15.12.1944
Neðri deild: 93. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (3297)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég hef nú ekki í höndum neina útreikninga um kostnað ríkissjóðs af þessu. En ég sé strax í hendi mér, að ekki getur verið réttur sá útreikningur, sem hæstv: félmrh. hefur með höndum, að framlög ríkissjóðs mundu hækka úr rúmum 4 millj. kr. upp í 7–8 millj. við þessa breyt. Það getur ekki staðizt, því að hækkunin er hlutfallslega ekki nándar nærri svo mikil eftir okkar till. Till. þessi er fram komin af því, að við álitum þetta réttmætt miðað við það, sem áður hafði verið um Landsspítalann, og sé því rétt að koma þessu í það horf.

Hitt er alveg rétt hjá hæstv. heilbrigðismálaráðh., að menn ættu að temja sér þá reglu að lofa ekki meiru en mögulegt er að efna. Mundi ég telja mjög æskilegt, að hæstv. ríkisstj. vildi nú taka upp þá stefnu.