13.12.1944
Neðri deild: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (3276)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. — Eins og frsm. heilbr.- og félmn., hv. þm. Snæf., sagði, hefur orðið dálítill ágreiningur milli mín og n. um afgreiðslu þessa máls, og helga ég mér afstöðu með fyrirvara.

Eins og hv. þm. Snæf. gat einnig um, er þetta frv. á þskj. 657 eiginlega staðgengill þess frv., sem ég bar fram fyrr á þessu þingi, var það á þskj. 346 og fjallaði um byggingu og rekstur sjúkrahúss á Akureyri. Með öðrum orðum er það upplýst, að það frv., sem var vísað til heilbr.- og félmn., var sent til umsagnar mþn. um læknishéraðaskipun o.fl., og er þetta frv. að mestu leyti verk þeirrar mþn. Ég fyrir mitt leyti var búinn að lýsa mig samþ. aðalatriðum þess frv., en síðan hefur orðið á því breyt., einmitt varðandi byggingarkostnaðarliðina, þar sem mþn. lagði til, að sjúkrahúsin leggi fram 1/3 , er því hér breytt í 2/5, og við fjórðungsspitalana átti ríkissjóður að greiða stofnkostnað að 3/4, en hér er hann lækkaður niður í 3/5. Ég ætla að sætta mig við þessar till., þótt ég hefði kosið hitt frekar, en svo er það í 2. mgr. 1. gr. á þskj. 657, sem ég ætla að lesa upp með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðherra er heimilt að gera það að skilyrði viðurkenningar sjúkrahúss, að öll þau sveitarfélög í grennd sjúkrahússins, er ætla má, að hafi þess samsvarandi not, takist á hendur eign og ábyrgð fyrirtækisins og gerist aðilar að rekstri þess samkvæmt ákvæðum laga þessara.“

Það er þetta ákvæði, sem ég get ekki fellt mig við og hef gert fyrirvara um. Það er skylda mín að gera það að kappsmáli, að þetta verði ekki í þessum l., vegna þess að fengin er reynsla í þessum efnum á Akureyri, og hefur þetta gefizt svo hroðalega illa, að bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar vill ekki þurfa að fara út í slíkt aftur. Gamli Akureyrarspítalinn var rekinn þannig, að það voru í raun og veru 3 hreppar í þessum tveim sýslum: Eyjafjarðarsýslu og S.-Þingeyjarsýslu, sem áttu hluta í þessum spítala. Eyjarfjarðarsýsla var meðeigandi og þátttakandi og einnig hluti af S.-Þingeyjarsýslu, eftir gjafabréfi frá fyrirtækinu „Gudmans Efterfölgere“. Eyjafjarðarsýsla lagði fram 200 þús. kr. um leið og Akureyrarkaupstaður þurfti að greiða svo að þúsundum skipti í rekstrarkostnað. Þetta gerði bærinn sig að sjálfsögðu ekki ánægðan með, og loks tók bæjarstjórn spítalann í sínar hendur, og gerði Eyjafjarðarsýsla sig ánægða með það. Nú á hið sama að verða upp á teningnum, það á nú að gera það að skilyrði fyrir viðurkenningu fjórðungssjúkrahúss, að sömu hrepparnir eiga nú að verða þátttakendur, bæði hvað snertir framlag til rekstrarkostnaðar og þátttöku í stjórn. „Sporin hræða“, menn eru hræddir við þessa gömlu reynslu og eru þess vegna mótfallnir því að taka slíkt upp aftur.

Með þessum fyrirvara tel ég mér rétt til þess að koma fram með brtt. við 3. umr.