09.03.1944
Neðri deild: 29. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

27. mál, skipun læknishéraða

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Það út af fyrir sig er rétt hjá hv. þm. Borgf., að þegnskylduvinna lækna getur komið til mála. Mér finnst það engin frágangssök, að læknisfræðinemar verði að vera t.d. þrjú ár í sveit til þess að fá viss réttindi. Þetta út af fyrir sig er rétt. En ég hef aldrei heyrt hann fyrr bera þetta svo fyrir brjósti. Þessi áhugi blossar upp hjá honum til þess að koma málinu fyrir kattarnef. Það verður ekki öðruvísi skilið. Það er eðlilegt, að sjóndeildarhringur hans nái ekki út fyrir Akranes.