15.12.1944
Neðri deild: 93. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (3298)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Ég hef ekki nákvæma útreikninga á þessu við höndina, en ég hef haft þá áður og fullyrði, að það, sem ég hef hér upplýst, er rétt. Vitanlega eru þær áætlanir, sem fyrir liggja um sjúkrahúsbyggingar, nokkuð óákveðnar, hafa enda ekki verið gerðar um öll sjúkrahús. Geta þær vel breytzt og sennilegt, að það verði þá frekar til hækkunar en lækkunar. Má vera, að það sé eitthvað réttlæti í þessu samanborið við Landsspítalann, að þessum hlutföllum verði breytt. En mikil hefur verið þolinmæði hv. þm. V.-Húnv. að sitja hér á þingi um a.m.k. 7–8 ára skeið og hafa ekki komið auga á þetta fyrr en nú, að hann er kominn í stjórnarandstöðu. Það er að vísu vel þegið ráð til ríkisstj. að gæta þess að lofa ekki of miklu, en það fer þó ekki vel á því, að hv. þm., jafnmikið og hans flokkur talar um ógætilega fjármálastjórn, skuli standa að því að flytja till. um milljónaloforð í viðbót við það, sem fyrir er.