09.03.1944
Neðri deild: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

27. mál, skipun læknishéraða

Jón Pálmason:

Það er nú einhvern veginn svo, að þau fáu orð, sem ég sagði áðan, hafa komið illa við hv. þm. Borgf., því að hann rauk upp með ofsa og skömmum, af því að ég benti á, að leiðin til að útvega fámennum héruðum læknishjálp lægi í þessu frv. og þeim breyt., sem þar er farið fram á. Í þessari ræðu hv. þm. Borgf. rak sig hvað á annars horn eins og oftar. Hann talaði um það m.a., að hér væri um „skrautfjaðrir“ að ræða, eins og hann kallaði það, en hins vegar, að fólk dæi af læknisleysi í dreifbýlinu, en læknar syltu í kaupstöðunum. Af hverju er þetta svona? Af því að læknarnir treysta sér ekki til að vera í sveitunum nema á léttasta skeiði. Því held ég, þótt það sé kannske ekki fullnægjandi að minnka héruðin, að það sé spor í áttina. Í stórum og dreifbýlum læknishéruðum þarf læknir oft að fara í löng og hættuleg ferðalög að vetri til o.s.frv., og það gerir það að verkum, að aðeins hraustustu menn treysta sér til þess að fara út í slík héruð. Tal hv. þm. Borgf. er því út í bláinn.

Það eina rétta, sem kom fram hjá hv. þm. Borgf. var, að koma þarf því til leiðar, að læknar séu ekki „plága í þéttbýlinu“. Það er rétt, að það þarf að koma því til leiðar, að læknar séu skyldaðir til að þjóna í dreifbýlinu fyrst, og þarf ég svo ekki að segja meira um það, annað en að hv. þm. gekk á milli og eggjaði menn á að fella frv.