hægt að fá á hverjum tíma við hæfilegu verði.

Mér hefur þó ofurlítið fundizt, að mönnum þyki þetta vera smámál, en ég held, að fyrir smábátaútveginn sé þetta þýðingarmikið mál og að smáútvegsmenn varði miklu, hvernig málum þessum er skipað og hvernig tryggð eru þau tvö atriði, sem ég nefndi áður, að frv. ætti að miða að.

Einn þessara smáútgerðarmanna hefur sagt mér, að beitukostnaðurinn sé stærsti útgjaldaliðurinn við smáútgerð. Hann sagði, að á síðustu vetrarvertíð hefði beitukostnaður á bát hans orðið 40 þús. kr., þegar olíukostnaður varð ekki meiri en 7 þús. kr. Beitukostnaðurinn var þannig nærri sexfaldur á við olíukostnaðinn. Þetta beitumál er síður en svo þýðingarlítið og þess vert, að Alþ. athugi það og geri alvarlegar ráðstafanir til þess að bæta úr því. Frv. það, sem hér liggur fyrir og var flutt af fyrrv. atvmrh., er að mestu leyti byggt á till. að frv., sem mþn. í sjávarútvegsmálum samdi. Þó er vikið frá því, en einkum í einu atriði. Mþn. er skipuð fulltrúum frá öllum þingflokkum, og því er álit hennar nokkurs konar samkomulag þingflokkanna eða a. m. k. fulltrúa allra þeirra. Ég hef því miðað nál. mitt við samkomulag þessarar mþn. nema í einu atriði, sem er nokkuð á aðra leið. Hv. sjútvn. þessarar d. hefur breytt þessu nokkuð, en þó einkum í tveim atriðum. Í fyrsta lagi, að meiri hluti vill fela Fiskifélagi Íslands alla framkvæmd þessara laga, en eigi, eins og ég lagði til, að sérstök nefnd, skipuð fulltrúum þeirra aðila, sem beinna hagsmuna hafa að gæta um þetta mál, hafi það sem sérstakt starf og beri ábyrgð á því gagnvart umbjóðendum sínum. En þetta orsakast af því, að ég lít öðrum augum á Fiskifélagið en hv. meiri hl. n.

Hv. þm. Barð. sagði hér, að Fiskifélagið væri stærsti aðili að þessum málum. Ég lít öðruvísi á þetta. Fiskifélagið er félag útgerðarmanna og getur ekki talizt umbjóðandi fyrir nema nokkurn hluta þeirra manna, sem hér um eiga beinna hagsmuna að gæta. Hlutarsjómenn eru margfalt fleiri en útgerðarmenn, sem Fiskifélagið er fulltrúi fyrir. Og þótt Fiskifélagið gæti hagsmuna útgerðarmanna, þá er ekki hlutarsjómönnum tryggður sá réttur, sem þeim ber, en fulltrúi þeirra er Alþýðusamband Íslands. Því legg ég til, að nefndin sé skipuð fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands. Í frv. eins og það liggur hér fyrir er að vísu gert ráð fyrir, að sérstök nefnd sé skipuð, en í henni skulu eiga sæti fulltrúar frá Sambandi íslenzkra samvinnufélaga og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Ég tel, að þetta sé byggt á misskilningi. Fulltrúar þeirra, sem selja, hafa ekkert að gera í nefndinni, sem skal vera skipuð fulltrúum kaupenda. Þannig er það í öllum viðskiptum.

Þá er annað meginatriði, sem ágreiningur hefur orðið um í þessu máli. Í till. mþn. í sjávarútvegsmálum, sem þetta frv. er byggt á, er gert ráð fyrir, að beitunefnd geti, ef hún telur þörf á, látið reisa eða kaupa frystihús til að geyma beituna í, með samþykki ráðh. Hæstv. ráðh. felldi þetta úr frv. og meiri hl. sjútvn. hefur heldur ekki fallizt á þetta. En ég hygg, að það geti verið nauðsynlegt, að beitunefnd geti gert ráðstafanir til þess að beita verði fryst, eftir að aðrar leiðir hafa verið reyndar. En ég hef sett þetta fram í öðru formi en mþn. Hv. frsm. sagði, að ógerlegt væri að reisa frystihús, sem gerði ekki annað en frysta beitu til útgerðarinnar, því að rekstur þess væri ekki tryggður. Þetta viðurkenni ég, en ég legg til, að síldarverksmiðjum ríkisins verði falið að annast frystinguna, því að þótt stofnkostnaður yrði ekki minni, þá yrði reksturskostnaður minni en ef sérstakt frystihús væri reist, því að þá þyrfti ekki að bæta við starfsfólki nema meðan vinna fer fram, og eigi þyrfti heldur að auka stjórnarkostnað, ef það væri reist í sambandi við síldarverksmiðjurnar. Ef þetta yrði gert, gæti komið til mála, að hægt væri að selja beitu með vægara verði en annars. Ég vil taka það fram, að þótt beitunefnd hefði þessa heimild, þá ætlast ég ekki til, að til hennar verði gripið, fyrr en aðrir möguleikar hafa verið reyndir og hún telur sig ekki hafa komizt að viðunandi samkomulagi við þau frystihús, sem fyrir eru. Frystihúsum hefur að vísu fjölgað, eins og frsm. benti á, en verkefni þeirra hafa aukizt og þau hafa meiri áhuga á öðru en að frysta beitu fyrir smáútgerðina. Þess vegna vil ég, að þessi möguleiki sé fyrir hendi, þótt fyrst beri að leita samninga við frystihúsin, þannig að næg og ódýr beita sé ávallt til. Ég tel, að hvergi verði hægara að koma þessu fyrir en í sambandi við síldarverksmiðjurnar. Það þyrfti ekki að hafa mjög mikinn aukareksturskostnað í för með sér. Ég hygg nú, að málið liggi nægilega ljóst fyrir hv. d. og sé ekki ástæða til að ræða þetta frekar.