13.12.1944
Neðri deild: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (3281)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Helgi Jónasson:

Herra forseti. — Ég vil aðeins þakka frsm. heilbr.- og félmn. fyrir undirtektir hans við tilmæli mín. Ég tel það rétt hjá honum, að ekki er ætlazt til þess, að l. verki aftur fyrir sig, ef frv. verður að l. eins og það nú liggur fyrir, en þar sem ég býst við, að aðeins sé um tvö hús að ræða, er voru reist á þessum dýru tímum og mundu verða nokkuð hart úti samanborið við sams konar fyrirtæki, þá finnst mér ekki nema sanngjarnt, að n. líti á þetta með velvilja og taki það til athugunar og reyni að bæta úr þessum málum fyrir 3. umr.