31.01.1945
Efri deild: 115. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í B-deild Alþingistíðinda. (3363)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég vil segja, að mér finnst þetta einkennileg afgreiðsla frá hv. n. Hér er sandur af brtt. við 3. umr., sem enginn tími er til að athuga. Hv. n. hefur gengið svo frá málinu við 2. umr., að hún er sammála um, að frv. skuli ná fram að ganga óbreytt, en kemur síðan við 3. umr. með brtt. við málið.

Ég hefði viljað fylgja brtt. hv. þm. S.-Þ. á þskj. 955, en ef á að samþ. hana, verður einnig að samþ. 3. og 4. málsgr. 1. gr. á þskj. 657, sem ég alls ekki get fylgt. Það er líka áreiðanlegt, að síðasta málsgr. er þannig, að hv. n. hefur aldrei ætlazt til, að hún færi svona úr hæstv. Alþ., og því leggur hún til á síðustu stundu, að þetta sé lagað nú.

Ég vildi því beina þeirri fyrirspurn til hv. n., hvort hún vill ekki enn taka þetta mál til athugunar og fá eitthvað vit í það, áður en það verður afgreitt. Skal ég svo láta útrætt um það atriði.

Þá er ég einnig undrandi, ef á að taka það sem vilja allrar hv. n. að vera á móti till. á þskj. 962, en hv. frsm. lýsti yfir því, að 4/5 hlutar hennar séu henni mótfallnir. Ég er þó enn þá meira undrandi yfir þeim rökum, sem hv. þm. færði fyrir því að vera á móti till. Hann taldi það með öllu ótækt að láta þetta vald í hendur ráðh. Hann vildi ekki, að það vald hvíldi á ráðh. að kveða á um, hve mikið fram yfir það, sem ákveðið er í l., skyldi á hverjum tíma veitt úr ríkissjóði, til þess að koma upp þeim læknisbústöðum í afskekktum héruðum, sem vitað er, að íbúarnir sjálfir geta ekki staðið undir. — En hv. n. þykir ekki margt að því að veita ráðh. vald til að ákveða, að þetta fé skuli ekki veitt, nema hann hafi fallizt á þörf framkvæmdanna og metið þær, því að í 1. gr. frv. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkissjóður greiðir sveitar- (bæjar-, sýslu-)félögum allt að tveim fimmtu kostnaðar af að reisa almenn sjúkraskýli eða læknisbústaði, sem reistir verða samkv. ákvæðum laga þessara, enda fallist ráðherra á þörf þeirra framkvæmda og meti þær við hæfi.“

Hvernig getur nú hv. n. látið svona frá sér fara? Annars vegar viðurkennir hún, að það sé sjálfsagt. að læknisbústaðir fái engan styrk, nema viðkomandi ráðh. viðurkenni þörf þeirra framkvæmda, en hins vegar vill hún ekki veita honum vald til þess að meta ásamt landlækni, hvort það sé nauðsynlegt að veita meira en þetta fé, svo að eitt læknishérað sé ekki alveg þjónustulaust.

Brtt. mín miðar að því að tryggja, að unnt verði að reisa sjúkrahús eða læknisbústaði í afskekktum eða fámennum héruðum, til þess að fá læknisþjónustu í héraðið. Reynist hins vegar hægt að fá læknisþjónustu án þess, er ástæðan þar með fallin burtu, og eins og hver maður hlýtur að sjá, er ekki neitt vald tekið af ráðh. samkv. ákvæðum þessara l., þar sem. þau aðeins gilda í þeim tilfellum. að ekki sé hægt að fá læknisþjónustu að öðrum kosti.

Ég er því alveg undrandi yfir þeim rökum. sem hér hafa verið borin fram. Og þá minnist ég einnig annars, sem hér hefur skeð nýlega. ... Það kann vel að vera, að það hafi verið einhverjir sérstakir eiginhagsmunir fyrir þeirra kjósendur, þegar verið var að ganga frá þessu máli. En það er ekkert samræmi í því, ef á annan bóginn þykir ekki tiltækilegt að láta ráðh. hafa mjög takmarkað vald. en í hinu tilfellinu má láta hann hafa ótakmarkað vald, sem áður hefur alltaf verið hjá þinginu. Ég vil því biðja hv. frsm. að endurskoða rök sín fyrir þessu máli.

Ég vil að síðustu beina þeirri ósk til hv. 4. landsk., sem ég býst við, að taki brátt aftur við forsetastörfum, að hann fresti nú atkvgr. um þetta mál, á sama hátt og hann frestaði áður atkvgr. um annað mál, af því að þm. vantaði í d., svo að ekki verði greidd atkv. um málið, nema d. sé fullsetin. Ég vil vita, hvaða hv. þm. það eru, sem vilja ekki bæta úr þeirri brýnu nauðsyn, að erfiðustu læknishéruðin fái nauðsynlega læknisþjónustu, en þessi gr. fer ekki fram á neitt annað. Það má gjarnan standa með nafnakalli í Alþt., hverjir það eru, sem bera svo litla umhyggju fyrir fámennustu og fátækustu héruðunum, að þeir vilji ekki skeyta um, þó að þau fái ekki nauðsynlega læknisþjónustu framvegis.