15.12.1944
Neðri deild: 93. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (3304)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. — Ég á sæti í þeirri mþn., sem þetta mál var sent til umsagnar. Og sú milliþn. lagði til, að tekin yrðu upp þau hlutföll um framlög ríkissjóðs til sjúkrahúsa og læknisbústaða, að ríkissjóður greiddi helming stofnkostnaðar, en 3/4 stofnkostnaðar til þriggja fjórðungssjúkrahúsa. Það mætti því virðast eðlilegt, að ég fylgdi brtt. hv. þm. V.-Húnv. um að breyta frv. í það horf að taka upp þessi hlutföll. Í heilbr.- og félmn. var það rætt ýtarlega eftir að álit mþn. kom, og þar lagði hæstv. dómsog félmrh. fram upplýsingar, sem hann ympraði á hér einnig, að búið væri að byggja svo mikið af læknisbústöðum og sjúkrahúsum, að þarna mundi verða um miklar fjárfúlgur að ræða, eða 12.750.000 kr., og af því hefði hlutfallið samkv. þriðjungareglunni, sem gilt hefur um þátttöku ríkissjóðs í kostnaðinum, verið 4.250.000 kr., sem komið hefði á ríkissjóð að greiða. En með þeim breyt., sem mþn. lagði til, hefði það, eins og hæstv. ráðh. tók fram, hækkað um 3 millj. kr. Þessar upplýsingar höfðu ekki legið fyrir í mþn. Og þegar þetta var rætt í heilbr.- og félmn., varð svo að fengnum þessum upplýsingum í málinu að niðurstöðu að fara þá millileið að láta þann hluta, sem ríkissjóður greiddi af þessum kostnaði, vera 3/5 og 2/5. eins og stendur í frv. því, sem fyrir liggur, í stað 3/4 og 1/2. Í heilbr.- og félmn. varð fullt samkomulag um þetta. Og ég fyrir mitt leyti mun standa með frv. óbreyttu, þó að ég hafi í öndverðu í mþn. lagt hitt til og mundi frekar kjósa það. Hins vegar tel ég vonlaust um framgang málsins í því formi, sem hv. þm. V.-Húnv. leggur til. — Samanburður hans á Landsspítalanum og öðrum spítölum fær náttúrlega ekki að öllu leyti staðizt. Um Landsspítalann er alveg sérstöku máli að gegna. Það mun að vísu rétt, að ríkissjóður lagði þar fram 3/4 stofnkostnaðar. En þetta er eini spítalinn, sem rekinn er af ríkinu sjálfu. Ríkísvaldið hefur ekki hingað til viljað ganga inn á, — og hvorki mþn.heilbr.- og félmn. —, að nokkrir aðrir spítalar yrðu reknir af ríkinu. Og að mörgu leyti hefur Landsspítalinn sína sérstöðu, fyrst og fremst vegna þess, að hann er nauðsynleg stofnun í sambandi við læknakennsluna við Háskólann, og því er nauðsynlegt, að viðkomandi þátttöku ríkissjóðs gildi um hann önnur hlutföll um stofnkostnað og rekstrarkostnað heldur en aðra spítala.

Það dylst engum, að ef frv. þetta er samþ., er það mjög mikil framför frá því, sem nú er, og mikil hagsbót m.a. fyrir Akureyri að fá staðfest, að ríkissjóður greiði 3/5 stofnkostnaðar spítalans þar, í staðinn fyrir 1/3, eins og venjan hefur verið undanfarið um spítala.