21.11.1944
Efri deild: 71. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í C-deild Alþingistíðinda. (3275)

121. mál, mat á beitu o.fl.

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Hæstv. ráðherra gat þess, að með þessum breyt. væri nefndinni breytt í eftirlitsnefnd úr framkvæmdarnefnd. Þetta er að nokkru rétt. Þó er gert ráð fyrir, að Fiskifélagið geti gripið inn í, ef þörf krefur, og ég álít, að enginn aðili frekar en Fiskifélagið hafi betra yfirlit yfir þetta. Það hefur skýrslusöfnunina og þar af leiðandi bezta aðstöðu til þeirra hluta. Ekki er hægt að ætlast til, að ríkið annist öflun beitu, ef aðilarnir á hverjum stað eru svo sljóir, að þeir hugsa ekki fyrir því, eftir að þeir hafa verið aðvaraðir. Það væri að losa þá við ábyrgð, sem eðlilegt er, að þeir hafi.

Þá vil ég minnast á aths. hv. 4. landsk. Hann sagði, að þetta frv. væri til þess að forðast beituskort. Þetta er rétt; meira að segja til að fyrirbyggja beituskort. Þá sagði hann, að það ætti að tryggja, að beita væri seld við vægu verði. Þetta felur frv. það einnig í sér, þar sem gert er ráð fyrir verðlagseftirliti, eins og við aðrar vörur í landinu. Svo að ég tel, að sjútvn. hafi búið um þetta atriði eins vel og hægt er.

Þá minntist hv. 4. landsk. á, að líta mætti svo á, að þessar till. væru nokkurs konar samningur milli allra þingflokka, og væri það þess vegna einkennilegt, ef slíkt mál næði ekki fram að ganga hér í hv. deild.

Ég vil í sambandi við þetta benda hv. 4. landsk. á, að Sigurður Kristjánsson lítur svo á, að einfaldari ráð en frv. gerir ráð fyrir til öryggis beitumálum hefðu verið finnanleg og áskilur sér rétt til þess að fylgja brtt. í þá átt og skrifar undir nál. með fyrirvara. Hann er formaður þeirrar n., sem þessar till. eru komnar frá, svo að það má ekki skoðast undir neinum kringumstæðum sem sameiginleg samþ. þingflokkanna, enda mér ekki vitanlega borið undir þingflokkana til samþykktar eða synjunar.

Þá taldi hv. 4. landsk., að Fiskifélagið væri fulltrúi útgerðarmanna, en ekki hlutarmanna, og væri eðlilegra, að Alþýðusambandið væri þeirra fulltrúi. En ég hef ekki þann skilning á þessu, heldur álít ég, að Fiskifélagíð sé fyrst og fremst fulltrúi smáútgerðarmanna í landinu og annarra útgerðarmanna og einnig hlutarmanna. Þegar um vöru er að ræða, þar sem andvirði hennar er tekið af óskiptum afla, getur umboðsmaður útgerðarinnar ekki gengið á hag hlutarmanna, þar sem hann er einn hluthafinn sjálfur, þar sem slíkt kæmi vitanlega einnig niður á útgerðinni. Og jafnvel þó að Fiskifélagið væri umboðsmaður útgerðarmanna, sem ég algerlega mótmæli, þá væri samt sem áður í þessu tilfelli ekki unnt að gera neinn greinarmun. Og séu hásetar ráðnir með hlutatryggingu eða upp á fast kaup, kemur þetta ekki til greina. En séu þeir ráðnir upp á hlut, er hægt að skilja sundur hagsmuni þeirra annars vegar og hagsmuni útgerðarmanna, sem taka einnig hluti fyrir báta og veiðarfæri hins vegar. Ég fullyrði, að Fiskifélagið hefur starfað þannig undanfarið, að það hefur gætt vel hagsmuna smáútgerðarmanna og hlutarmanna og mun aldrei hafa unnið meir í þá átt en einmitt nú að gæta hagsmuna þeirra, sem eru lægst launaðir. Ég held, að hv. 4. landsk. ætti að kynna sér þessa hluti betur, áður en hann fullyrðir annað hér á Alþ., auk þess sem það er engin fjarstæða, að Alþýðusambandið, svo voldugt sem það er orðið, beitti áhrifum sínum við Fiskifélagið, þannig að tryggja eða gæta enn betur hags hlutarmanna, sem hér er um að ræða, ef því finnst þeim á einhvern hátt gert rangt.

Af þessum ástæðum sé ég ekki ástæðu til þess að breyta um og fela þetta sérstakri n., þar sem hlutarmenn hafa ekki fulltrúa nema að einum þriðja, en að mínu áliti nú jafnan rétt á við sjálfa útgerðarmenn. Ég tel, að í till. minni hl. sjútvn. sé sá regingalli að leggja til að reisa frystihús í sambandi við síldarverksmiðjurnar, eins og hæstv. dómsmrh. benti á í ræðu sinni. Það þyrfti að gera þar stórbreytingar, enda fátt, sem getur mælt með því að byggja frystihús upp á 500 þús. kr. og láta það svo standa til þess að grípa inn í einhvern tíma þegar ekki næst samkomulag. Það verður vitanlega að starfrækja það fyrirtæki, þegar búið er að reisa það, ekki aðeins lítinn tíma úr árinu, heldur allt árið. Og ef það væri rétt, að þetta fyrirtæki gæti fryst, geymt og selt beitu með miklu vægara verði en nú er hægt, þá er hægt að réttlæta það að verja 500 þús. kr. til þess að byggja slíkt fyrirtæki, en það liggja nú ekki nein gögn fyrir, sem styðja það mál. Og í sambandi við það vil ég benda á, að það hefur einhvern tíma á sínum tíma verið fenginn verkfræðingur, er kallar sig Axel Kristjánsson og sett hefur ingeniør undir sitt nafn, til þess að gera áætlun um þessa byggingu. En á þessu plaggi, sem þessi maður hefur sett sitt nafn undir, er ekki einu sinni dagsetning, svo að menn geti vitað, hvenær þessi gögn eru gefin út og við hvaða tíma verðlagið er miðað. Og flest, sem kemur fram í þessum gögnum, sem ættu þó að vera leiðarvísir fyrir viðkomandi aðila til þess að byggja á, er við kemur byggingu og rekstri slíks frystihúss, er þannig, að ég verð að segja, að það er ekki hægt að byggja á honum frekar en dagsetningu, sem fyrirfinnst ekki á skjalinu. Ég hef kynnt mér þessi gögn, og ég geri ráð fyrir, að mþn. í sjávarútvegsmálum hafi einmitt byggt á þessum útreikningi, þegar hún gerði sínar till. um byggingu frystihúss. En slíkt verður að taka upp á sérstökum grundvelli og þá kannske með breyt. á l. um síldarverksmiðjur, þ. e. hvort þeim skuli falin frysting bæði á beitu og öðru. Það var viðurkennt í n. og einnig af hv. 4. landsk., að það væri engin trygging fyrir því, að slíkur rekstur gæti borið sig, enda þótt það hefði víðtækara svið en að frysta beitu fyrir landsmenn. Slíkt fyrirtæki yrði líka að sjá um flutning á beitunni, og það á þann hátt, að hún yrði ekki dýrari en sú beita, sem menn tækju við bæjardyrnar hjá sér og frystu í sínum eigin húsum. En það er vitanlegt, að með þeim flutningskostnaði, sem leggja yrði á beituna vegna dreifingar frá Siglufirði út um allt land, gæti sú verksmiðja eða frystihús aldrei orðið samkeppnisfært við þau frystihús, sem geta tekið síldina á staðnum. Og nú er það svo, að hver verstöð og hvert frystihús í landinu telur sig ekki hafa neina tryggingu fyrir öruggi starfrækslu nema að geta tryggt sér nægilegan skipastól til viðskipta, en því fylgir fyrst og fremst að tryggja þeim bátum næga og góða beitu, sem engir eiga jafnhægt með. Í því liggur e. t. v. langmesta tryggingin fyrir því, að ekki sé nauðsynlegt að grípa til neinna annarra ráða eins og stendur.