31.01.1945
Efri deild: 115. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1341 í B-deild Alþingistíðinda. (3366)

221. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég hafði ekki athugað brtt. á þskj. 955, þegar ég sagði þessi fáu orð áðan. Hv. síðasti ræðumaður og hv. þm. Barð. hafa mælzt til, að málinu verði á ný frestað og tekið til athugunar af n. Ég vil að sjálfsögðu ekki setja mig á móti því. en ég vil þó taka fram, að eftir þær umr., sem fóru fram í n. á síðasta fundi, þykir mér ekki sennilegt, að n. komist að frekara samkomulagi en orðið er. Á hinn bóginn sé ég ekki, að neitt sé því til fyrirstöðu formsins vegna, að samþ. verði bæði brtt. á þskj. 874 og 955. En þó að þær væru ekki formlega fullkomlega samrýmanlegar, þá eru þess ekki fá dæmi, að síðari d. sé ætlað að taka til athugunar ýmis atriði, sem ekki hefur unnizt tími til að ganga frá í fyrri deildinni.

Út af því. sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, að ef brtt. mín yrði samþ., þá væri lögð refsing, ekki á Eyjafjarðarsýslu, heldur þá íbúa hennar, sem yrðu veikir og þyrftu að liggja á sjúkrahúsi á Akureyri, þá held ég. að þetta sé ekki rétt. Ég hygg, að ef mín brtt. er samþ., þá hlyti að fara svo, að annaðhvort yrði félagsskapur um sjúkrahúsið milli sýslunnar og Akureyrarkaupstaðar eða þá, sem ekki er ólíklegt, að samningar yrðu milli sýslunnar og kaupstaðarins um, að sýslan greiddi samsvarandi styrk til sjúkrahússins vegna sjúklinga, sem legið hafa þar úr sýslunni, við það, sem ríkissjóður samkvæmt frv. á að greiða, og ég verð að segja, að mér finnst það ekki óeðlilegt.

Það er bezt að segja það eins og það er, að það er rétt, sem hv. þm. sagði, að allt er á huldu með, hvað yrði úrskurðað nærliggjandi hérað. en það eru svo mörg atriði frv., sem hljóta að liggja undir úrskurði, að ég held, að verði að treysta á slíka úrskurði.

Það er augljóst í sambandi við byggingu fjórðungssjúkrahúss á Akureyri. að á fjórðungssjúkrahúsum og öðrum sjúkrahúsum er sá meginmunur, að þau eru miklu stærri en gert er ráð fyrir, að þörf kaupstaðarins krefji, og fyrir það leggur ríkissjóður meira til byggingar þessa sjúkrahúss en annarra. En vegna þess að það er stærra en svo, að það samsvari þörf kaupstaðarins, þá er ekki óeðlilegt; að heilbrigðisstjórnin setji þau skilyrði, að fleiri taki þátt í rekstrinum og standi undir honum og njóti þeirra kjara, sem sjúkrahúsið getur veitt. Viðurkenning fyrir, að það sé fjórðungssjúkrahús, liggur í því, að sjúklingar fyrir utan kaupstaðinn í nærliggjandi héraði greiða halla, sem sjúkrahúsið ber af þeim. Ég held því, að það sé fjarri lagi hjá hv. þm., að nokkur refsing sé lögð á íbúa Eyjafjarðarsýslu, þó að þessi till. verði samþ.

Að því er varðar ummæli hv. þm. Barð., þá gefa þau ekki tilefni til andsvara umfram það, sem hann svaraði í sinni ræðu, en á henni var fullkomlega ljóst, að ef till. er samþ. eins og hún er, þá eru í raun og veru þessi l. að engu gerð, að því er snertir almenn sjúkrahús og sjúkraskýli, því að þegar heilbrigðisstj. metur þessa þörf samkvæmt tili. eins og hún er hjá hv. þm., þá getur ríkisstj. veitt allt, sem hún telur þörf til að koma þeim upp, jafnvel allan kostnað. Segir það sig sjálft, að með þessu eru l. að engu gerð. Veit ég ekki til, að nein hliðstæða sé til fyrir þessu í l. (GJ: Jú, t.d. í l. um hafnarbótasjóð, sem verið var að samþ.) Þar er þó miðað við fé sjóðsins, en þetta er almennt.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég sé ekki ástæðu til, að málinu verði á ný vísað til n., því að frá henni sé ekki sameiginlegra till. að vænta.