26.01.1945
Efri deild: 111. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (3347)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég hef ekki sent út prentaða brtt., vegna þess að ég var að bíða eftir því, að hv. 3. landsk. ætti samtal við mig um þetta mál, áður en þessi síðasta umr. færi fram hér í d. Nú heyri ég, að hann hefur ekki haft tíma til að halda fund um málið, en hefur flutt víðtæka brtt. við frv. Í tilefni af því mælist ég til þess, að þessari umr. sé frestað, svo að menn geti fengið tíma til að átta sig á brtt., ekki sízt þar sem ég mun bera fram aðra skrifl. brtt.

Ég minntist á það um daginn, að það þyrfti að búa betur að hinum fámennu og afskekktu læknishéruðum í landinu, svo að þau gætu átt kost á læknisþjónustu. Frsm. hefur ekki treyst sér til að taka neitt, sem tryggir það, inn í sína till. Ég leyfi mér hér með að bera fram brtt. við fyrstu málsgr. Þar skal koma nýr liður, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: Þyki nauðsynlegt að dómi heilbrigðisstjórnarinnar að reisa sjúkraskýli eða læknisbústaði til tryggingar læknisþjónustu í afskekktum eða fámennum héruðum, greiðir ríkissjóður það af kostnaðinum, sem nauðsynlegt þykir til þess, að byggingunum verði komið upp. — Ég tel óhjákvæmilegt, að reynt sé að tryggja með þessum l. fámennum héruðum læknisþjónustu. Og á það var einmitt lögð mikil áherzla við umr. í Sþ., þegar rætt var um skipun mþn. til að endurskoða þessi l. En það er ekki reynt með þessu frv., sem hér liggur fyrir. Frv. skapar hinum fámennu héruðum aðeins jafna aðstöðu og öðrum, en það er engan veginn nóg til að tryggja þeim viðunandi læknisþjónustu. En með samþykkt minnar brtt. er þó leitazt við að ráða bót á þessu. Að sinni sé ég ekki ástæðu til að ræða till. fullkomlega. Ég vænti, að umr. verði frestað, svo að hv. þm. gefist kostur að athuga till., þegar búið er að prenta þær.