24.01.1944
Neðri deild: 5. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í C-deild Alþingistíðinda. (3317)

9. mál, framfærslulög

Flm. (Sigurður Thoroddsen):

Herra forseti. — Á þskj. 9 flytjum við 8. þm. Reykv. frv. til l. um breyt. á framfærslul. frá 12. febr. 1940. Við höfum þann hátt á að flytja ekki grg., en vísum til grg., sem fylgdi frv. hv. 5. þm. Reykv. (BrB), er hann flutti 1937 og 1938 og var að mestu samhljóða þessu frv. Ég vil þess vegna gera nokkra grein fyrir helztu breyt., sem þetta frv. felur í sér.

Í 1. gr. l. frá 1940 segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Framfærslustyrkur skal vera svo mikill sem nauðsyn krefur að dómi sveitarstjórnar eða framfærslunefndar og honum haga svo sem hún telur rétt vera, nema öðruvísi sé sérstaklega fyrir mælt í lögum þessum.“

Það er sýnt með þessu, að 1. gr. á að fela í sér, að hið opinbera tekur að sér að sjá þeim einstaklingum borgið, sem ekki eru þess megnugir sjálfir. En í framkvæmd er þetta þó öðruvísi. Framfærsluþurfinn finnur ekki, að hann á á þessu fullan rétt. Lagt er allajafna mest upp úr því, að kostnaður hins opinbera verði sem minnstur við framfærsluna, a. m. k. í bili í hverju tilfelli. Í rauninni er þó eins oft, að sparnaður í þessum efnum leiðir til dýrari framfærslu, vegna þess að ekki mun ótítt, að framfærsluþurfar og börn þeirra bíði heilsutjón vegna skorts á nauðsynjum.

Það er og galli við framfærslul., að þau fela ekki í sér neinn mælikvarða um, hver sé réttur þess, sem fullan framfærslustyrk þarf. Enda hefur reyndin oft sýnt, að framfærsluþurfar verði að sýna auðmýkt, skriðdýrshátt og jafnvel beita brögðum til þess að fá brýnustu nauðsynjar. Í þessari gr. höfum við gert ráð fyrir því, að atvmrh. skipi n., sem geri áætlun í byrjun hvers fjárhagsárs um nauðsynlega framfærslu heimila samkv. gildandi verðlagi í landinu. Það er ekki nema sanngjarnt, að n. sé skipuð af atvmrh., því að það er lagt til í frv., að landið verði gert að einu framfærsluhéraði. Það verður að treysta því, að þessi n. skoði það skyldu sína, að sú skrá, sem hún útbyggi, yrði sem næst því, er ætla má, að sé sómasamlegur framfærslueyrir.

Í 2. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir að breyta 4. gr. framfærslul. Það er ekki alltaf, að framfærsluskylda og foreldraráð fari saman. Faðir hefur t. d. sjaldan eða aldrei foreldraráð yfir óskilgetnu barni sínu, og til þess eru dæmi hér í Reykjavík, að ekki hefur tekizt að innheimta meðlag með óskilgetnu barni frá efnuðum föður, vegna þess að konan hafði fjárráð á heimilinu og lög náðu því ekki til innheimtu meðlagsins.

Þá kem ég að 3. gr. Samkv. henni hefur framfærsluþurfi óskorað vald til að velja sér dvalarstað. Hér, eins og annars staðar í frv., er gert ráð fyrir fullu sjálfræði framfærsluþurfa. Nú munu þess dæmi, að menn hafi soltið heilu og hálfu hungri til þess að komast hjá því að þiggja af sveit eða verða að dveljast sér um geð á heimili framfærslumanns síns. Ákvæði núgildandi laga um þessi efni hafa líka oft orðið til þess að spilla fjölskyldulífi og koma af stað missætti, sem ekki hefur tekizt að jafna.

Um 8. gr. er það að segja, að hún er breyt. á 12. gr. l. Í henni segir, að landið skuli allt vera eitt framfærsluhérað. Þetta er mikilvægasta breyt., og yrði þá loks með henni fengin trygging fyrir því, að sveitarflutningar hyrfu úr sögunni.

Níundu gr. leiðir svo af 8. gr. Greinar framfærslul., sem hér um ræðir, eru um sveitfestina, sem afnumin var um skeið, en aftur leidd í lög árið 1939.

Þá vil ég minnast á 14. gr. Þar er gert ráð fyrir, að kona öryrkja og manns, sem þjáist af langvarandi sjúkdómi, og kona manns þess, er situr langdvölum í fangelsi, njóti sama réttar og heimili ekkju. Reynslan hefur sýnt, að með gildandi l. verða þau heimili yfirleitt verst úti, þar sem húsbóndinn er fatlaður, veikur eða fjarvistum um lengri tíma. Þykir þessi breyt. því rétt.

Í 17. gr. segir svo : „Meðlag með börnum samkv. úrskurði og barnsfararkostnaður skal greiðast af lögreglustjóra, þar sem úrskurðinum er fram vísað.“ — Þetta er nýmæli, en það þykir réttara, að ríkið greiði þessi framlög en bæjarfélögin, sem nú annast þessar greiðslur. Þetta mundi einnig verða til aukins hagræðis fyrir barnsmæðurnar.

Þá er 19. gr., um skipun framfærslun. Í kaupstöðum kjósa verkalýðsfélögin einn mann í n. Er með þessu fengin nokkur trygging fyrir því, að réttur framfærsluþurfa verði ekki fyrir borð borinn vegna vanþekkingar á kjörum hans, en það hefur viljað við brenna, að slíkt hafi viljað henda, einkum þegar í framfærslun. hafa valizt miður velviljaðir menn eða aðrir, sem ekki þekkja nægilega ástæður, kjör og hugsunarhátt fólksins, sem l. ná til.

Í 27. gr. segir, að lögreglustjóra sé heimilt að úrskurða, að veitt sé bráðabirgðahjálp til framfærsluþega. Þetta hefur einstöku sinnum verið gert hér í Reykjavík, án þess að til hafi verið skýr lagafyrirmæli fyrir því, en rétt þykir að taka þetta upp hér.

Í 28. gr. kveður frv. okkar svo á, að skylt sé sveitarstjórn að sjá þeim börnum, sem eru undir hennar umsjá, fyrir þeirri menntun, sem hæfileikar þeirra standa til. Það hefur lengi verið á því hörmulegur misbrestur, að þeir, sem hafa haft umsjón sveitarstjórnar, hafi gert þetta. Hér er viðurkennt, að þessi börn eigi að fá ekki lakara uppeldi en börn bjargálna foreldra.

29. gr. frv. er um niðurfellingu á 2. og 3. málsgr. 48. gr. l., og er 2. mgr. þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Heimilt er sveitarstjórn að fara með fjárkröfur framfærsluþurfa á hendur öðrum mönnum, án þess að samþykki hans komi til“ — o. s. frv.

Þessi niðurfelling virðist alveg sjálfsögð og ætti ekki að þurfa skýringa við, því að það virðist í alla staði óréttlætanlegt, að fólk sé undir öðrum réttarfarslögum en aðrir ríkisborgarar, þótt það hafi þurft að leita til sveitar, — sem sé, að það sé svipt fjárforráðum af því einu, að það skuldar til sveitar.

Um 30. gr. frv. skal ég segja það, að hún dregur úr 50. gr. Sú skerðing á fjárráðum manna vegna ráðleysis ætti að vera nægileg, sem ákveðin er í þessari 30. gr. Hins vegar gæti verið hætta á misbeitingu laganna eftir 50. gr. núgildandi l. í sambandi við skerðingu á fjárforráðum.

Þá kem ég að 31. gr., sem er till. til breyt. á 51. gr. framfærslul., þar sem ákveðið er, að flytja megi mann hvert á land, sem er, og láta hann vinna hvaða vinnu, sem er, sem viðunanleg megi teljast, ef hann þiggur framfærslustyrk, en er þó vinnufær. En 31. gr. frv. miðar að því að breyta þessu í samræmi við frv. að öðru leyti, þannig að ekki megi flytja menn sveitarflutningi, enda virðist líka vera sjálfsagt, að framfærslun. og öðrum þeim, sem um framfærslumál fjalla, beri siðferðisleg skylda til þess að sjá mönnum, sem vinnufærir eru, fyrir atvinnu heldur en gera þá að ævilöngum styrkþegum. Það er vitað, að langvinnt atvinnuleysi lamar andlegt og líkamlegt þrek manna og maðurinn verður verri eftir. En sú vinna, sem slíkum mönnum má bjóða, sem um getur í 31. gr. frv., verður að vera við hvers slíks manns hæfi og á að vera vinna frjálsra manna, en ekki þræla.

Þá skal ég loks minnast á 44. gr. frv., þar sem talað er um, að skylt sé bæjarstjórnum og hreppsnefndum, að fengnum till. framfærslun., að ákveða innan þriggja mánaða, hvort þeginn framfærslustyrkur skuli afturkræfur af styrkþega — o. s. frv. Það virðist með öllu ástæðulaust, að láta framfærsluskuldir hrúgast upp á þá menn, sem sýnilega verða aldrei borgunarmenn fyrir þeim. Jafnvel þó að heimilishagur slíks manns blómgaðist svo mikið, að hann kæmist af hjálparlaust, þá er það ekki mikil uppörvun fyrir manninn að eiga það alltaf yfir höfði sér, ef hann er að rogast með margra ára framfærsluskuldir, að vinni hann sér inn meira en til brýnustu þarfa, þá renni það allt til skuldalúkningar, en ekki til heimilis hans.

Skal ég svo láta útrætt um frv. sjálft, en víkja að því nokkrum orðum, að það er ekki ófyrirsynju, að við flytjum þetta frv. hér.

Því verður ekki neitað, að einn allra svartasti bletturinn á þjóðlífi voru voru sveitarflutningarnir illræmdu, þegar heilum fjölskyldum var miskunnarlaust sundrað, ef þær gátu ekki séð sér farborða af eigin rammleik. Það þurfti oft ekki mikið til þess, að slíkt dyndi yfir fjölskyldur sem reiðarslag: heilsumissir fyrirvinnunnar og önnur hendanleg óhöpp. Og svo var almenningsálitið hér fyrrum miskunnarlaust, að allajafna var það talin skömm og hneisa að þiggja af sveit og lagt þeim, sem það gerðu, til lasts, þeir taldir letingjar og ónytjungar. Og þetta kom ekki síður niður á börnum, sem fyrir þessu urðu. Um meðferð hreppsómaga og þurfalinga þarf ekki að tala. Hún var auðvitað misjöfn, en oft vildi við brenna, að hún væri fyrir neðan allar hellur.

Hina beztu menn hryllti við þessari lítilsvirðingu á almennum mannréttindum og börðust löngum gegn henni. Ég nefni ekki nein nöfn í sambandi við þessa baráttu. Mörg rimman var háð hér á hæstv. Alþ., en þó munu skáldin okkar hafa lagt einna drýgstan skerfinn til. Fyrir þeirra aðgerðir og annarra góðra manna var svo komið, löngu áður en þeim, sem af sveit þiggja, var sýnd lagaleg viðurkenning á rétti þeirra, að meðvitund þjóðarinnar fordæmdi sveitarflutninga sem forsmán, sem ekki væri sæmandi nokkurri þeirri þjóð, sem siðmenntuð vildi teljast. Það leið þó furðulangur tími, þangað til sú barátta var að öllu verulegu leyti til lykta leidd hér á þingi og réttur þeirra einstaklinga, sem af sveit þiggja, viðurkenndur. En fyrir þunga þeirra raka, að það er ekki einstaklingnum að kenna, þótt hann verði ósjálfbjarga, þegar einstöku aumingjum er sleppt, heldur því þjóðfélagi, sem við lifum í, ávannst þetta smátt og smátt.

Hvert í ósköpunum átti fátækur verkamaður að snúa sér, ef hann missti atvinnu sína? Hann átti ekki um annað að velja en sultinn eða styrk frá því opinbera, og þótt styrkur þess opinbera væri allajafna einungis til að sefa sárasta sult hans og barna hans, þá var hér raunverulega um enga völ að ræða. Það var komið svo, að enginn láði honum þetta, enginn maður, sem ekki var fullur fordóma og blindaður af sjálfbirgingshætti og trú á framtak hins fátæka einstaklings, jafnvel í þessu þjóðfélagi, enginn maður, sem heilbrigða skynsemi átti til að bera.

Fyrir þunga þessara raka og réttarmeðvitund þjóðarinnar var framfærslul. smámjakað í frjálslyndara horf, og má t. d. heita, að með breyt. á l., sem gerð var 1935, en þá var sveitfestin afnumin, að sveitarflutningar hafi lagzt niður hér á landi.

En þeir fátæklingarnir, sem til þess opinbera þurftu að leita, voru ekki lengi í þessari paradís. Á hinu háa Alþ. 1939, á þjóðstjórnarárunum, voru í einni svipan afnumin réttindi þeirra, sem áunnizt höfðu með áratuga baráttu. Sveitfestin var aftur lögfest og flutningar þurfalinga í lög teknir aftur. Áður hafði aðeins verið heimilt að flytja þá á þá sveit, sem þeir höfðu unnið sér sveitfesti í, en nú mátti flytja þá hvert á land, sem var, og setja þá til hvaða vinnu, sem var og við hvaða kjör, sem var, og á ég hér við ákvæði 51. gr. núgildandi framfærslul. Með breyt. þessum var einnig breytt anda l., og út úr þeim má nú lesa aftur, að þurfalingar eru menn, sem nenna ekki að vinna, letingjar og ónytjungar. Auk þess var hnýtt aftan í l. ákvæði til bráðabirgða, þar sem sett var sérstök n. á laggirnar, sem hafði vald til þess að grípa fram fyrir hendur þeirra framfærslun. eða sveitarstjórna, sem kynnu að virða að vettugi fyrirmæli þessara afturhaldssömu laga.

Ég skal ekki hér fara inn á það, hvað fyrir þeim hv. þm. hefur vakað, sem stóðu að þessari breyt. Þjóðstjórnarárin eru og verða einn dekksti bletturinn í öllu löggjafarstarfi voru. Margir þessara þm. höfðu áður gert sitt til að breyta framfærslul. í rétta átt, og verður það t. d. ekki frá Alþfl. tekið, að hann barðist þar góðri baráttu fram til ársins 1936.

Sem betur fór hefur lítt reynt á þessa löggjöf, því að eins og allir vita, hefur fátækraframfæri minnkað allverulega með batnandi afkomu alls almennings. En það er staðreynd, að þessi ljóta löggjöf er enn við líði, og þann blett þarf að þvo af. Enn eru margir þessara þm. hér, og nú hafa þeir tækifæri til að hreinsa sig. Með samþykkt þessa frv. yrði mikið áunnið í réttindabótum fyrir smælingja þjóðarinnar. Og víxlspor þau, sem þeir tóku árið 1939, yrði þeim með samþykkt þessa frv. margfaldlega fyrirgefið.

Við getum ekki litið á framfærslulöggjöfina, hversu frjálslynd sem hún væri, öðruvísi en sem bráðabirgðaráðstöfun, þar til alþýðutryggingar eru komnar í það horf, að hver þjóðareinstaklingur á á því skýlausan rétt, að honum sé borgið, þótt yfir hann dynji hendanleg óhöpp, hvort heldur er atvinnuleysi, sjúkdómar eða annað. En þangað til slíkt verður, ber að vanda framfærslulöggjöfina svo, að hún sé þjóðinni til sóma, en ekki til skammar.